þriðjudagurinn 8. júní 2021

Ertu búinn að fá greidda orlofsuppbót?

Flókalaug í Orlofsbyggðinni í Flókalundi
Flókalaug í Orlofsbyggðinni í Flókalundi
1 af 2

Orlofsuppbót skal greidd þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu. Allt starfsfólk sem verið hefur samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí skal fá greidda orlofsuppbót.

Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof.

Orlofsuppbót fyrir 2021 (1. maí til 30. apríl) miðað við fullt starf:

Landverkafólk samkvæmt kjarasamningum SGS......... kr. 52.000
Verslunar- og skrifstofufólk............................................. kr. 52.000
Starfsfólk ríkisstofnana.................................................... kr. 52.000
Starfsfólk sveitafélaga...................................................... kr. 51.700
Starfsfólk Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal....... kr. 52.000
Starfsfólk Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum......... kr. 128.698

 

 


sunnudagurinn 6. júní 2021

Til hamingju með daginn sjómenn!

Sjómannastyttan Ísafirði
Sjómannastyttan Ísafirði
1 af 3

Verkalýðsfélag Vestfirðinga óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.


föstudagurinn 4. júní 2021

Dagskrá Sjómannadagsins á Suðureyri

Sjómannadags-dagskráin á Suðureyri verður eftirfarandi:

Laugardagur 5. júní:

- Kl. 14:00  Sjómannaguðsþjónusta með léttu sniði í Suðureyrarkirkju

- Kl. 16:00   Pínu litla gula hænan verður sýnd á Freyjuvöllum. Sýningin er c.a. 30 mín

- Kl. 16:30   Stefnir grillar pylsur ofan í gesti í lok sýningar

Sýning og grill er í boði fyrirtækja á Suðureyri.

 

                                                                             Sjómannadagsráð Suðureyrar

 


Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar sleggjudóma í opinberri umræðu um málefni atvinnuleitenda. Sú umræða er ekki studd gögnum og er úr hófi fram neikvæð og einhliða. Miðstjórn varar við því að ýtt sé undir fordóma í umfjöllun um vanda þeirra sem glíma við atvinnuleysi.

Miðstjórn ASÍ vísar til fullyrðinga nokkurra atvinnurekenda sem birst hafa í tilteknum fjölmiðlum síðustu daga og rætt um meint áhugaleysi atvinnuleitenda um að þiggja boð um vinnu. Látið er að því liggja að atvinnuleysisbætur séu nú svo háar að þær letji fólk til að taka þau störf sem í boði eru.

Miðstjórnin minnir á að atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Þau dæmi sem hafa verið nefnd og fjölmiðlar hafa gert að fréttaefni heyra til undantekninga og ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á þeim, hvorki af hálfu atvinnurekenda né Vinnumálastofnunar. Átakið Hefjum störf  hefur nú þegar skilað miklum árangri og fjöldi fólks þegið vinnu á þeim grundvelli. Tal um að atvinnuleysisbætur séu úr hófi fram háar í landinu stenst enga skoðun. Grunnbætur nema 88% af lágmarkstekjutryggingu en á árunum 2006–2010 var það hlutfall á bilinu 90–100%. Tekjufall atvinnulausra í COVID-kreppunni er að jafnaði 37% og því augljós að fólk gerir það ekki að gamni sínu að hafna vinnu.

Miðstjórn ASÍ vekur athygli á því að aðflutt verkafólk er í meirihluta þeirra sem nú eru án atvinnu  og varar við fordómum í garð þessa hóps sem auðveldlega má lesa úr orðum þeirra atvinnurekenda sem fram hafa komið í fjölmiðlum. Forkastanlegt er að veitast með þessum hætti að fólki í sérlega erfiðri og viðkvæmri stöðu.

Miðstjórn ASÍ vekur athygli á skýrum merkjum þess að einstaka atvinnurekendur hyggist hefja rekstur á ný með því að þrýsta niður launum starfsfólks. Miðstjórnin krefst þess að ferðaþjónusta verði ekki endurreist á grundvelli lakari kjara og starfsumhverfis en áður.

Miðstjórn ASÍ minnir á að þeir atvinnurekendur sem nú veitast að atvinnuleitendum hafa um margra mánaða skeið notið margvíslegra opinberra styrkja. Þeir hinir sömu geta nú að auki ráðið starfsfólk með beinum stuðningi. Með öðrum orðum er það almenningur á Íslandi sem haldið hefur fyrirtækjum atvinnurekenda á lífi.

Miðstjórn ASÍ hvetur atvinnurekendur og fjölmiðla til að láta af neikvæðri og beinlínis fordómafullri umfjöllun um atvinnuleitendur. Góðar og gildar ástæður geta verið fyrir því að atvinnuleitandi geti ekki þegið tiltekið starf. Með því að einblína á undantekningar sem kunna að eiga við færri en 2% atvinnuleitenda er dregin upp röng og meiðandi mynd af þeim þúsundum manna sem leita vinnu á Íslandi og hafa loks fengið von um að brátt taki við betri tíð.


Umræða um svokölluð gul stéttarfélög hefur verið áberandi að undanförnu og þá einkum í tengslum við Flugfélagið Play en Íslenska flugstéttarfélagið, sem Play hefur samið við, virðist bera öll merki þess að vera „gult stéttarfélag“. Slík félög standa alla jafna utan heildarsamtaka launafólks, eins og ASÍ, og ganga jafnvel erinda atvinnurekenda og gegn hagsmunum launamanna.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, þekkir vel sögu verkalýðshreyfingarinnar en hann hefur sérstaklega kynnt sér svokölluð gul stéttarfélög. Í þessu viðtali (14:44) segir hann frá slíkum félögum í nútíð og fortíð.

 


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.