Kæru félagar. Í dag, 1. Maí, komum við saman og fögnum alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, deginum okkar. Mig langar til að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn.

Ein af grunnþörfum mannsins er að vera maður með mönnum, að líða vel með sjálfan sig. Það eru allir fæddir jafnir, og sama hvar við lendum í þjóðfélagsstiganum erum við eftir allt saman öll bara menn.

Á fyrstu árum starfsævi minnar kynntist ég vinnumarkaðnum á ógleymanlegan hátt. Þá var mikil vinna og allir sem vettlingi gátu valdið fengu að vinna, og kúltúrinn einkenndist af vinnugleði og samstöðu á vinnustað.

Mér er það minnisstætt að þegar við strákarnir þurftum að vinna fram á kvöld mætti framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins færandi hendi til okkar á bryggjuna með kók og Prins Póló. Svo settist hann niður með okkur og spjallaði meðan við gæddum okkur á veigunum.

Annar vinnuveitandi sem ég vann fyrir nokkru seinna, bauð vinum sínum reglulega til veislu, og bauð þá starfsmönnum sínum með. Þar sátu allir saman og skemmtu sér á jafnréttisgrundvelli. Allir voru með, og þessi tilfinning skilaði sér í vinnuna þar sem allir unnu sem einn og öllum leið vel í vinnunni. Þarna voru allir menn með mönnum.

Í dag heyrir þetta sögunni til. Sum fyrirtæki senda starfsmönnum sínum ekki einu sinni jólakort til að þakka samstarfið á líðandi ári! Hvað segir það okkur? Erum við ekki lengur menn með mönnum?

Ágætu fundarmenn. Hér á Íslandi búum við við fjármagnsdrifið hagkerfi. Sama kerfi og Adam Smith kynnti fyrir 240 árum síðan. Til að búa til pening, þarf pening. Þar af leiðir að til þess að búa til verðmæti þurfa fjármagnseigendur og launþegar að vinna saman, því öðruvísi er ekki hægt að skapa verðmæti.

Þegar verðmætin hafa verið sköpuð þurfa svo fjármagnseigendurnir og launþegarnir að skipta milli sín afrakstrinum. Þetta kerfi veldur því að til verður markaðsverð á vinnuafli, og gegnum tíðina hefur það verið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að vinna að því að fá kökunni skipt á réttlátan máta. Sú barátta krefst samstöðu, og það er sú samstaða sem við erum að fagna í dag, á baráttudegi verkalýðsins.

Fyrir hartnær 170 árum skrifuðu Karl Marx og Frederik Engels Kommúnistaávarpið. Því var ætlað að mynda samstöðu meðal verkafólks til að berjast fyrir sanngjarnari hlut af þeim verðmætum sem verkamenn skapa.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, launafólk oft þurft að berjast og mikið til unnist. Ekki er hægt að bera stöðu okkar við það sem þá var. Staða okkar í dag er samt ekki ólík því sem þá var að því leytinu til að launþegar fá enn of lítið í sinn vasa af þeim verðmætum sem þeir skapa. Eftir 170 ára reipitog höldum við enn í endann, og það er átak að halda stöðunni, og ennþá meira átak að fá stærri sneið af kökunni.

Verðmætasköpun á Íslandi er gífurleg og hefur landsframleiðsla tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum. Á sama tíma hafa laun aukist um 51 prósent. Kakan hefur stækkað til muna, en því miður virðist okkar sneið ekki stækka í samræmi við það.

Dæmi eru um að hagnaður fyrirtækja sé meiri en allur launakostnaður þeirra. Meiri en allur launakostnaður þeirra, þar með talið laun stjórnenda, sem eru í sumum tilfellum eigendur. Samt er sagt við okkur að ef við förum fram á hærri laun berum við ábyrgð á óðaverðbólgu í þjóðfélaginu og að fyrirtækin standi ekki undir auknum launakostnaði.

Að hlusta á þetta! Maður trúir ekki sínum eigin eyrum!

Á meðan allsherjar sátt virðist vera um að fjármagnseigendur sogi til sín þau verðmæti sem verða til í landinu og flytji þau úr landi í skattaskjól er gerð þjóðarsátt um að hinn almenni launamaður verði að halda kröfum sínum í skefjum. Meir að segja er okkur hótað því að flytja vinnuna okkar úr landi ef arðgreiðslur fyrirtækja minnki.

Hvaða vitleysa er þetta???

Nú í febrúar síðastliðinn lauk lengsta sjómannaverkfalli sögunnar. Ég var þess heiðurs aðnjótandi ásamt fleirum að semja við útgerðarmenn. Það sem ég upplifði í þessari samningalotu kom mér svo á óvart að ég á aldrei eftir að gleyma því.

Í desember settumst við niður með útgerðarmönnum og settum fram kröfur sem í heild sinni, fyrir alla útgerðarmenn á landinu, voru metnar á 3.750 milljónir á ári. Útgerðarmenn, sem skiluðu 75 þúsund milljónum í hagnað árið áður, höfnuðu öllum okkar kröfum, sögðu það verða banabita útgerðanna að greiða þetta.

Síðan kynntu útgerðarmenn í fjölmiðlum að sjómenn væru að valda tapi á útflutningstekjum upp á 640 milljónir á dag. Síðan sátu þeir í verkfalli í 66 daga, og töpuðu, samkvæmt eigin útreikningum 42.240. milljónum. Það er meir en 11 sinnum meir en ýtrustu kröfur sjómanna hljóðuðu upp á. Áætlað tap alls þjóðarbúsins er allt að 85.800 milljónum í þessu verkfalli.

Maður spyr sig. Þeir sem taka svona ákvarðanir, hversu hæfir eru þeir til að vera handhafar kvótans okkar? Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að kvótinn, sameign okkar allra, skili sem mestu í þjóðarbúið, stjórnvöld bera ábyrgð á því. Ef handhafar kvótans treysta sér ekki til að standa undir þessari kröfu okkar, verða stjórnvöld þá ekki að fela einhverjum öðrum þetta mikilvæga verkefni?

Ágætu fundarmenn. Yfirskrift dagsins er húsnæði fyrir alla. Mikill skortur er á húsnæði. Mikill munur á framboði og eftirspurn. Húsnæðismarkaðurinn er með svo mikla slagsíðu að nú þurfa allir að gera sig klára í bátana.

Fjármagnið sem við búum til með vinnunni okkar rennur út úr fyrirtækjunum í formi arðs inn í leigufélög sem mergsjúga þá sem minna mega sín. Meir að segja lífeyrissjóðirnir sem eru í okkar eigu, ...peningarnir okkar, eru notaðir til að féfletta almenning sem einhversstaðar verður að búa. Í sumum tilfellum er þetta skrúfstykki í boði stjórnvalda sem hafa selt leigufélögum íbúðir, í eigu okkar landsmanna, langt undir eðlilegu verði. Í boði stjórnvalda sem hafa gerst sek um algert vanhæfi til að bregðast við þessum vanda.

Af hverju hafa lífeyrissjóðir okkar landsmanna ekki stofnað eigin fasteignafélög til að byggja húsnæði fyrir landsmenn? Þeir gætu svo leigt húsnæðið á eðlilegu verði og leitast við að koma jafnvægi á leigumarkaðinn.

Nú er íbúðaverð að nálgast góðærisástandið. Við heyrum og lesum fréttir um aukinn kaupmátt, en samt hafa íslenskir launþegar í fullri vinnu ekki efni á að hafa þak yfir höfuðið. Hvers konar ástand er það? Höfum við í alvöru ekki komist lengra en þetta á síðustu 170 árum?

Kakan er nógu stór fyrir alla. Við þurfum bara að halda áfram, öll sem eitt, að berjast fyrir okkar sneið.

Ef við sofnum á verðinum borðar einhver kökuna okkar og drekkur mjólkina okkar með.

Kæru félagar. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Samstaða alla leið!

Til hamingju með daginn.

 

 


Kæru félagar ! Til hamingju með daginn!

Fyrsta maí komum við saman til að fagna alþjóðlegum baráttudegi Verkafólks! Í dag komum við líka saman og fögnum því að fyrir 100 árum hófst hin eiginlega barátta verkafólks á Íslandi fyrir bættum kjörum.

Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra er yfirskrift dagsins. 

Í yfirskriftinni felst hvatning til verkalýðshreyfingarinnar og alls launafólks að halda baráttunni áfram. Samstaða launafólks síðustu 100 ár hefur gert verkalýðshreyfinguna að mikilvægasta aflinu í baráttunni fyrir bættum kjörum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna er nauðsynlegt að við minnumst baráttunnar. Minnumst þeirra fórna sem fólkið okkar hefur fært og þess mikila árangurs af starfi launafólks sem við njótum í dag.

Hefði ekki komið til baráttuvilja okkar fólks fyrir 100 árum þá byggi samfélagið ekki við það velferðar- og menntakerfi sem öllum þykja sjálfsögð og eðlileg mannréttindi.Við megum aldrei gleyma að það voru verkafólk og sjómenn sem lögðu grunninn að velferð okkar. Það var okkar fólk sem með þrautlausri baráttu og samstöðuna að vopni tryggði okkur öll þau réttindi sem við búum við í dag.

Því miður er það svo að í þessu mikilvægu réttindi er sótt úr mörgum áttum. Ekki bara úr hendi misvitra stjórnmálamanna eða atvinnurekenda heldur einnig úr okkar eigin röðum.

Getur verið að við viljum  hverfa aftur til þeirra tíma sem réttindi verkafólks og sjómanna voru fótum troðin? Viljum við minnka veikindarétt og bótarétt atvinnulausra? Viljum við skerða hvíldartíma og lengja vinnudaginn? Viljum við sleppa fæðingarorlofi  og fækka orlofsdögum ?   

Mitt svar er einfalt; Við sjálf megum aldrei sofna á verðinum. Við megum aldrei vera tilbúin að gefa afslátt af okkar eigin réttindum. Við megum ekki sitja aðgerðarlaus hjá og láta taka réttindin frá okkur, réttindi sem barist var fyrir með blóði, svita og þúsundum tára. Við verðum og eigum sjálf að vera tilbúin að færa fórnir til að verja réttindin okkar.  Allt annað er afturhvarf til fortíðar sem ekkert okkar vill að verði að veruleika.

Segjum NEI við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og forðum því að afkomendur okkar upplifi réttleysið sem okkar fólk barðist fyrir að losna undan fyrir 100 árum. Síst viljum við að börnin okkar þurfi að búa við tvöfalt réttindakerfi. Það skulum við ALDREI samþykkja báráttulaust.Við eigum öll að sýna samstöðu í verki, við megum aldrei snúa baki við áframhaldandi baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks.

Það var fyrst og síðast fyrir samstöðu verkafólks og sjómanna fyrir 100 árum sem tókst loks að brjótast undan kúgun sem hafði viðgengist í árhundruðir. Kúgun með algjöru húsbóndavaldi þar sem réttindi almennings voru fótum troðin. Þeir sem minna máttu sín voru sannarlega ofurseldir húsbændum og atvinnurekendum sem máttu nýta  „sitt fólk” eins og þræla allt frá tímum vistarbandsins. Mannréttindi verkafólks og vinnuhjúa voru fótum troðin allt þangað til hjúalögin voru sett árið 1928, en lögin bönnuðu misnotkun á vinnuafli.

Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist fá stéttarfélögin reglulega inn á borð til sín ljótar sögur af því hvernig notast er við hótanir sem stjórntæki til að berja niður samstöðu launafólks. Verkafólk má ekki alls láta etja sér saman líkt og var ástundað fyrir miðja síðustu öld þegar þrengdi að á vinnumarkaði. Á þeim tíma var reynt að brjóta niður baráttuvilja verkafólks með öllum tiltækum ráðum. Við megum aldrei láta slíkt henda aftur, til of mikils hefur verið barist.

Kæru félagar!

Öllum má vera ljóst að í landinu búa í raun tvær þjóðir, Silfurskeiðarþjóðin og svo við hin, almennt launafólk. Silfurskeiðarþjóðin kyrjar í sífellu sömu „möntruna“ Allt má sem ekki er bannað ! Skiptir þá engu um siðferði enda hefur Silfurskeiðarþjóðin sjálf mótað leikreglurnar sem okkur hinum er ætlað að fara eftir, en þeim ekki.

... „ Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst hafa tekið þátt í að semja lögin sjálfur“ Svo vitnað sé í Atómstöð nóbelskáldsins í þessu samhengi.

Silfurskeiðarþjóðin hefur sannarlega fengið mest af sínum réttindum á silfurfati og nýtur forréttinda í skattaskjólum og EHF væðingu samfélagsins. Því miður kemur það aftur og enn í ljós að við búum í samfélagi þar sem tryggt er að þeir ríku verði ríkari og fátæku fátækari.

Megin áhersla hefur nefnilega verið lögð á að bjarga fjármagnseigendum og koma þeim að kjötkötlunum að nýju. Að þessu er áfram unnið leynt og ljóst og skýrasta dæmið um viðvarandi siðleysi er hvernig fyrrum eigendum banka og stórfyrirtækja hafa verið tryggð áhrif og völd í fjármálalífi Íslendinga á nýjan leik.

Svo er hneykslast á því að okkur sé nóg boðið mætum til mótmæla fyrir framan Alþingi. Ég er í raun mest undrandi hvað fólk er rólegt eftir það siðrof og þann hroka sem hefur viðgengist gagnvart almenningi í landinu. Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta.  Við bjuggum ekki til þessa óteljandi fjármálagjörninga sem ekki sér fyrir endann á hvernig verða leystir.

Við sættum okkur ekki við að eiga sópa upp óþverranum sem þessir snillingar hafa búið til. Almenningur í landinu lætur ekki bjóða sér að standa einn í tiltekinni. Er það virkilega þannig samfélag sem við viljum byggja ? Ég segi Nei og aftur Nei !

Kæru félagar !

Enn er barist, og nú berjumst við öll hlið við hlið gegn siðrofi valdhafa. Mótmæli undanfarinna vikna staðfesta að við erum öll orðin langþreytt á misskiptingu og svikum. Almennt launafólk er orðið langþreytt á að vinna myrkrana á milli en eignast samt aldrei neitt. Ekki fáum við afskrifað! Við öll erum orðin þreytt á óheiðarleika, gleymsku og fullkomnu siðrofi. Við erum orðin þreytt á að hlutirnir lagist ekki. 

Launafólk þarfnast öflugs málsvara á Alþingi. Málsvara sem hefur þann pólitíska tilgang að berjast fyrir og tryggja réttindi íslenskrar alþýðu. Við sjálf eigum og verðum að taka næsta skref og tryggja bein áhrif launafólks inn á Alþingi. Ef við tökum ekki sjálf beinan þátt í baráttunni getum við ekki búist við að núverandi stjórnmálaflokkar hafi okkar hagsmuni að leiðarljósi. Eingöngu þannig höfum við sjálf tækifæti til að uppræta það siðrof og spillingu sem viðgengist hefur í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi.

Ef við sannarlega viljum breytingar þá verðum við að taka slaginn. Með þeim hætti og engum öðrum tryggjum við launafólki enn stærri sigra í framtíðinni. Með baráttu og samstöðu munum við ná fram okkar markmiðum. Gleymum því ekki að réttindin duttu ekki af himnum ofan, við fengum þau ekki á “silfurfati”. Megi „Sókn til nýrra sigra“ og áframhaldandi órofa samstaða skila okkur enn fleiri og stærri sigrum næstu 100 árin.

Verkafólk og sjómenn til hamingju með 100 ára baráttu fyrir bættum kjörum.


 

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að standa saman í baráttunni fyrr bættum kjörum launafólks þegar alvarleg verkfallsátök eru í landinu og óvissa ríkir um hvenær samningar munu takast.

 Félagar í Starfsgreinasambandinu og þar á meðal  launafólk í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga hóf verkfallsaðgerðir í gær og framundan eru regluleg sólarhringsverkföll í maí þar til allsherjarverkfall  skellur á 26. maí nk. ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Vonandi tekst að semja sem fyrst þó menn séu ekki alltof bjartsýnir í dag á stöðu mála þegar SA sýna engan lit á að mæta sanngjörnum kröfum SGS og leggja ekkert nýtt fram umfram 3.5 % launahækkun sem er 7.490 kr. hækkun á mánuði fyrir skatta.

Verkföllin munu hafa áhrif á fjölda vinnustaða út um allt land en það vinna um 4 þúsund manns í fiskvinnslu í landinu og fjöldi annara starfstétta innan SGS munu líka leggja niður vinnu.

Innan SGS eru 10 þúsund félagar sem að stærstum hluta eru láglaunastéttir sem gera þá hógværu kröfu að á næstu þremur árum hækki grunnlaun þeirra á mánuði úr 214 þúsund krónum í 300 þúsund kr á mánuði.

Í vikunni birtist könnun hjá Gallup þar sem kemur fram að tæp 92 % landsmanna styður þessa kröfu félaga innan SGS  sem eru sterk skilaboð til viðsemjenda um að ekki verður lengur við unað að þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu sé gert að lifa á launum sem duga enganveginn til framfærslu og eru í raun okkur sem þjóð til skammar.

Það var athyglisvert að ekki var marktækur munur á stuðningi við 300 þúsund kr lágmarkslaunin á milli mismunandi tekjuhópa eða eftir landssvæðum. Meiri stuðningur var þó á meðal kvenna við kröfuna og nefndu konur að launin þyrftu að vera hærri en 300 þúsund kr. á mánuði.

Það kemur kannski ekki á óvart því konur halda oftar en ekki um heimilisbudduna og sjá oftar um innkaup til heimilisins og heimilisbókhaldið.

Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur frá Súgandafirði skrifaði góða grein á dögunum þar sem hún rekur hve raunverulegur framfærslukostnaður er í landinu með þeim neysluviðmiðum sem notuð eru í Velferðarráðuneytinu.

Þar kemur skýrt fram að það lifir enginn af 214 þúsund kr á mánuði með mannsæmandi hætti og þó að launin myndu hækka í 300 þúsund kr á þrem árum þá yrðu útborguð laun að frádregnum sköttum og launatengdugjöldum um 230 þúsund kr á mánuði. Það eru nú öll ósköpin sem farið er fram á !

Ég tel að ríkið eigi að lækka skatta í neðsta skattþrepinu og koma þannig til móts við þennan hóp en í stað þess hefur ríkisstjórnin aflétt auðlegðarskattinum af þeim tekjuhæstu upp á tugi milljarða króna og fjármálaráðherra lýsti því yfir á fundi með stóriðjunni að það væri forgangsmál að afnema raforkuskatt uppá 1.6 milljarða af álfyrirtækjunum en hvað með kjör launafólks ?

Það eru kaldar kveðjur sem launafólk fær úr ýmsum áttum þessa dagana.

Fjármálaráðherra lét einnig hafa það eftir sér fyrir nokkrum dögum að mögulega væri að búið að jafna kjörin of mikið í landinu. Ætli launafólk sé sammála þeirri skoðun ráðherra að hugsanlega séu 214 þúsund kr á mánuði of há laun ! Það er bara til skammar að láta svona útúr sér.

Landsbankinn  sendi frá sér greiningu nýlega þar sem hann fær það út að á síðustu 17 árum hafi lægstu laun hækkað úr 70 þúsund kr á mánuði í 214 þúsund kr sem þýði kaupmáttaraukningu uppá  70 % á þessu tímabili. Þetta er eintóm blekking það sem fólk fær fyrir mánaðarlaunin í dag í samanburði við það sem það fékk fyrir 17 árum er rétta mælingin og það getur engan veginn staðist að launafólk fái 70 % meira á mánuði fyrir laun sýn í dag en það gerði fyrir 17 árum. Launataxtar hafa verið úr takti við allan veruleika allt of lengi þeir verða að endurspegla raunverulegan kostnað við það að geta lifað sómasamlegu lífi.

 

Seðlabankinn hamrar á því að laun megi ekki hækka umfram 3.5 % því þá sé voðinn vís og verðbólgan fari af stað.  Láglaunafólki hefur alltaf verið stillt upp við vegg þegar kaupkröfur þeirra eru annarsvegar og það látið axla ábyrgð á stöðuleikanum í þjóðfélaginu meðan aðrir þjóðfélagshópar geta skammtað sér laun óáreittir.

 

 

Atvinnurekendur verða líka sjálfir að bera ábyrgð á því að launahækkanir fari ekki beint út í verðlagið og sjá til þess að laun þeirra og annara stjórnanda séu í einhverjum takti við laun almennra starfsmanna.

Bankabónusar voru vel þekktir hér fyrir Hrun og þar rökuðu menn til sýn fjármunum á kostnað almennings í landinu þar til allt fór á hausinn.

 Nú ætla stjórnvöld aftur að opna á að leyfa þessa háu bónusa í fjármálakerfinu sem gerir ekkert annað en að misbjóða almennu launafólki í landinu og að ýta undir græðgisvæðingu þeirra sem geta skammtað sér laun á kostnað annara. Við þurfum ekki á öðru Hruni að halda það fyrra ætti að hafa kennt okkur að græðgi og misskipting endar bara á einn veg þ.e.a.s. með ósköpum.

Góðir félagar það fer enginn í verkfall að gamni sýnu það er grafalvarleg ákvörðun fyrir þá sem standa í verkfallsátökum og fyrir alla þá sem verkföllin bitna á. Verkfallsvopnið er neyðarvopn sem fara verður varlega með - en þeir tímar koma eins og núna að ekkert dugar annað en að sýna fram á að verkafólk ætlar ekki að vera einhver afgangsstærð sem hirðir brauðmolana sem verða eftir þegar búið er að skipta þjóðarkökunni upp með óréttlátum hætti. 

Það er ekki skrýtið að fólki ofbjóði þegar stærstu fyrirtækin í landinu eins og Grandi hf greiða allt að 3 sinnum meira út í arðgreiðslur til eiganda sinna heldur en í veiðigjöld til þjóðarinnar og hækkar svo laun stjórnarmanna  um 33 % á mánuði úr 150 þúsund kr í 200 þúsund kr , en býður svo starfsfólki sýnu bara upp á íspinna í stað þess að mæta réttmætum launakröfum þeirra.                                     Hárbeittur ádeilusöngur fiskvinnslukonu á Akranesi á þessa framkomu fyrirtækisins hefur örugglega átt mikinn þátt í því að Verkalýðsfélaginu á Akranesi og Eflingu í Reykjavík tókst að ná fram samningum um að starfsfólk Granda hf fengi skerf af miklum hagnaði fyrirtækisins og er það vel.

Það hefst ekkert baráttulaust og launafólk verður að standa saman hvort sem það er innan Verk Vest, Félags opinberra starfsmanna , BHM eða annara samtaka launafólks því það vill oft verða að það er verið að etja launafólki saman og beita blekkingum til þess að rjúfa samstöðuna.

„Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum“ stendur svo sannarlega enn fyrir sýnu og á þessum erfiðu óvissu tímum er óskandi að samstaða launafólks skili árangri og bættum hag til þeirra sem verst eru settir.

SA verða að koma út úr skápnum og mæta kröfunni um 300 þús kr lágmarkslaun og horfast í augu við þann veruleika að það lifir engin af 214 þúsund kr á mánuðu.

 

Stjórnvöld verða líka að snúa af þeirri braut að auka misskiptingu í landinu með því að lækka skatta á hátekjufólki en leggja þess í stað matarskatt á almenning í landinu sem nemur allt að 11 milljörðum kr á ári sem bitnar mest á því fólki sem hefur lægri tekjur og eyðir stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup.

Og sú fyrirætlan stjórnvalda að færa ákveðnum útgerðum í landinu makrílkvótann á silfurfati til eignar fyrir tugi milljarða króna er hneyksli og má alls ekki gerast enda er þjóðinni algjörlega misboðið og launafólki í raun sýndur hnefinn.

Efnahagur þjóðarinnar er sem betur fer að batna eftir erfið ár í kjölfar Hrunsins og nú ríður á að jöfnuður aukist í þjóðfélaginu og að þjóðarkökunni verði skipt með réttlátari hætti en verið hefur í gegnum árin.

Góðir félagar stöndum saman að því að gera samfélagið réttlátara.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

  1. Maí ræða á Suðureyri 2015.

 


Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Yfirskrift dagsins í ár er  „ Samfélag fyrir alla“ Það þykir mér þörf og góð áminning.

Í samfélagi þar sem jöfnuður ríkir líður fólki vel og þar vex úr grasi kynslóð sem hefur jákvæðari og uppbyggilegri samfélagssýn en þar sem ójöfnuður ríkir.

  Þar sem mikil misskipting ríkir er jarðvegur fyrir reiði og tortryggni og félagsleg vandamál magnast upp og neikvætt andrúmsloft skapast.

Það eru sjálfsögð mannréttindi í dag að fólk geti lifað við sómasamleg kjör og framfleytt sér og sýnum með vinnu sinni og á það  einnig við þá sem þurfa að framfleyta sér á ellilífeyri og örorkubótum.

Það er ekkert sjálfgefið í þessu lífi og enginn veit hvenær heilsan bregst eða slys ber að höndum og sá veruleiki blasir við að þurfa að lifa eingöngu á örorkubótum.

 Allir vilja í orði búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og þá þurfum við að sýna það í verki með samfélagslegri ábyrgð.

Ég hef lagt fram á Alþingi frumvarp að lögum um að lögbinda lágmarkslaun í landinu því mér finnst það vera samfélagsleg skylda okkar sem þjóðar að tryggja lágmarksframfærslu fólks.

Þrátt fyrir þann árangur sem verkalýðshreyfingin í landinu hefur náð á undanförnum áratug eða svo í að hífa upp lægstu launin þá eru þau því miður enn alltof lág og í raun ekki mannsæmandi í okkar þjóðfélagi sem telst ríkt á heimsvísu.

Tilgangur þessa frumvarps er ekki að taka fram fyrir hendurnar á stéttarfélögum í gerð kjarasamninga  það verkefni mun áfram brenna á verkalýðsforustinni þó lágmarkslaun í landinu verði lögbundin.

Í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem birt var í gær kom fram að hlutfall íslendinga sem mældust fyrir neðan lágtekjumörk árið 2013 var um 9,3 % eða um 30 þúsund manns.

  Þessi staðreynd er óásættanleg  og sýnir að við eigum enn langt í land með að tryggja sómasamlega kjör og að „Skapa réttlátt samfélag fyrir alla“.

Eins og fréttir undanfarið hafa borið með sér þá ríkir  víða uppnám og reiði  í sjávarbyggðum landsins  og óöryggi um hvað framtíðin muni bera í skauti sér eftir að sjávarútvegs fyrirtækið  Vísir í Grindavík  ákvað að hætta starfsemi sinni á Þingeyri,Djúpavogi og á Húsavík.

Við munum vel hvað gerðist á Flateyri fyrir nokkrum árum þegar stærsti atvinnurekandinn þar  fór í burtu með mest allan kvótann.  Það veit enginn í raun sem býr í þessum minni sjávarbyggðum hvenær sömu hlutir  gætu gerst þar  miðað við núverandi kvótakerfi og það er óásættanlegt  hlutskipti fyrir fólk að búa við.

 

 Þetta kerfi sýnir enga samfélagslega ábyrgð heldur lýtur eingöngu lögmálum  „markaðarins“ Þessu þarf að breyta og það þarf að tryggja sjávarbyggðunum aflaheimildir sem  bundnar  eru byggðarlögunum til framtíðar svo atvinnu  og búsetuöryggi íbúanna sé tryggt

Það er lítilsvirðing við íbúa sjávarplássa að bjóða uppá einskonar hreppaflutninga í stóra blokk í Grindavík eins og Útgerðarfélagið Vísir í Grindavík hefur gert   - það sýnir ekki samfélagslega ábyrgð heldur minnir þetta mann óþyrmilega á færanlegar vinnubúðir þar sem fólki er gert að fylgja Húsbændum sínum.

Ekkert er gert með vilja fólks hvar það vill búa og hvar það hefur byggt upp sýn heimili og fjölskyldur og á sýnar rætur, heldur er fyrirtækinu skellt í lás og lífsbjörgin tekin frá því.

Og ekki má gleyma því að þetta sama fólk hefur byggt upp viðkomandi fyrirtæki með vinnu sinni en á samt engan rétt þegar Fyrirtækið ákveður að hverfa á braut og hefur fengið mikla meðgjöf í gegnum tíðina í forma ókeypis Byggðakvóta sem leggst á háar fjárhæðir.

Misrétti og óréttlæti er ekki góður förunautur og uppspretta alls ills .

Með því að sýna samfélagslega ábyrgð og byggja upp samfélag þar sem réttlæti og jöfnuður er hafður að leiðarljósi  er hægt að nálgast það markmið að „ Samfélagið sé fyrir alla en ekki bara fyrir fáa útvalda.


...Það er ótrúlegt að í heiðskýru og fallegu veðri, sólin skín og vor í lofti, þá allt í einu á miðjum degi verður svarta myrkur, já svarta myrkur ekki bara á einum stað heldur mörgum og þó svartast á stöðum eins og Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Það er nöturlegt og sárt að horfa upp á það að allt í einu eru staðirnir sem okkur þykir svo gott að lifa og starfa á, allt í einu eru þeir ekki nothæfir lengur. Það er nöturlegt og sárt að einn og sami aðilinn hafi fengið fyrirgreiðslu, fengið hlut af skattpeningum okkar allra, fengið húsakost og tæki á niðursettu verði, fengið yfirráð yfir auðlindinni sem við öll eigum, til þess að byggja upp fyrirtæki sem svo allt í einu á að þjappa saman á einn stað, og arðsemiskrafan ein ræður ferðinni, arðsemiskrafa örfárra einstaklinga sem vilja geta borgað sér og sínum sem allra allra mestan arð af öllu saman...
Meira

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.