Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefur undanfarið haldið opinn trúnaðarráðsfund og kjarafundi með félagsmönnum sínum víða um Vestfirði til að ræða stöðu mála varðandi forsendubrest í kjarasamningum og mögulega uppsögn samninga. Félagsmönnum Verk Vest svíður það siðleysi og gífurlegar launahækkanir sem sumir hópar fá í sinn hlut, sér í lagi hjá hinu opinbera og fyrirtækjum í eigu hins opinbera. Forsendubrestur samninganna er því ekki aðeins í krónum talinn, heldur heldur er hið mikla siðferðisrof sem átt hefur sér stað sláandi.

Þrátt fyrir að félagsmönnum okkar sé heitt í hamsi var samhljóma álit kjarafundanna að segja ekki upp samningum. Félagsmenn okkar vilja fá hækkunina 1. maí og vilja að verkalýðsforystan fari vel undirbúin af stað í harða kjarasamninga til að rétta okkar hlut í haust. Með þeim hætti höfum við meira til að byggja ofan á og náum væntanlega betri árangri.

Þetta eru skýr skilaboð félagsmanna til forystu Verk Vest, en við vinnum í umboði félagsmanna að hagsmunum þeirra og vilji félagsmanna kemur alltaf til með að verða okkar leiðarljós. Við þökkum félagsmönnum okkar skýr skilaboð og vonum að sami skýrleiki þjappi okkur saman í þeim átökum sem við stefnum í næsta vetur.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.