Um það leyti sem landinn elti sólina norður og austur, naut frelsis og takmarkaminni samveru, þá varð enn á ný rof á milli kjara æðstu ráðamanna og almennings. Í janúar síðastliðnum hækkuðu taxtalaun um 24 þúsund krónur en almenn hækkun launa var 15.750 krónur. Þau sem muna kjarabaráttuna í upphafi árs 2019 vita vel hvað þurfti mikið átak til að ná slíkum árvissum hækkunum í þriggja og hálfs árs samningi. Grunnhugmyndin var að tryggja hækkun lægstu launa umfram almenna launahækkun. Þingmenn undirgangast ekki þessa hugmyndafræði heldur taka hækkunum miðað við launavísitölu opinberra starfsmanna. Það skilaði sér í 75 þúsund króna hækkun á einu bretti núna í sumar, örfáum árum eftir að laun þingmanna hækkuðu um ein 40%. Enn á ný eru æðstu hópar samfélagsins undanskildir frá því sem um almenning gildir. Það er vert að muna nú í aðdraganda kosninga þar sem áróður um stöðugleika, styrka efnahagsstjórn, réttlæti, samráð og sátt mun dynja á hlustum landans. Samfélagsleg sátt mun aldrei nást ef stórir hópar eru skildir eftir í lífsgæðum og aðrir hópar telja sig undanskilda almennum takti.

Hætt er við að slík grundvallarmál falli í skuggann af því sem yfirskyggir allt um þessar mundir; baráttan við veiruna. Mikil pólitísk togstreita ríkir um aðgerðir og óljóst hvert stjórnvöld ætla sér. Á meðan fjölgar smitum óhugnanlega en sem betur fer virðast færri veikjast alvarlega þótt aldrei megi gera lítið úr þessari skæðu veiru. Fólk í framlínunni; sem vinnur í verslunum og þjónustu, við umönnun, kennslu og í heilbrigðiskerfinu getur ekki búið við annan eins vetur og var í fyrra. Þolmörkunum er náð en óvissa um framhaldið er verst. Álagið og afkomuóttinn sem fylgt hefur þessum vágesti er lamandi og því brýnasta málið að tryggja fulla mönnun og hvíld vinnandi fólks og aðlaga atvinnuleysistryggingakerfið að sveiflóttum vinnumarkaði í skugga veirunnar.

Að því sögðu þá skulum við muna að fagna fjölbreytileikanum í öllum regnbogans litum og vita að barátta fyrir mannréttindum getur borið árangur.

Gleðilega hinsegindaga!

Drífa


föstudagurinn 23. júlí 2021

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Trúnaðarmenn Verk Vest að loknu námskeiði
Trúnaðarmenn Verk Vest að loknu námskeiði

Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri starfsmenn. Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við Verk Vest. Eftir kosningu fær trúnaðarmaður og atvinnurekandi senda staðfestingu á kjöri. 

Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við skrifstofur Verk Vest í síma 456 5190 eða senda tölvupóst á postur@verkvest.is til að fá aðstoð við að kjósa trúnaðarmann.

Næsta námskeið fyrir trúnaðarmenn hjá Verk Vest verður haldið dagana 20. - 22. september.


þriðjudagurinn 20. júlí 2021

Bætum umgengni um orlofshús og íbúðir

Íbúð 405 í Sunnusmára 18
Íbúð 405 í Sunnusmára 18

Að gefnu tilefni er mikilvægt að hafa í huga að orlofshús og íbúðir hjá Verk Vest eru sameign okkar allra. Það eru félagsmenn sem borga sjálfir kostnað við reksturinn. Því er afar mikilvægt að við sameinumst öll um að ganga um húsin okkar með því hugarfari að við eigum þetta sjálf!

Undanfarin ár hefur ræstingafyrirtækið Sólar séð um þrif á íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmenn þufa því ekki að þrífa íbúð eftir afnot en að sjálfsögðu þarf að skila íbúðinni snyrtilegri þannig að vel sé gengið frá við brottför. 

Önnur regla gildir um sumarbústaðina okkar og íbúðina á Akureyri, þar eiga félagsmenn að þrífa við brottför.

Rétt er að ítreka að allar upplýsingar um orlofseign sem verið er að leigja koma fram á samningi sem viðkomandi fær þegar hann leigir íbúð eða sumarhús hjá félaginu.

Við skulum því hafa að leiðarljósi okkar að skilja við orlofseignir okkar eins og við viljum sjálf koma að þeim. Skilji félagsmaður illa við orlofseign að mati umsjónarmanns á viðkomandi svæði, má búast við að viðkomandi þurfi að borga sérstakt þrifagjald.


fimmtudagurinn 15. júlí 2021

Laus tímabil í Flókalundi!

1 af 2

Nokkur tímabil í Flókalundi eru laus til bókunar í ágúst og september. Við minnum líka á að frá 20. ágúst er einnig hægt að bóka helgarleigur í Flókalundi. Gildir sú regla fram til lokunar orlofsbyggðarinnar 14. september. Hægt er að skoða laus tímabil á orlofsvef félagsins.

Fyrstur kemur fyrstur fær!

 


mánudagurinn 12. júlí 2021

Sumarlokun skifstofu Verk Vest á Patreksfirði

Skrifstofa Verk Vest er í Ólafshúsi á Patreksfirði
Skrifstofa Verk Vest er í Ólafshúsi á Patreksfirði

Skrifstofa Verk Vest á Patreksfirði verður lokuð vegna sumarleyfa frá 19. júlí til 16. ágúst. Félagsmönnum er bent á skrifstofu félagsins á Ísafirði sem er opin alla virka daga frá kl. 09.30 - 15:00. Rétt er að minna á mínar síður þar sem hægt er að sækja ýmsa þjónustu hjá félaginu með rafrænum hætti. 


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.