Drífa Snædal forseti ASÍ
Drífa Snædal forseti ASÍ

Sú undarlega staða gæti komið upp að samningar um ríkisstjórnarmyndun og kjarasamningsviðræður féllu saman að þessu sinni en forsendunefnd ASÍ og SA hafa komist að þeirri niðurstöðu að forsendur kjarasamninga hafi ekki staðist. Þrjár forsendur voru til grundvallar lífskjarasamningunum, lækkun vaxta, aukinn kaupmáttur og að stjórnvöld myndu standa við sínar yfirlýsingar. Nú er ljóst að stjórnvöld hafa ekki staðið við yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga og því hafa forsendur ekki staðist. Nú tekur við það ferli að samninganefndir ASÍ og SA tala saman en hvor aðili um sig getur sagt upp samningunum fyrir kl. 16 þann 30. september. Það er vilji hjá verkalýðshreyfingunni að samningarnir standi þrátt fyrir forsendubrest enda búið að semja um kauphækkanir á næsta ári og samningarnir eru á sínu síðasta ári  - renna út í nóvember 2022. Vinnumarkaðurinn er að rétta úr kútnum og þarf síst á átökum og óvissu að halda. Í kjarasamningunum sem voru undirritaðir vorið 2019 skipti aðkoma ríkisstjórnarinnar sköpum. Á spýtunni héngu skattabreytingar, barnabætur, fæðingarorlofið, húsnæðismál, umgjörð vinnumarkaðarins, vextir og lánamál auk lífeyrismála svo eitthvað sé nefnt. Það er rík hefð fyrir því að fara í þríhliða viðræður enda skiptir öllu máli fyrir daglegt líf launafólks hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka á hverjum tíma. Kjarabætur geta komið í ýmsum myndum og þegar reynir á skiptir öllu að við séum með traust heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi. 

Það er því engin tilviljun að ASÍ, eins og önnur almannasamtök, hafi beitt sér í kosningabaráttunni og látið flokkana standa til svars um þau mál sem félagar í ASÍ vilja setja á oddinn; heilbrigðismál, húsnæðismál, skattamál og afkomuöryggi. 

Það bíða nýrrar ríkisstjórnar stór verkefni í sókn okkar til bættra lífskjara. Þar má finna leiðbeiningar í þeim fjölmörgu skýrslum sem ASÍ og Varða - rannsóknarmiðstöð vinnumarkaðarins hafa unnið undanfarið um hvar skóinn kreppir og hvernig má fjármagna aukna velferð. Við erum á krossgötum eftir efnahagslægð og nú kemur í ljós hverjir vilja fara leið sölu ríkiseigna, útvistunar og skertrar þjónustu til að greiða upp skuldir og hverjir vilja fara þá leið að vaxa út úr kreppunni vitandi það að lífskjör almennings knýja áfram hjól atvinnulífsins. Án kaupmáttar hins almenna borgara eru fáir til að halda uppi atvinnurekstri, sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. 

Enn á ný er húsnæðismarkaður orðin rót óstöðugleika í hagkerfinu. Peningastefnan hefur þrýst á húsnæðisverð og leiguverð fer hækkandi á ný. Þessi þróun er nú meginorsök verðbólgunnar. Engu að síður heyrist kunnuglegur söngur um að kosningaloforð og nauðsynleg umbótamál muni leiða til vaxtahækkana. Það hlýtur að vera hagur allra, ekki bara launafólks heldur líka atvinnurekenda, að fólk geti lifað með reisn, haft aðgang að kerfi sem bætir heilsuna og búið í góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Við getum ekki unað því að fólk verði fátækt og heilsubresti að bráð í ómanneskjulegu samfélagi. 

Alþýðusamband Íslands er tilbúið til að leggja þeirri ríkisstjórn lið sem setur atvinnuöryggi, afkomuöryggi og húsnæðisöryggi í forgang, það er líka lykillinn að friði á vinnumarkaði næstu árin.

Góða helgi,
Drífa


Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í kjaraviðræðum þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Framganga útgerðarinnar í viðræðum við sjómenn vekur furðu og er með öllu óásættanleg.

Þann 6. september slitu sjómenn kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hjá ríkissáttasemjara. Sýnt var að vilji stórútgerðarinnar til að finna lausn á kjaradeilunni var ekki fyrir hendi. Sérhverri tillögu sjómanna var svarað með gagntilboðum sem voru með öllu óaðgengileg.

Steininn tók úr þegar útgerðin lýsti sig ekki tilbúna til að auka framlag í lífeyrissjóð nema sá kostnaður yrði að fullu bættur með skertum kjörum sjómanna. Minnt skal á að krafan um aukið framlag í lífeyrissjóð felur það eitt í sér að sjómenn njóti þess sama og samið hefur verið um við aðra hópa.

Vart getur það talist undrunarefni að sjómenn neiti að taka á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samningsins.

Sjómenn hafa nú verið samningslausir í 19 mánuði. Miðstjórn ASÍ telur þá stöðu mála ólíðandi og krefst þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi láti af þvermóðsku og óbilgirni í viðræðum við sjómenn. Álögur á sjávarútveginn eru ekki slíkar að sú framganga geti með nokkru móti talist réttlætanleg, hvað þá eðlileg.


fimmtudagurinn 16. september 2021

Laun félagsmanna Verk Vest duga ekki til framfærslu

Hversu oft síðastliðin fimm ár tekið lengra en tveggja vikna sumarfrí
Hversu oft síðastliðin fimm ár tekið lengra en tveggja vikna sumarfrí

Fyrir tæpu ári síðan lagði Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, upp í verkefni til að afla upplýsinga um stöðu fólks á vinnumarkaði með tilliti til fjárhagsstöðu og heilsu. Kristín Heba, framkvæmdastjóri Vörðu heimsótti stjórn Verk Vest og kynnti skýrslu um rannsóknina þar sem borin er saman staðu launafólks innan Verk Vest við stöðu launafólk á landsvísu. Rétt er að benda á að könnunin er tekin í miðju Covid-ástandi.

Samsetning þátttakenda í könnuninni eru 57% konur og 43% karlar. Hjá Verk Vest voru 19% svarenda 19 ára og yngri, en hjá heildarsamtökunum voru 15% svarenda 19 ára og yngri. Svarendur voru 206, eða 11,6% félagsmanna Verk Vest sem er mjög góð svörun og er hópurinn blandaður hópur skilgreindra innflytjenda og Íslendinga.

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda eru fjölskyldufólk, en 79% svarenda var í launaðri vinnu og 8% atvinnulaus. Hlutfall þeirra sem nýtt hafa hlutabótaleiðina á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd er hærra hjá félagsmönnum Verk Vest en á landsvísu (26% kvenna og 30% karlar).

Fjárhagsstaða svarenda er þannig að fáir hafa það gott, flestir ná endum saman, en um 25% eiga erfitt með að ná endum saman en almennt eiga konur erfiðara fjárhagslega. Um 12% svarenda hafa þurft að þiggja fjárhagsaðstoð.

Varðandi heilsufar búa 24% svarenda hjá Verk Vest við slæma andlega heilsu, 14% búa við slæmt líkamlegt heilsufar og 35% hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar (ath. að tannlækningar eru líka hér undir). 42% ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu.

Alvarlegast eru þó þær staðreyndir sem koma fram að fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum og ekki farið í árlegt frí með fjölskyldu. Um 6% svarenda eru með lán og/eða leigu í vanskilum, 5% hafa ekki efni á kjötmáltíð annan hvern dag og 5% hafa ekki efni á að reka bíl. Þá búa 5% svarenda við fátækt og auk þess eru 9% við fátæktarmörk. Allmargir eða 71% búa í eigin húsnæði, 16% leigja á almennum markaði og 4% leigja hjá leigusamtökum. Hinsvegar búa 8% félagsmanna Verk Vest hjá ættingum. Svo virðist samkvæmt sumum mælikvörðum í könnuninni sem karlar lifi við nokkru verri kost en konur.

Sérstaka athygli vekur að 14% svarenda sem þó eru í fullri vinnu lifa við fátækramörk eða hreint út sagt fátæk, en almennt um stöðuna segir Kristín Heba niðurstöðurnar slæmar. Svo virðist að fjárhæð launa sé ekki málið, heldur sú staðreynd að launin eru klárlega of lág.

Könnunin staðfestir því með óyggjandi hætti að þeir sem eru í verkamannavinnu á lágmarkslaunum hafa alls ekki nóg til daglegrar framfærslu.


miðvikudagurinn 8. september 2021

Skattar og ójöfnuður - íslenskur raunveruleiki!

Í aðdraganda Lífskjarasamninga krafðist Alþýðusambandið breytinga á tekjuskattkerfinu. Skattbyrði hinna tekjulægstu hafði aukist um áratugabil og dregið úr kaupmáttaraukningu launafólks.

Í nýrri skýrslu ASÍ Skattar og ójöfnuður - Réttlátara og skilvirkara skattkerfi er sjónum beint að skattlagningu fjármagns og auðlindagjöldum á Íslandi. Veikleikar í íslensku skattkerfi eru dregnir fram og bent á glufur sem nýttar eru til skattasniðgöngu. Stjórnvöld standa frammi fyrir stórum áskorunum í ríkisfjármálum og fyrirséð að heilbrigðis- og velferðarútgjöld muni aukast samfara öldrun þjóðar.

Með einföldum úrbótum á íslensku skattkerfi væru tekin markviss skref í átt að réttlátara og skilvirkara skattkerfi og sterkari tekjustofnum hins opinbera.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Á Íslandi bera fjármagnstekjur mun lægri skattbyrði en launatekjur. Skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur aukast. Þetta er andstætt markmiði framsækinna skattkerfa, sem byggir á því að skattbyrði hækkar eftir því sem tekjur aukast.
  • Þegar skattur á fjármagnstekjur er lægri en skattur á laun skapast hvatar fyrir einstaklinga í eigin atvinnurekstri til að telja laun fram sem fjármagnstekjur, svokallaður tekjutilflutningur (e. income shifting). Ef regluverk skattkerfisins kemur ekki í veg fyrir það brýtur í bága við hlutleysissjónarmið. Hlutleysi skattkerfis gerir að verkum að ákvarðanir eru ekki teknar út frá skattalegu sjónarmiði.
  • Tekjutilflutningur felst í því að launatekjur eru ranglega skráðar sem fjármagnstekjur. Skýrar vísbendingar eru um að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings viðgangist hér á landi. Það á aðallega við um atvinnurekendur með háar tekjur.
  • Ólíkt Norðurlöndunum hafa Íslendingar ekki brugðist við framangreindum veikleikum. ASÍ telur að reglur sem takmarka tekjutilflutning myndu auka árlegar skatttekjur um á bilinu 3-8 milljarða króna
  • Veikleikar í skattkerfinu ýta undir ójöfnuð í samfélaginu og eignamisskiptingu. Afnám auðlegðarskatts dró úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Innleiðing á skynsamlega útfærðum stóreignaskatti á verulega miklar eignir myndu auka tekjur ríkissjóðs um meira en 20 milljarða á ári og jafnframt jafnaskattbyrði eftir hækkandi itekjum.
  • Móta þarf skýran ramma um auðlindagjöld. Gjaldheimta þarf að ná yfir nýtingu ólíkra auðlinda, t.d. fiskveiði, fiskeldi, framleiðslu raforku og nýtingu sem felst í þjónustu við ferðamenn. Færa þarf gjaldheimtu auðlindagjalda undir eitt ráðuneyti.
  • Veiðigjöld voru 4,9 milljarðar á síðasta ári en mat á auðlindarentu fiskveiða fyrir árin 2008-2019 er á bilinu 30-70 milljarðar á ári en fyrir 2017 var rentan þó metin 15 milljarðar..
  • Ráðast þarf í markvissar aðgerðir gegn skattsvikum og undanskotum sem áætlað er að kosti samfélagið tugi milljarða ár hvert.

þriðjudagurinn 7. september 2021

Kjaraviðræðurnar við SFS sigldu í strand

Eftir árangurslausar viðræður við SFS um endurnýjun kjarasamninga sjómanna frá því að samningarnir losnuðu þann 1. desember 2019 til febrúar 2021 var ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í von um að eitthvað færi að ganga í viðræðunum. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara með bréfi dags. 17. febrúar 2021.

Helstu kröfur sjómanna voru hækkun kauptryggingar og kaupliða hjá sjómönnum til jafns við hækkanir skv. lífskjarasamningnum sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, fiskverðsmál, aukið mótframlag í lífeyrissjóð og fleira er snýr að réttindamálum og lagfæringum á samningnum til að gera hann einfaldari og auðskildari fyrir þá sem eiga að vinna eftir honum.

Nú hafa verið haldnir yfir 20 fundir hjá ríkissáttasemjara og á fundi þann 6. september síðastliðinn slitnaði upp úr viðræðunum þar sem of mikið ber í milli aðila. Helst strandar á að útgerðarmenn eru ekki tilbúnir til að auka mótframlagið í lífeyrissjóði sjómanna um 3,5% stig nema fá þann kostnað að fullu bættan og rúmlega það með auknum álögum á sjómenn með meiri þátttöku þeirra í ýmsum kostnaði útgerðarinnar. Sem dæmi hefur SFS ítrekað reynt að fá sjómenn til að samþykkja lækkun á hlutaskiptunum, samþykkja þátttöku í veiðigjöldum útgerðarinnar, samþykkja aukna þátttöku í kostnaði vegna slysatryggingar sjómanna og að samþykkja nýtt ákvæði um afslátt af skiptahlut vegna nýrra skipa. Þetta hafa þeir viljað fá gegn því að auka framlag útgerðarinnar í lífeyrissjóð sjómanna.

Helstu atriði síðasta tilboðs útgerðarinnar til sjómanna var að hækka kauptryggingu og kaupliði um aðeins tæpan helming af því sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, aukið framlag í lífeyrissjóð kæmi til sjómanna í 7 þrepum, 0,5% stig á ári frá undirritun samnings og að samningstíminn yrði 12 ár. Gegn þessu fóru þeir fram á að þátttaka sjómanna í kostnaði við slysatrygginguna hækkað á samningstímanum þannig að sjómenn greiddu þriðjung iðgjaldsins og að útgerðin fengi 10% afslátt á aflahlutum í fjögur ár fyrir ný skip. Auk þess yrði frystiálag á nýjum frystitogurum lækkað varanlega úr 7% í 5%.

Þessum tillögum SFS höfnuðu fulltrúar sjómanna að sjálfsögðu.

Aðilar hafa verið sammála um að afnema olíuverðstenginguna og skipta úr heildar verðmætinu. Sjómenn buðu að skiptaprósentur yrðu reiknaðar niður m.v. 70% samhliða afnámi olíuverðsviðmiðunarinnar á móti auknu framlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóðinn. Útgerðin hefur ekki fallist á það og vill meira eins og hér hefur komið fram. Jafnframt hafa sjómenn boðið 6 ára samning, en vilja að sjálfsögðu leiðrétta kauptrygginguna og hækka hana til jafns við almennar launahækkanir í landinu og tryggja að á samningstímanum hækki kauptryggingin í takt við launahækkanir á almenna vinnumarkaðnum.

Þokast hefur í samkomulagsátt varðandi að breyta stærðarviðmiðun báta í kjarasamningnum úr brúttórúmlestum í skráningarlengd, en eins og menn vita er hætt að mæla ný skip og skip sem hafa farið í breytingar í brúttórúmlestum og veldur þetta vandamálum varðandi hvaða skiptaprósentur eiga að gilda fyrir þessa báta í hinum ýmsu veiðigreinum. Samkvæmt kjarasamningi á útgerðin að kaupa þessa mælingu, en gerir ekki enda kostar slík mæling mikið. Jafnframt hefur þokast í samkomulagsátt varðandi styrkingu á Verðlagsstofu skiptaverðs og lagfæringar varðandi verðlagningu á uppsjávarfiski.

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings sjómanna hafa nú siglt í strand vegna kröfu útgerðarinnar um að sjómenn taki á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samnings á forsendum útgerðarinnar. Í yfirlýsingu frá útgerðinni segir að ef fallist yrði á kröfur sjómanna hlypi kostnaður útgerðarinnar á milljörðum árlega. Þetta er rangt. Á móti stærsta kostnaðarliðnum, auknu mótframlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóð, hafa sjómenn boðið ýmislegt sem kemur útgerðinni til góða. Má þar nefna afnám olíuverðsviðmiðunar og 6 ára samningstíma. Auk þess er rétt að fram komi að í kjarasamningum á almenna markaðnum um jöfnun lífeyrisréttinda var gert samkomulag við stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds á atvinnureksturinn til að létta fyrirtækjunum að mæta hækkuðu mótframlagi í lífeyrissjóð sem samið var um á árinu 2016. Útgerðin fékk lækkunina eins og annar atvinnurekstur á Íslandi en hefur ekkert lagt á móti til lífeyrismála sjómanna. Að lokum má nefna að með breytingu á stærðarviðmiði skipa sparar útgerðin sér kostnað við að láta mæla skipin í brúttórúmlestum. Allt það hagræði sem útgerðin fengi með því að ganga að tilboði sjómanna virða þeir einskis enda markmið þeirra að lækka laun sjómanna í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Segja má að afstaða SFS sé verulega dapurleg og mikil vonbrigði í ljósi þeirra leiða sem samtök sjómanna hafa lagt fram til lausnar kjaradeilunni.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.