Í dag kveðjum við samstarfskonu okkar, Unni Ólafsdóttur, hinstu kveðju. Hún var búsett að Miðhúsum í Strandabyggð og lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 23. júní sl. eftir snarpa baráttu við krabbamein. Hún verður jarðsungin í dag frá Reykholtskirkju í Borgarfirði og lögð til hvílu í kirkjugarðinum í Stafholti.

Undanfarin ár hefur Unnur verið hluti af starfsliði Verk Vest og sá um þjónustuskrifstofu á Hólmavík og sinnti því af miklum sóma. Við hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga minnumst Unnar með þakklæti í hjarta fyrir ánægjulegt samstarf og vel unnin störf í þágu félagsins.

Stjórn og starfsfólk Verk Vest sendir fjölskyldu Unnar og aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur.


miðvikudagurinn 16. júní 2021

Opnað fyrir bókanir í Flókalundi

1 af 4

Vinna við endurbætur á sumarhúsum félagsins í Flókalundi er á lokametrunum. Öll hús félagsins, sex talsins, eru komin eða að komast í notkun eftir umfangs miklar innanhúss endurbætur. Búið er að opna fyrir bókanir á bókunarvefnum og hús nr. 3 og 8 eru laus til bókana frá föstudeginum 18. júní - 25. júní. Nú gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær. 


miðvikudagurinn 9. júní 2021

Sævar Gestsson heiðraður á Sjómannadag

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest, ásamt Sævari Gestssyni og Sr. Magnúsi Erlingssyni
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest, ásamt Sævari Gestssyni og Sr. Magnúsi Erlingssyni
1 af 5

Að gömlum sið var heiðraður í sjómaður í Sjómannamessu á Sjómannadag, og fyrir valinu varð heiðursmaðurinn Sævar Gestsson.

Sævar er fæddur og upp alinn á Ísafirði. Sína fyrstu vinnu á sjó fékk hann aðeins 11 ára gamall og hefur verið viðloðandi sjómennsku alla tíð síðan.

Kjaramál sjómanna hafa lengi verið Sævari hugleikin, en árið 1976 var hann kosinn í Sjómannadagsráð, árið 2000 var hann svo kosinn formaður Sjómannafélags Ísfirðinga, og eftir að Sjómannafélagið rann inn í Verk Vest hefur Sævar verið formaður Sjómannadeildar félagsins. Framlag Sævars til kjarabaráttu og öryggismála sjómanna er ómetanlegt og enn er engan bilbug að finna á honum. Sævar hefur setið í framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands um áratuga skeið og er alltaf fyrstur á vettvang þegar verkefni tengd sjómönnum koma inn á borð Verk Vest og víkur sér aldrei undan.

Sem þakklætisvott afhenti Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest, Sævari fallegan grip sem sjómannsdóttirin Dýrfinna Torfadóttir bjó til í tilefni þessa, en er Heiðursorða Sjómannadagsráðs samofin gripnum.

Sævari eru þökkuð ómetanleg störf í þágu sjómanna allra sem hann hefur sinnt af mikilli staðfestu og prýði.


miðvikudagurinn 9. júní 2021

Tungumálatöfrar 2021

Tungumálatöfrar er íslenskunámskeið með listsköpun og leik fyrir 5 - 11 ára krakka sem fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 3. - 8. ágúst 2021. Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir íslensk börn sem fæðst hafa eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem sest hafa að hér á landi, en námskeiðið er þó opið öllum börnum. Á sama tíma er boðið upp á Töfraútivist í Önundarfirði fyrir 12-16 ára unglinga. Á lokadegi námskeiðanna, sunnudaginn 8. ágúst verður Töfraganga sem er uppskeruhátíð þátttakenda beggja námskeiða og fjölskyldna þeirra. 

Þátttökugjald á Tungumálatöfra er 25.900 krónur á barn / 45.500 krónur fyrir 2 systkini / 61.000 krónur fyrir 3 systkini. Þátttökugjald á Töfraútivist er 29.000 á barn /  55.000 fyrir 2 systkini. Námskeiðið er frá 10-14 dag hvern og boðið er upp á léttan hádegisverð. 

50% afsláttur á námskeiðsgjöldum er fyrir félaga Verkvest / Fosvest / Sjómanna- og verkalýðsfélags Bolungarvíkur sem vilja senda börnin sín á Tungumálatöfra. Vinsamlegast skrifið í athugasemdir í skráningarformið ef þið tilheyrið þeim og viljið nýta afsláttinn.

Umsóknareyðublað fyrir Tungumálatöfra.

Umsóknareyðublað fyrir Töfraútivist

Nánari upplýsingar á Facebooksíðu Tungumálatöfra og á tungumalatofrar@gmail.com 


þriðjudagurinn 8. júní 2021

Sumarorlofskostir Verk Vest

Hús nr.9 í Flókalundi
Hús nr.9 í Flókalundi
1 af 3

Ferðaávísun Verk Vest veitir félagsmönnum aðgang að sértilboðum á gistingu um allt land (sjá kort). Samið hefur verið við tugi gististaða um að bjóða okkur allra bestu kjörin.

Félagið niðurgreiðir ferðaávísunina um 40% af valinni upphæð að hámarki kr. 30.000 á almanaksári. Við hverja niðurgreiðslu eru teknir punktar en þó aldrei fleiri en 30 miðað við hámarksnýtingu.

Veiðikort og Útilegukort eru komin í sölu og niðurgreiðir félagið verð kortanna til félagsmanna þannig að Veiðikortið kostar kr. 7.100 og Útilegukortið kr. 12.900 til félagsmanna í Verk Vest. 

Hér er hægt að finna upplýsingar um tjaldsvæði.

Hér er hægt að finna upplýsingar um veiðisvæði.

Enn eru örfá tímabil laus í orlofshúsum og íbúðum inn á bókunarvef félagsins og minnt er á að hægt er að bóka helgarleigu í Flókalundi frá og með 20. ágúst. Rétt er að benda á að miklar innanhúss endurbætur hafa verið unnar á húsum félagsins í Flókalundi en sjón er sögu ríkari!

Við bendum félagsmönnum á að húsið okkar við Alicante á Spáni er laust til útleigu í sumar  og gildir reglan “fyrstur kemur fyrstur fær”. Slakað hefur verið á sóttvarnarreglum á Spáni og telst Ísland ekki til áhættusvæða. Bent er á að nausynlegt er að hafa meðferðis vottorð um bólusetningu þegar ferðast er til Spánar.

 


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.