mánudagurinn 27. janúar 2020

Hvert fara peningarnir mínir?

Hvað er þetta félagsgjald sem er dregið af laununum mínum?

 

Jú, þetta er svokallað vinnumarkaðsgjald sem rennur til þess stéttarfélags sem hefur samið um kaup og kjör fyrir starfið sem viðkomandi vinnur. Stéttarfélögin sjá um að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína og félagsgjaldið er nýtt til reksturs stéttarfélaga. Fyrir félagsgjaldið er til dæmis samið um lágmarkslaun, orlof, uppsagnarfrest, orlofs- og desemberuppbætur, bónusgreiðslur, sjúkrasjóði, veikindarétt, slysatryggingar, fæðingarorlof, hvíldartíma, lífeyrissjóð og ódýrt leiguhúsnæði svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa sjá stéttarfélög um gerð vinnustaðasamninga starfsfólki til hagsbóta.

Það er ekki nóg að semja um þessi réttindi, heldur er það verkefni stéttarfélaga að verja þessi réttindi þegar brotið er á fólki, fyrst með samskiptum við atvinnurekendur, og svo oft á tíðum með aðstoð lögmanna við að reka mál fyrir dómi. Stéttarfélög standa fyrir fræðslu um réttindamál í skólum og á vinnustöðum auk þess sem haldin eru námskeið fyrir trúnaðarmenn, en þeir eru tenging stéttarfélaganna inn á vinnustaði.

Hluti félagsgjaldanna rennur í vinnudeilusjóð, en sá sjóður ber kostnað af vinnudeilum og greiðir verkfallsstyrki.

 

Fær stéttarfélagið meiri pening frá mér heldur en félagsgjaldið?

 

Jú, mikið rétt. Stéttarfélögin hafi líka samið um aukinn rétt fyrir launafólk, en það eru starfsmenntasjóðir, orlofssjóðir og sjúkrasjóðir. Í þessa sjóði greiða atvinnurekendur í hlutfalli við laun starfsfólks sinna fyrirtækja, en til hvers?

 

Sjúkrasjóðir hafa einn megin-tilgang, en það er að greiða félagsmönnum sjúkradagpeninga þegar þeir eru í veikindum og hafa fullnýtt veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda. Þegar sjúkrasjóðir standa undir þessum greiðslum og eiga afgang er þeim afgangi deilt út til félagsmanna í formi aukinna dagpeninga eða styrkja, en allir eiga þessir styrkir það sameiginlegt að taka á heilsu fólks með einum eða öðrum hætti. Stéttarfélög búa sér sjálf til reglur um hvernig þau deili þessum fjármunum út til félagsmanna byggðar á fjárstyrk sjóðsins, en flestir styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir, s.s. heilsueflingu og skimun fyrir krabbameinsleit. Einnig styrkja sjúkrasjóðir félagsmenn sem verða fyrir heilsubresti, hvort sem er vegna sjúkdóma eða slysa. Dæmi um þessa styrki væri læknisfræðilega rannsóknir, aðgerðir á augum, hjálpartæki s.s. gleraugu og heyrnartæki, meðferð hjá sjúkraþjálfara, meðferð hjá sálfræðingi og dvöl á heilsustofnun. Líka er stutt við og glasa- og tæknifrjóvgun, veittur fæðingarstyrkur, og svo að lokum dánarbætur.

 

Orlofssjóðir hafa þann tilgang einan að gera félagsmönnum kleift að njóta orlofs. Í þeim tilgangi fjárfesta félögin í sumarhúsum og íbúðum sem eru svo leigð á góðum kjörum til félagsmanna. Þar að auki niðurgreiða orlofssjóðir valda orlofskosti fyrir félagsmenn.

 

Starfsmenntasjóðir hafa þann tilgang að opna möguleika félagsmanna til að styrkja sig í starfi og leik með því að sækja sér aukna menntun, en þessir sjóðir styrkja bæði starfstengt nám og alls kyns frístundanám.

 

Allir þessir sjóðir eiga það sameiginlegt að þeir safna ekki fjármunum. Ef sjóðir eiga meira eru réttindi félagsmanna til styrkja aukin, en ef sjóðirnir standa illa eru réttindin skert á meðan.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.