...Jöfnuður er  nauðsynlegur í efnahagslegum skilningi, en það er algerlega óhjákvæmilegt að valdinu í þjóðfélaginu sé þannig fyrirkomið og dreift að jafnréttið eigi við um það líka. Jafnvægi þarf að vera milli þegnanna og skýrar skorður þurfa að afmarka völd og áhrif einstakra hagsmunahópa.

Valdajafnvægi eða að minnsta kosti takmörkun á samþjöppun auðs og valds er helsta trygging almennings fyrir því að samheldið þjóðfélag byggt á jafnrétti og jöfnuði þróist áfram.  Gætum að því að ekkert er eilíft og það  á við um þann grundvöll sem verkalýðshreyfingin hefur með baráttu sinni náð fram og íslenskt þjóðfélag hvílir á. Það sem hefur áunnist getur tapast ef menn halda ekki vöku sinni.

Á síðustu áratugum hefur orðið róttæk breyting sem er að færa þjóðfélagið aftur til fyrri tíma  í ójöfnuði auðs og valds.  Svo er nú komið að vaxandi ójöfnuður er stærsta þjóðfélagslega vandamálið sem við er að glíma. Efnahagslegur ójöfnuður hefur aukist í risaskrefum og samþjöppum valds á fáar hendur er orðin slík að það ógnar efnahagslegu og andlegu frelsi launamanna um land allt. Hvergi eru merkin um ójöfnuðinn skýrari en einmitt við sjávarsíðuna  eins og fólkið í vestfirsku sjávarplássunum hefur hvað eftir annað fengið að reyna á eigin skinni, nú síðast á Þingeyri. Helstu orsakir breytinganna liggja inn í sjávarútveginum. Þar er að finna skýringarnar á ósanngirninni, óréttlætinu og ójöfnuðinum sem bitnar á almenningi....


Meira

þriðjudagurinn 11. júní 2013

Pistill Elsu Arnardóttur 1. maí 2013

Góðir tilheyrendur.

 

Ég óska launafólki um allt land til hamingju með daginn.

 

        Eins og þið vitið jafn vel og ég eru íbúar Vestfjarða rétt rúm sjö þúsund og þar af eru tæplega níuhundruð manns af erlendum uppruna. Tvöhundruð þeirra hafa íslenskt ríkisfang. Störfin í fiskvinnslu eru að miklu leyti mönnuð með starfskröftum fólks, sem hingað hefur flutt erlendis frá. Leyfi ég mér að fullyrða að framlag fólks af erlendum uppruna hafi skipt sköpum fyrir Vestfirðinga.

 

Byggðaþróun á Vestfjörðum hefði orðið allt önnur ef ekki hefði flust hingað fólk erlendis frá. Reyndar er spurning hvort Vestfirðir væru í byggð allt árið ef ekki væri fyrir innflytjendur, sem hér hafa sest að og vinna þau störf sem Íslendingar virðast  ekki vilja lengur vinna.

 

        Ávinningurinn af komu innflytjendanna er margvíslegur. Til dæms er mikill kostnaður af hinum dæmigerða íslendingi á meðan hann er að vaxa úr grasi - fram til tvítugs og jafnvel lengur . Nægir þar að nefna kostnað samfélagssins við skólahald allt frá leikskóla og upp úr. Kostnaðurinn af fullorðnu fólki sem hingað flytur hefur hinsvegar fallið á heimaland þeirra.

 

Erlent verkafólk leggur strax til samfélagssins með vinnu sinni og með því að greiða opinber gjöld.  Hagnaðurinn er því mikill og augljós þar sem engu er kostað til uppvaxtar viðkomandi.

 

        Íbúar með erlendan uppruna hér á Vestfjörðum koma frá tæpllega 40 þjóðríkjum, langflestir frá Póllandi, en síðan eru flestir frá Filipseyjum, Taílandi, Þýskalandi, Danmörk, Bretlandi, Portúgal og Kanada. Ástæður fólks til að flytja á milli landa eru margvíslegar. Forvitni dregur suma í ferðalög, ástin aðra, en ástæða flestra fyrir því að flytja til Íslands er vonin um betra líf fyrir sig og fjölskyldu sína.

 

        Ef að yfirskrift dagsins, kaupmáttur, atvinna og velferð á að ná til allra félagsmanna Alþýðusambands Íslands  og Verkalýðsfélags Vestfirðinga er mikilvægt að hugað sé sérstaklega að stöðu innflytjenda í samfélaginu. Tölur sýna okkar því miður að það hallar á innflytjendur á ýmsum sviðum. Þeir eru með lægri laun, fá ekki tækifæri til að nýta menntun sína sem skyldi og fyrri reynslu sína á vinnumarkaði.

 

        Atvinnuleysi bitnar harðar á innflytjendum, ekki síst langtímaatvinnuleysi. Vinnuslys eru algengari, þeir hafa síður forsjá barna sinna. Unglingar af erlendum uppruna fara síður í framhaldsskóla, en jafnaldrar þeirra, og eru líklegri til að ljúka ekki námi og svona mætti þvi miður lengi telja.

 

        Þessari þróun verður að  að snúa við. Innflytjendum verður að gefast kostur á að nýta reynslu sína og menntun sjálfum sér, fjölskyldum og íslensku samfélagi til framdráttar.

 

        Nauðsynlegt er að fólki standi til boða ókeypis íslenskukennsla og samfélagsfræðsla

 

 

        Við fæddumst ekki á Keflavíkurflugvelli eins, og svo margir Íslendingar virðast halda, er athugasemd sem vinkona mín frá Bandaríkjunum kemur stundum með.

 

        Við verðum líka að tryggja að börn af erlendum uppruna hafi sömu tæki færi til menntunar og börn íslenskra foreldra. Munum að það getur verið snúið og erfitt að læra nýtt tungumál. Jákvætt viðmót samborgara og félagsleg viðurkenning hefur sýnt sig að skipta sköpum varðandi getu okkar flestra ef ekki allra til að læra nýja hluti, ekki síst framandi tungumál.

 

        Að allir íslendingar njóti sömu tækifæra óháð uppruna, bakgrunn, lífskoðun og búsetu svo eitthvað sé talið verður að vera sameiginlegt baráttumál okkar allra og krefjandi verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna. Að börn geti vaxið úr grasi og verið stolt að því að vera af erlendum uppruna og verið stolt af því að vera íslendingar um leið.

 

        Í lokin langar mig að segja mjög svo skemmtilega sögu af sjö ára strák sem er fæddur hér en báðir foreldar eru af erlendum uppruna, Faðirinn er frá Póllandi og móðirin frá Filipseyjum. Fjölskyldan sat í fyrra saman við sjónvarpið og var að horfa á opnunarathöfn Olympíuleikanna. Þá sagði strákur við  föður sinn þegar Pólski fáninn birtist: þarna er fáninn þinn pabbi. Þegar  Filipínska sveitin birtist með sinn fána sagði hann við móður sína:  þarna er fáninn þinn mamma. Þegar hinn íslenski birtist sagði hann með miklu stolti: og þarna er fáninn minn.

 

Takk fyrir


1.Maí ávarp 2011.

Góðir félagar til hamingju með daginn  á þessum alþjóðlega baráttudegi launafólks er okkur hollt að staldra við og meta stöðuna upp á nýtt,hvað hefur áunnist í kjarabaráttu liðinna ára , hvað mætti betur fara og hvað  getum við lært af óbilandi þrautsegju og baráttuþreki fyrri kynslóða.

Nú á dögunum kom út fyrsta bindi af þremur um sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum hún er skráð af Sigurði Péturssyni sagnfræðingi og bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ og nefnist bókin „Vindur í Seglum" og spannar hún tímabilið 1890 - 1930.

Þar er rakin saga fyrstu verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum og lýsir hún miklum og óbilandi kjarki og hugsjónaeldi þess fólks sem ruddu brautina við erfiðar aðstæður og fátækt - gegn harðsnúnu valdi atvinnurekanda þeirra tíma.

Annað bindið mun fjalla m.a. um upphafssögu Verkalýðs og sjómannafélagsins Súganda og hvet ég fólk eindregið til að eignast og lesa þessa merku sögu sem er ómetanlegur og dýrmætur fróðleikur um kjarabaráttu - atvinnuhætti og byggðasögu á Vestfjörðum

Sagan mun spanna vel yfir heila öld þegar öll þrjú bindin verða komin út.

Gífurlegar breytingar hafa orðið á rúmri öld frá því að þjóðin bjó við sára fátækt í það að verða ein af 10 ríkustu þjóðum heims sem hún er í dag þrátt fyrir bankahrun og kreppu í kjölfarið.

Ef vel er að gáð má samt  finna nokkuð sammerkt með lífsbaráttu fyrri tíma og þeirri baráttu sem nútíma launa maðurinn stendur í á hverjum degi til að tryggja fjárhagslegt afkomuöryggi fjölskyldu sinnar.

Í dag eru margir fastir á skuldaklafa fjárhagslegra skuldbindinga vegna húsnæðis og bílakaupa einnig við kretitkorta fyrirtækin langt fram í tímann en fyrir rúmlega hundrað árum voru verkamennirnir bundnir á skuldaklafa við sína atvinnurekendur sem oftar en ekki ráku þá líka verslun og vöruflutninga ásamt útgerð og fiskverkun.Menn voru þar með nauðbeygðir til að fá vinnu sína greidda út í vörum og þjónustu eða í inneignarnótum hjá  vinnuveitenda sínum og höfðu þeir því ekkert frelsi til að ráðstafa tekjum sínum sjálfir og voru í raun í vistarböndum.

Skúli Thoroddsen alþingismaður Ísfirðinga lagði fyrstur fram frumvarp um kaupgreiðslur í peningum árið 1893. Tilgangurinn var að auka frelsi daglaunamanna til að versla þar sem hagstæðast var en ekki vera bundinn atvinnurekanda sínum og verslun hans.

Frumvarpið mætti mikilli andstöðu í fyrstu og varð ekki að lögum fyrr en árið 1901.

Hinn almenni launamaður í dag hefur heldur ekki mikið frelsi til að ráðstafa tekjum sínum ,því eftir fastan kostnað við rekstur heimilis og fjölskyldu er lítið eftir ef það er þá nokkuð eftir til ráðstöfunar af útborguðum mánuðarlaunum hverju sinni.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa verið lausir frá og með síðustu áramótum og samningaviðræður hafa nú siglt í strand og við blasa átök og verkföll ef allt heldur fram sem horfir. Enginn óskar sér þesss að þurfa að beita verkfallsvopninu nema sem neyðarúrræði en þegar verkalýðshreyfingin er höfð að leiksoppa og tækifæri til að ganga til samninga er spillt með því að Samtök Atvinnulífsins neita að skrifa undir samninga nú á dögunum nema breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu liggi fyrir og verði LÍÚ þóknanlegar þá er ekki nema von að mönnum sé nóg boðið.Þetta eru alveg ótrúleg vinnubrögð þar sem báðir aðilar voru orðnir sammála um launahækkanir og samninga til næstu 3 ára.

Samninganefnd ASÍ ákvað þá að slíta samningaviðræðum þar sem breytingar á kvótakerfinu hafa ekkert með almennar kjaraviðræður að gera. Allflestir landsmenn hafa haft miklar skoðanir á fiskveiðistjórnunarkerfinu en það eru að sjálfsögðu lýðræðislega kjörin stjórnvöld hverju sinni sem setja lögin í landinu og hvorki ASÍ-LÍÚ eða SA hafa umboð til að taka löggjafann í gíslingu.

Hvað kæmi þá næst væri þá ekki hægt að ganga frá kjarasamningum ef félög verslunar og þjónustu væru ósátt við Samkeppnislögin eða ef flutningafyrirtæki væru ósátt við Umferðarlögin eða vill LÍÚ kannski fá að endurskoða Sjórnarskrána  við gerð næstu kjarasamninga.

 Nei þetta er komið langt út fyrir það hlutverk sem aðilar vinnumarkaðarins hafa og mjög ólýðræðislegt að taka kjarasamninga í gíslingu með þessum hætti það sér hver heilvita maður.

En við skulum vona að Eyjólfur hressist og atvinnurekendur almennt láti ekki óbilgirni LÍÚ ráða ferðinni og endurmeti stöðuna upp á nýtt svo hægt verði að ganga til samninga.

Það sem við þurfum síst á að halda nú þegar við erum loks farin að sjá fyrir endann á kreppunni eru óábyrg vinnubrögð sem stefna launafólki í verkfallsátök með alvarlegum afleiðingum.

Launafólk á Vestfjörðum fór í langt og erfitt verkfall 1997 til að berjast fyrir réttlátri kröfu sinni um 100 þúsund króna lágmarkslaun nú 14 árum síðar eru lágmarkslaun aðeins um 165 þúsund krónur og krafan nú er að ná lágmarkslaunum upp fyrir 200 þúsund krónurnar á næstu þremur árum.

Ef atvinnuvegir landsins standa ekki undir þeim hógværu kröfum og vilja ekki ganga til samninga á þeim grunni , þá ráða einhverjir óskyldir hagsmunir ferðinni eins og t.d. yfirráðin yfir sameiginlegum sjávarauðlindum þjóðarinnar.

Launafólk hefur orðið fyrir miklum kjaraskerðingum í kjölfar hrunsins og verið tilneytt til að axla þær byrðar sem frjálshyggjupostularnir og       

fjárglæframennirnir komu yfir á þjóðina en nú er þolinmæðin á þrotum og kominn tími til að auka kaupmátt launamanna og sína þar með raunverulegan vilja og samtakamátt  við

að endurreisa  samfélagið.

Misskiptingin var orðin gífurlega mikil í landinu fyrir hrun og við verðum að byggja nýtt samfélag á grunni jöfnuðar og félagshyggju og leggja til hliðar græðgi og sérhagsmuni sem við brenndum okkur svo illilega á við hrunið.

Við erum þegar upp er staðið öll á sama bát og eigum að geta búið öllum þjóðfélagsþegnum mannsæmandi lífskjör verandi ein af ríkustu þjóðum heims og að því markmiði skulum við öll vinna  saman að.

Ég vil að lokum fara með nokkrar verkfallsrímur sem má finna í bókinni „ Vindur í seglum" en Hjálmar Hafliðason í Hnífsdal orti þær 1926 eftir verkfall það árið og voru rímurnar boðnar upp hjá verkalýðsfélaginu Baldri til fjáröflunar fyrir sjúkrasjóð félagsins.

Mjölnir skrækir, og margir kurra

Munu ef kaupið lækkar svo,

Á hann að sækja þorskinn þurra

Þurra í kampaníið sko?

 

Hlaut að stöðvast vitlaus vinna

Vildi enginn fara í slag

Verkstjórarnir værðum sinna

Við skulum reyna næsta dag.

 

Hann svo rann upp hýr og blíður

hölda vakti kaupdeilan,

Sást þar margur sveinninn fríður

Sýsli og varalögreglan.

Nú var ei um gott að gera

Gagnvart fögru hnöppunum

Reyna sig þó best að bera

Að báðum standa á löppunum

 

Pukrið ekki einir lengur

Eflið verklýðsfélagið

Gangi í það hver dáðadrengur

Og dásamlega kvenfólkið.

 

 Lilja Rafney Magnúsdóttir


mánudagurinn 2. maí 2011

Pistill Höllu Signýjar Kristjánsdóttur

Halla Signý Kristjánsdóttir
Halla Signý Kristjánsdóttir
1.     maí ávarp á Ísafirði 2011.

Vorið kom hlæjandi
hlaupandi
niður hlíðina vestan megin.
Engri sjón hef ég orðið jafn bundinn
og alls hugar feginn.

Ég tók það í fang
og festi mér það
sem fegurst og best ég þekki.
Mánuður leið,
mannsaldur leið,
og ég missti það ekki.

Góðan daginn og gleðilega hátíð.

Ljóðlínurnar sem ég las urðu Guðmundi Inga skáldi að orði í upphafi sjötta áratugarins. Hann var ekki endilega að tala um árstíðina heldur að hann hefði fest sér konu sem komið með vorið í fang hans, enda 18 árum yngri.

Rót kom á huga minn í gær þegar ég sat hérna í þessum sal,- á frábærri og tímabærri ráðstefnu um tækifæri, aðstæður og samkeppni fyrirtækja á Vestfjörðum. Ég stakk mér hér inn úr vorviðrinu fyrir utan til að hlíða á áhugaverða fyrirlestra.  Þegar ég fór út var ég ekki viss hvort ég var með vorið í fangið, haustið eða hreinlega vetrarhörkur  vestfirskrar búsetuframtíðar.

Vestfirðir hafa verið byggðir frá landnámi, af duglegu, sterku og bjargálna fólki. Allt fram á þennan dag höfum við verið sjálfum okkur nóg um það  að hafa í okkur og á.

En tölur tala sínu máli, fólksflótti er staðreynd og ekkert þýðir að stinga hausnum í sandinn og neita að horfa á staðreyndir. Við höfum alltaf getað státað okkur af litlu atvinnuleysi en það hefur auðvitað  verið á kostnað þess að fólk hefur tekið sig upp og flutt í burtu í leit að atvinnu, námi og þá í framhaldinu, vinnu sem hæfði menntun  fólks.

En eigum við þá ekki bara að fara að dæmi Grunnvíkinga þegar þeir ákváðu á einum fundi að hætta þessu veseni hætta búsetu á svæðinu og flytja burt en hvurt? Er nóg að fara? Er grasið svona grænt hinu megin að allir hafi þar nóg?

Það kom fram í gær, í framsögu Vífils Karlsonar hagfræðings að við, - landsbyggðin værum að leggja meira til þjóðarkökunnar heldur en við neyttum af henni. Við værum að afla ca. 27%  (prósenta) af tekjum ríkisins en ríkið væri að eyða 15% þeirra í samneyslu á landsbyggðinni. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að við erum ekki bara þiggjendur í samneyslunni heldur gefendur. Sælla er að gefa en þiggja.

En við megum ekki festast í þeirri sjálfsumgleði, heldur verðum við að einblína á það að við Vestfirðingar erum Þátttakendur. Fullkomnir þátttakendur í samfélaginu. Meðan svo er þá erum við fullkomlega fær um að snúa þessari byggðaþróun við eða alla vega, að reisa varnarmúr gegn frekari hnignun.  Ég held það geti verið hluti af vandanum að við höfum verið sannfærð um að partur af þessu öllu sé,  að það er búið að koma því inn í undirmeðvitund okkar að við séum dragbítar og þurfalingar á vaxtasvæðum landsins og að við stöndum framförum og hagvexti þjóðarinnar hreinlega fyrir þrifum.

 Fyrir 40 árum náðist sá sigur í áratugabaráttu íslendinga að fá handritin heim. Nú ættu Vestfirðingar að hefja sameiginlega baráttu að fá störfin heim aftur, þau störf sem hafa flust burt og líka þau störf sem verða til fyrir tilstuðlan þess opinberra en ná aldrei lengra en 70 kílómetra radíus frá Reykjavík

Dagurinn í dag er helgaður vinnandi stéttum eða launþegum. Barátta þeirra í gegnum tíðina fyrir tilveru sinni er ekkert ósvipað og okkar vestfirðinga. Atvinnurekendur líta á hina vinnandi stétt sem þiggjendur og sig sjálfa sem gefendur. Þetta hefur fengið byr undir báða vængi undanfarna vikur í samningaferlinu. Kröfur stéttarfélaganna eru  „ónáttúrulegar" og skilningur þeirra enginn á vel varðan veg þjóðarinnar í gegnum kreppuna. Allar launakröfur eru, að mati atvinnurekenda,  til þess að leggja stein í þá beinu götu og það eina sem þarf að hnykkja á, er að staðfesta eignaraðild þessara fáeinu á auðlindum þjóðarinnar.

Atvinnurekendur með LÍÚ í broddi fylkingar, boða að þeirra ein von um bjarta framtíð sé staðfesting á eignarheimild kvóta, enda hafi útgerðarmenn lagt allt sitt líf og fjárfestingar í hann.

Það sem launþegar þurfa alltaf að muna, og minna á, er að þeir eru þátttakendur en ekki þiggjendur.  Atvinnuvegir okkar og framtíðarhorfur byggjast á sameiginlegri þátttöku okkar allra, atvinnurekenda, stjórnvalda og launþega. Þetta er það mengi sem kemur okkur út úr kreppunni. Ekki staðfesting á eignaraðild kvótans.

Gömul kona  fyrir norðan sagði eitt sinn, að hún hefði tekið eftir því undanfarin ár að ef hún lifði af mars þá lifði hún út árið.

Það má vonandi yfirfæra þessi orð gömlu konunnar yfir á baráttu launþega þessa dagana. Hann hefur þrátt fyrir allt lifað út árið þrátt fyrir þrengingar og efnahagshrun og ekkert hægt að gera nema að vona að svo verði áfram.

Viðurkennum og sannfærum stjórnvöld og síðast en ekki síst Okkur sjálf um að við erum þátttakendur en ekki þiggjendur í þjófélaginu. Þá fyrst getum við sannfært okkur um að við höfum vorvinda í fangið.

 

Takk fyrir.

 Halla Signý Kristjánsdóttir


mánudagurinn 2. maí 2011

Hátíðarræða Finnboga 1.maí 2011

Finnbogi í ræðustól í Edinborg
Finnbogi í ræðustól í Edinborg
Haustið 2010 stóð launþegahreyfingin frammi fyrir einu erfiðasta verkefni sem hún hefur tekið sér á hendur í langan tíma. Þetta erfiða verkefnið var, og er enn  fimm mánuðum eftir að samningar losnuðu,  að endurnýja kjarasamninga á vinnumarkaði.

Verkefnið var ekki bara að endurnýja almenna kjarasamninga verkafólks, heldur var málum þannig háttað  að nánast allir kjarasamningar í landinu voru lausir á sama tíma og  því var  í mörg horn að líta og að mörgu að gæta.

Í ljósi ótryggs efnahagsástands, viðvarandi atvinnuleysi og erfiðleika á vinnumarkaði má segja að verkefnið væri nær óyfirstíganlegt.

Víðsvegar innan raða stéttarfélaganna var unnið mikið og öflugt starf við undirbúning kröfugerðar.  Þessi undirbúningur byggði á þátttöku félagsmanna um allt land.

Stéttarfélögin héldu því kjaramálaráðstefnur, kjaramálakannanir og vinnustaðafundi þannig að rödd félagsmannsins næði sem best fram við mótun kröfugerðarinnar.

Alls staðar var eftir því leitað að félagsmaðurinn legði sitt lóð á vogaskálarnar þannig að áherslur hans kæmu skýrt fram við mótun kröfugerðar. 

Þessi mikla og góða vinna lagði grunninn að kröfugerð launþega í aðdraganda kjarasamninga og var ljóst að ábyrgð samninganefnda var mikil við að framfylgja ítrustu kröfum félagsmanna.

Samninganefndum var líka ljós sú ábyrgð að allir þyrftu að ganga í takt, að sameina þyrfti ólíka hópa, hópa sem innbirgðis gerðu ólíkar kröfur til að ná sínum markmiðum fram.

Þegar slík staða kemur upp reynir á samtakamátt og samstöðu launþega. Þá reynir á að sem best gangi að miðla málum svo ólík sjónamið geti sameinast um það sem við öll viljum sækja, meiri velferð og aukinn kaupmátt.

Aukinn kaupmáttur hefur því verið rauði þráðurinn í kjaraviðræðum okkar við samtök atvinnurekenda. En aukinn kaupmáttur eru ekki bara fleiri krónur í umslagið.

Hafa verður í huga önnur atriði sem líka vega þungt. Þensla má ekki verða of hröð þannig að afleiðing hennar,  aukin verðbólga,  fari  úr böndunum og éti á skömmum tíma upp þann kaupmátt sem verið er að semja um.

Hjá samtökum atvinnulífsins breytist söngurinn ekkert,  á þeim bænum eru  kröfur verkafólks um launahækkanir alltaf út úr kortinu. Hvenær hafa launakröfur verkafólks talist raunhæfar í þeirra augum? Þeir segja okkur fara fram á þrefalt meiri launahækkanir en í nágranalöndunum og slíkt gangi einfaldlega ekki upp.

Mitt svar við þessu er einfalt, fyrst þarf að jafna laun og lísfkjör hér  á við það sem gerist í nágranalöndunum. Næsta skref væri síðan  að láta okkur hafa sömu launahækkanir og þar var samið um, þá loksins erum við að tala um sama hlutinn.

Það kom skýrt fram í áherslum við mótun kröfugerðar félagsmanna víðsvegar um land að megin tilgangur samningann yrði aukinn kaupmáttur og stöðugleiki á vinnumarkaði. Unnið yrði á atvinnuleysi með bráðaaðgerðum á vinnumarkaði með mannaflsfrekum aðgerðum sem myndu skapa fleiri störf.

Í kjaraviðræðum verður að líta á óþolinmæði sem lúxus sem við getum ekki leyft okkur þótt  ekkert virðist ganga. Með þolinmæði í kjaraviðræðum er ekki verið að gefa eftir eða veita afslátt af kaupkröfum félagsmanna.

Stundum er þessi þolinmæði gagnrýnd sem linkind við atvinnurekendur, forustan eigi að láta sverfa til stáls og það strax. Sigrar vinnast ekki með óðagoti eða illa ígrunduðum aðgerðum. Þegar illa gengur er þolinmæði dyggð. 

 

En í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir í allan vetur og standa enn hefur reynt alveg gríðarlega á þolinmæðina.

Nú er svo komið að þolinmæði okkar er á þrotum. Landssambönd innan ASÍ hafa eitt af öðru verið að vísa kjaradeilum til ríkissáttasemjara og þau sem lengra eru komin eru þegar byrjuð að undirbúa aðgerðir. 

 

Sú staða sem er kominn upp í kjaraviðræðum að eitt aðildarfélag SA, Landssamband íslenskra Útvegsmanna, hefur tekið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í gíslingu er algjörlega ólíðandi. Í mínum augum eru þetta ekkert annað en landráð, landráð gagnvart  verkafólki á Íslandi.

Verkafólk hefur ekkert haft um það að segja hvernig aflaheimildum á Íslandi hefur verið úthlutað. Verkafólk hefur ekki fengið arð þessum aflaheimildum, hefur ekki getað verslað með þær eða veðsett.

Af hverju ætti verkafólk að  vera beitt til að ná fram niðurstöðu sem er LÍÚ þóknanlegt ?  Svarið er einfalt, hagsmunasamtökin LÍÚ vija þessa ríkisstjórn frá og ætla beita launþegum fyrir sig til að ná fram niðurstöðu sem þeim er þóknanleg.  Það verður aldrei.

Það er með hreinum ólíkindum hve langt þessi sérhagsmuna hópur hefur komist með frekju og yfirgangi en nú er kominn tími til að stoppa þá af og nota til þess öll tiltæk ráð.

Á stundum sem slíkum er nauðsynlegt að þétta raðirnar og ráðast á ófæruna með samstöðuna að vopni. 

Það gerist eingöngu með því að forustan og fólkið hafi staðið þétt saman við undirbúning aðgerða.  Gleymum því ekki að það er fólkið í félögunum sem myndar þessa órofa heild sem samtök launþega eru.

Án þess hreyfiafls sem fólkið í félögunum er,  væri barátta forystunnar lítils virði.  Verum þess ávallt minnug að það er samtakamátturinn sem hefur skilað launafólki stærstu sigrunum.

Það er fólkið sem vinnur störfin sem finnur best hvar skóinn kreppir í kjarabaráttu launþega. Þangað eigum við í forusta launafólks að leita ráða þegar okkur rekur í vörðurnar í baráttunni við samtök atvinnurekenda.

Við sem erum í forystunni verðum og eigum að hlusta á það sem fólkið okkar hefur fram að færa.

Verum þess minnug hvert við sækjum styrkinn, hvar hugmyndir fæðast, fyrir hverju er verið að berjast og hvert ætlum við okkur í framtíðinni.

Launþegahreyfingin verður og á að virka sem samstæð heild. Heild þar sem allar skoðanir og hugmyndir eru jafn réttháar. Það er einmitt með slíku hugarfari sem launþegum mun hlotnast ríkuleg uppskera.

Uppskeru þar sem sigrar skila ávinningi inni í framtíðina.

Sá sem hér stendur hefur alltaf verið talsmaður samtöðu, verið talsmaður þess að með samstöðu og samtakamætti væru launþegum allir vegir færir, ég mun ekki hvika frá þeirri skoðun minni fyrr en í fulla hnefanna. 

Skipuleg barátta fyrir bættum kjörum,  í tæplega 100 ár,  ásamt órjúfanlegri samstöðu hinna vinnandi handa hefur skilað okkur þeim ávinningi sem við njótum í dag

En verum þess minnug að víðsvegar um heiminn standa verkamenn, enn í dag, í blóðugum átökum fyrir grundvallar mannréttindum, réttindum sem okkur hérna heima á Íslandi þykja alveg sjálfsögð en eru svo sannarlega ekki sjálfgefin.

Barátta verkafólks á Íslandi fyrir mannsæmandi réttindum hefur verið þyrnum stráð og á tíðum mjög hatrömm, í þeirri baráttu hefur reynt á þolinmæði og þrautseigju verkafólks.

Fæst gerum við okkur almennt grein fyrir því hverju áratuga löng barátta samtaka verkafólks hefur náð fram í velferðarmálum sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Undanfarna mánuði og vikur hefur mikið af kröftum verkalýðshreyfingarinnar farið í það að verja það sem áunnist hefur í gegnum tíðina.

Mikil orka hefur einnig farið í baráttu og strögl við ríkisstjórn landsins, ríkisstjórn sem kjörin var til að standa vörð um heimili landsmanna.

Ríkisstjórn sem verkalýðshreyfingin hefur gert samninga við.

Samninga um stöðugleika á vinnumarkaði, um bætt kjör til atvinnulausra, um úrlausn í skattamálum sem brennur hve mest á okkar fólki.

Hvaða réttlæti er í því að launþegi með rétt rúm 200 þús í mánaðarlaun skuli þurfa að greiða  tæplega þriðjung af tekjum í skatta og útsvar ?

Hvernig á slíkur einstaklingur að ná endum saman þegar allt hefur hækkað nema kaupið ?

Hann einfaldlega getur það ekki.

Stjórnvöld geta ekki endalaust ætlast til þess að almenningur í landinu sjái um að halda þjóðarskútunni á réttum kili.

Sótt er að launafólki úr öllum áttum, ekki eingöngu frá atvinnurekendum heldur hafa forstöðumenn ríkisstofnana og sveitarfélaga einnig gengið í lið með þeim sem seilast ansi langt í að skerða kjarasamningsbundin réttindi launafólks..

Í því atvinnuástandi sem við okkur blasir má í raun segja að það sé verið að svínbeygja verkafólk til að gefa eftir af kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum  eingöngu til að halda vinnunni.

Almenningur hefur orðið misréttis og ójafnaðar áþreifanlega var á eigin skinni.     Í dag er það réttur rukkara og fjármagnseigenda sem kemur fyrst en síðastur kemur réttur almennings.

Þetta sést best á því hvernig rétti rukkaranna gagnvart almenningi er háttað, nánast ekkert er blakað við fjárglæframönnum sem fengu að skáka óáreittir í skjóli Allþingis og eftirlitsaðila. Og þeir skara enn eld að eigin köku án þess að mikið sé aðhafst.

Almenningi í landinu er ekki vorkennt þegar bjóða á ofan honum. Við sjáum fulltrúa rukkaranna vaða inn á heimili almennings og húsnæði þess boðið upp sé ekki staðið í skilum með greiðslur á réttu tíma. Þar er svigrúmið lítið og samúðin engin.   

Eftir situr almenningur í landinu blóðrisa eftir vönd innheimtumanna sem dynur á þeim sem ekki hafa staðið í skilum með hverja krónu. 

Er þetta hið nýja Ísland sem við viljum byggja ?

Ég segi Nei og aftur Nei.

Megin áhersla hefur nefnilega verið lögð á að bjarga fjármagnseigendum og koma þeim að kjötkötlunum að nýju.

Að þessu er unnið leynt og ljóst en skýrasta dæmið um viðvarandi siðleysi er hvernig fyrrum eigendum bankanna hafa verið tryggð áhrif og völd í fjármálalífi Íslendinga á nýjan leik.

Nýtt Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta, á meðan okkur almenningi í landinu, er ætlað það hlutverk eitt að sópa upp rústum og ruslinu sem þessir snillingar hafa búið til.

Sú staðreynd að heimilin í landinu skuli ávallt þurfa að taka á sig stöðugar hækkanir þegar á móti blæs í efnahagslífi okkar er með öllu óþolandi.

Ekki nutu vestfirsk heimili góðs af  sterkri stöðu krónunnar og hagstæðum gengismun þegar góðærið svo kallaða strauk gullkálfum þessa lands um vanga. 

- Þar var sko öðru nær !

Við eigum ekki með nokkru móti að sætta okkur við þá kyrrstöðu og ráðaleysi sem einkennt hefur gjörðir stjórnvalda undanfarin misseri.

Við verðum að beita þrýstingi og samtöðu til að særa fram samstarf um auknar framkvæmdir og þannig tryggja stöðugra atvinnustig.

Efla þarf samstaf ráðamanna þjóðarinnar og sveitafélaga við launþegasamtök með það að leiðarljósi að verja hag heimilanna fyrir frekari áföllum.

Fara þarf í víðtækar aðgerðir sem hlúa að og styðja við þau fyrirtæki sem hafa í gegnum tíðina skapað atvinnuöryggi í heimabyggð. 

Knýjum á aukna innspýtingu í atvinnulífið svo hagvöxtur í landinu taki að vaxa á nýjan leik.

Leggjum okkar lóð á vogaskálarnar og hvetjum til áræðni í ákvarðanatöku okkar fólki til heilla. Látum ekki hrakspár um stöðnun eða algjört hrun verða að veruleika.

Við eigum ekki að líða að okkur sé stillt upp við vegg til að taka við afarkostum atvinnurekanda, sveitafélaga og ríkisvaldsins þegjandi og hljóðalaust.

Það er því hvatning mín til launþega þessa lands og ekki síst vestfirska launþega,  að þétta raðirnar,  láta í sér heyra, og hafa áhrif  með því að taka þátt í umræðum um kaup og kjör hvar sem tækifæri gefast.

Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar þannig að á Vestfjörðum getum við átt farsæla framtíð.  Framtíð sem byggir á samtakamætti, elju og dugnaði vestfirsks launafólks.

Sýnum það í orði og í verki hvers við erum megnug með samstöðuna að vopni. Leggjumst öll á eitt til að koma forsvarsmönnum LÍÚ í skilning um það að það erum við, fólkið í landinu, en ekki þeir sem ráðum ferðinni í kjarabaráttu landverkafólks.

Horfum fram á vegin með festu og ákveðni og segjum, ég get, ég þori, ég vil og ég skal leggja mitt af mörkum til að baráttan fyrir bættum kjörum skili okkur sem mestum ávinningi inn í framtíðina.

Missum aldrei sjónar á markmiðunum, berjumst ótrauð fyrir bættum kjörum, ekki bara fyrir líðandi stund heldur líka fyrir framtíðina.

Látum þessar raddir heyrast hátt og snjallt, ekki bara á 1.maí. Tökum virkan þátt í að byggja betra samfélag.

Stöndum vörð um réttindi okkar og kjör, þetta eru ekki sjálfgefin lífsgæði,  fyrir þeim hefur verið barist í hart nær 100 ár.

Látum í okkur heyra og tökum þátt í að auka atvinnu og bæta kjörin.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.