„Það er dýrt að hækka laun á Íslandi“. Þannig hefst pistill Ástu S. Fjeldsted framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands og má jafnvel skilja inngangin sem svo að íslenskt atvinnulíf sé komið á heljarþröm.  Megin þungi pistilsins er á launatengd gjöld og að fríðindi starfsmanna valdi því hversu erfitt og dýrt það sé að hækka laun. Þannig heldur Ásta áfram og segir of háan launakostnað bitna á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Með því sé verið að berja niður nýsköpun og fæla erlend og innlend fyrirtæki frá því að byggja upp atvinnustarfsemi hér á landi. Starfsfólk íslensku fyrirtækjanna hafi svo mikil fríðindi og auk fríðindann fái þeir líka orlofsrétt að ótöldum dýrum lífeyrisréttindum.

Ásta bítur eiginlega höfuðið af skömminni með því að ýja að í raun fái starfsfólkið einungis tæplega 2/3 af launum í eigin vasa og því þurfi eiginlega ekki að hækka laun. Gleymum heldur ekki blessuðum stöðuleikanum sem starfsfólkið á alltaf að bera. Hvers konar málflutningur er þetta? hvaða tilgangi á hann að þjóna? Jú, svarið er einfalt. Málflutningurinn er til þess fallinn að slá ryki í augu þeirra sem lesa pistilinn og telja atvinnurekendum og starfsfólki trú um að laun á Íslandi séu of há og að hækkun launa skili sér í raun ekki til starfsfólks, nema að litlu leiti.

Í komandi sveitastjórnarkosningum er frambjóðendum tíðrætt um að útrýma hinu og þessu. Útrýma á svifryki, húsnæðisskorti og skorti á leikskólaplássum. Eitt stingur þó í augum, enginn frambjóðandanna sem stigið hafa á stokk segjast ætla útrýma fátækt. Ætli það sé meðvituð ákvörðun frambjóðanda að ætla ekki að útrýma fátækt. Er það kanski vegna „hversu dýrt er að hækka laun á Íslandi“ og til að ógna ekki stöðugleikanum?

Það er ljóst að öllu ráðum skal beita til að verja stöðugleika fjármagnseigenda, þá má grípa til gamalkunnra blekkinga og smjörklípan í pistli Ástu er að svigrúm til launahækkana sé lítið og launahækkanir skili sér að takmörkuðu leiti til starfsfólks.  

Atvinnulíf á Íslandi er um þessar mundir á toppi gríðarlegarar hagsveiflu, það staðfesta fréttir af ofurbónusum forstjóra. En afkomubónusar stjórnenda og arðgreiðslur til hluthafa hljóta að segja okkur hinum hversu vel gengur í íslensku atvinnulífi. Hækkun launa æðstu stjórnenda fjömargra fyrirtækja virðist að minnsta kosti ekki vera eins dýr og þegar kemur að hækkun launa til starfsfólksins. Varla þarf að minna á ofurbónusa sem forstjórar nokkra stórfyrtækja fengu og numu tugum milljóna fyrir árið 2017. Þar fara launahækkanir sem byggja einna helst á árangurstengdum bónusum sem segir okkur að afkoma fyrirtækjanna hafi í raun verið mjög góð, og líka að í raun sé nægt svigrúm til launahækkana á Íslandi.

Fyrir mér er það ekki trúverðugur málflutningur að þeir sem eru í forsvari fyrir atvinnulíf, sem borgar forstjórum og æðstu stjórnendum tug milljóna launahækkanir í skjóli góðrar afkomu, ætli okkur hinum að standa undir stöðuleikanum með litlum launahækkunum.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.