þriðjudagurinn 5. september 2017

Ályktun um atvinnu- og byggðamál

LJósmynd: Gústi
LJósmynd: Gústi

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga, krefst þess að stjórnvöld gefi íbúum Vestfjarða skýr svör og höggvi nú þegar á þá hnúta sem standa atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum fyrir þrifum. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi við Ísafjarðardjúp verði slegið á frest eða laxeldi settir þvílíkir afarkostir að ekki verður unt að hefja raunhæfa uppbyggingu laxeldis við Djúp.

Lífsnauðsynlegt er að skjóta öruggari stoðum undir byggð á Vestfjörðum og tryggja atvinnuöryggi þannig að hægt sé að styrkja grunnþætti atvinnulífs í fjórðungnum.  Megin áhersla atvinnuppbyggingar snúi að sjávartengdri atvinnustarfsemi auk nýtingu allra þeirra auðlinda sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Stjórn félagsins bendir á þann mikla viðsnúning í atvinnulífi og uppbyggingu sem orðið hefur á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu nýrra atvinnutækifæra.

Í dag er óhóflegur flutningskostnaður rafmagns ásamt erfiðum rekstrarskilyrðum vegna ótryggrar raforku og skorts á boðlegum heilsárssamgöngum innan Vestfjarða mikil ógn við atvinnuöryggi í fjórðungnum. Alþingi á að boða lagasetningu á Teigsskógshnútinn sem framhald við Dýrafjarðargöng og endurbætur Dynjandisheiðar. Nauðsynlegt er að stórbæta afhendingaröryggi raforku í fjórðungnum með því að ráðast strax í byggingu Hvalárvirkjunar. Slíkt verði í sátt við náttúru og samfélag þó þannig að íbúar svæðisins fái að njóta vafans.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga minnir á að landsbyggðin ráðstafar um 30-80% af sínum tekjum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eingöngu 10-20% af sínum tekjum í hendur lögaðila á landsbyggðinni. Því eru það sjálfsögð mannréttindi að búsetuskilyrði á Vestfjörðum komist inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Við viljum að fólkið okkar sé sett í forgang og hér verði sköpuð skilyrði til atvinnuppbyggingar í sátt íbúa og náttúru.

Vestfirðingar eru ekki að biðja um neitt meira en fá að bjarga sér.

Ísafirði 4. september 2017 

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.