fimmtudagurinn 8. október 2015

SGS semur við ríkið

Fulltrúar SGS og samningarnefndar ríkisins við undirtun samningsins
Fulltrúar SGS og samningarnefndar ríkisins við undirtun samningsins

Samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins undirrituðu samning við samninganefnd ríkisins í dag (7. október 2015), vegna starfsfólks aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hjá ríkisstofnunum. Samningurinn er á svipuðum nótum og samið var um á almennum markaði í vor og gildir hann frá 1. maí síðastliðnum. Hækkun frá 1. maí er 25.000 krónur. Þann 1. júní árið 2016 hækka laun um 5,5%, að lágmarki 15.000 krónur auk breytinga á launatöflu. Ári síðar, eða 1. júní 2017,  hækka laun um 4,5% og 1. júní 2018 hækka laun um 3%. Samningurinn gildir til 31. mars árið 2019 og kemur þá til sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2019 uppá 45.000 krónur fyrir starfsfólk í fullu starfi og hlutfallslega fyrir starfsfólk í hlutastarfi. 

 • Kjarasamningurinn felur í sér verulegar launahækkanir við upphaf samnings þar sem að launataxtar hækka um 25.000 kr. eða að meðaltali um 9,78%.
 • Launataxtar hækka um 15.000 kr. þann 1. júní 2016 auk leiðréttingar á launatöflu sem jafngildir 5,9% hækkun að meðaltali.
 • Þann 1. júní 2017 hækka launataxtar um 4,5%
 • Þann 1. júní 2018 hækka laun um 3%.
 • Sérstök eingreiðsla kemur 1. febrúar 2019 að upphæð kr. 45.000, miðað við þá sem eru í fullu starfi 1. janúar 2019 og hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.
 • Lagðar verða til 30 milljónir árlega árin 2016 – 2018 til þess að samræma stofnanasamninga þar sem horft verður til þess að leiðrétta sérstaklega þá hópa sem eru með lægri röðun í launatöflu en aðrir sambærilegir hópar.
 • Framlag í fræðslusjóð eykst úr 0,67% í 0,82% sem er mjög jákvætt skref til þess að efla félagsmenn enn frekar í starfi.
 • Launataxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum hækka um tæplega 34% á samningstímanum.
 • Tekjutryggingin hækkar um 86.000 kr. á samningstímanum og verður komin í 300.000 kr. frá 1. júní 2018.
 • Orlofsuppbót hækkar um 21,5% á samningstímanum og fer í 42.000 kr. við upphaf samnings en verður komin í 48.000 kr. í lok samnings.
 • Desemberuppbót hækkar um tæplega 21% og fer í 78.000 kr. á árinu 2015 en 89.000 í lok samningstíma.

Samningurinn verður á næstunni lagður fyrir félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins.  Félög sem veitt hafa Starfsgreinsambandinu umboð munu halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu. SGS hvetur alla félagsmenn á kjörskrá til að nýta atkvæðisrétt sinn og greiða atkvæði með samningnum.

Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla hefjist þann 21. október og að henni ljúki 29. október. Talið verður úr sameiginlegum potti allra félaga SGS.

Nýjan samning má nálgast hér

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.