þriðjudagurinn 17. mars 2009

Launahækkanir komi til framkvæmda strax !

Launþegar eiga rétt á að fá sinn skerf af verðmætasköpun þegar vel gengur. Ljósm. Guðmundur H. Gunnarsson
Launþegar eiga rétt á að fá sinn skerf af verðmætasköpun þegar vel gengur. Ljósm. Guðmundur H. Gunnarsson

Allmörg fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á vinnu verkafólks eða ófaglærðra virðast vissulega hafa úr meiru að moða en kom fram hjá Samtökum Atvinnulífsins í aðdraganda frestunar launahækkana. Þessi fyrirtæki hefðu að öllum líkindum getað greitt út umsamdar launahækkanir þann 1. mars sl. Nú ber svo við að eitt þessara fyrirtækja, HB - Grandi sem hafði fengið frest hjá launþegum til launahækkana, ákveður að greiða eigendum sínum all ríflegan arð. Arðgreiðslan sem um ræðir er engin ölmusa, kr. 150.000.000150 milljónir króna,  hún hefði dugað til að greiða fiskvinnslufólks fyrirtækisins 13.500 króna hækkunina  í 8 ár, og svo segja menn að vinnsla og veiðar séu vart á vetur setjandi svo slæmt sé ástandið.

 

Bara það að láta hugann hvarfla að því að framkvæma slíkan gjörning er sem blaut tuska í andlit launþega sem voru nýbúnir að koma á móts við atvinnulífið og samþykkja frestun launahækkana. Það að framkvæma sýnir að siðblinda eiganda fyrirtækisins er algjör og ekki nema von að hinum almenna launamanni blöskri, enda grunntaxti eftir 7 ára starf í fiskvinnslu ekki nema 154.500 fyrir fullt starf án bónusa.

 

Þann 25. febrúar sl. var undirritað samkomulag á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins ( SA ) um frestun á endurskoðun kjarasamninga. Þetta þýddi í raun að þær hækkanir sem áttu að skila sér í umslög launþega þan 1. mars sl. urðu ekki að veruleika. Þessu mótmæltu fimm stéttarfélög á landsbyggðinni og var Verkalýðsfélag Vestfirðinga eitt af þessum fimm félögum.  Voru helstu rök þessara stéttarfélaga að SA væri að fyrst og fremst að óska eftir sveiganleika vegna umsamdra launahækkana, en ekki að þeim yrði að fullu frestað.

Að sjálfsögðu var það óska staða fyrirtækjanna að fá launahækkunum frestað fram á sumarið og ávaxta þannig eigið fé, en það átti ekki að vera á kostnað hins almenna launamanns. 

 

Nú er svo komið að innan verkalýðshreyfingarinnar eru forustumenn í samninganefnd ASÍ að verða þess áskynja að líklega hefði verið í lagi hlusta betur á þennan háværa óþægilega minnihluta innan hreyfingarinnar sem taldi frestun hækkana ekki rétta leið. Það væri einfaldlega meira til skiptanna hjá fyrirtækjunum en Samtök atvinnulífsins hefðu látið í veðri vaka.  Þetta kemur glögglega fram í ummælum nokkurra af helstu forystumönnum samninganefndar launþega.

 

Á heimasíðu ASÍ er haft eftir forseta Alþýðusambandsins Gylfa Arnbjörnssyni að hann ætlist til þess að fyrirtækin sem betur standi láti starfsfólkið njóta ávinnings af góðri afkomu þeirra. Einnig má lesa á heimasíðu Eflingar stéttafélags ályktun þar sem stjórn félagsins hvetur þau fyrirtæki sem búa við arðsaman rekstur að standa við umsamdar hækkanir til launafólks. Þá er sömuleiðis haft eftir formanni Starfsgreinasambandsins, Kristjáni Gunnarssyni, í Morgunblaðinu í dag að það væri greinilegt að meiri innistæða væri fyrir hækkunum en komið hafi fram á samningafundum með SA og nú þyrfti að endurmeta þá ákvörðun sem tekin var um frestunina.

 

Þann 5. mars sl. beindi stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga þeirri hvatningu til fyrirtækja að þau hækkuðu lægstu taxta þannig að enginn launamaður yrði undir lágmarkstekjutryggingu sem er kr.157.000. Það er fyrst og fremst fyrir dugnað hinna vinnandi handa starfsfólksins sem fyrirtækjum er skapaður grundvöllur fyrir betri afkomu. Það er starfsfólkið sem eru hin raunverulegu verðmæti fyrirtækjanna og skapa þann arð sem sum fyrirtæki velja að greiða eingöngu til útvalins hóps. Góðir eigendur og stjórnendur fyrirtækja eiga fyrst og síðast að hafa velferð og starfsánægju starfsfólksins að leiðarljósi. Það verður best gert með því að skipta kökunni jafnt á milli þeirra sem hafa tekið þátt við baksturinn.

Einnig má sjá umfjöllun mbl.is um málið og ummæli Jóhönnu Sigurðardóttir  forsætisráðherra um siðleysi eiganda HB - Granda

fimmtudagurinn 5. mars 2009

Hvatning til atvinnurekenda !

Hækkum lágmarkstaxta
Hækkum lágmarkstaxta

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Vestfirðinga þann 2. mars sl. var frestun launahækkana til umræðu. Þrátt fyrir að mikilvægum árangri hafi verið náð með hækkun lágmarkstekjutryggingar upp fyrir grunnatvinnuleysisbætur þá vill stjórn félagsins beina eftirfarandi hvatningu til atvinnurekenda.

 

"Markmið kjarasamninganna frá 17.febrúar 2008 var að bæta hag þeirra lægst launuðu.  Þann 1.mars sl. hefðu laun verkafólks, sem fær greidd laun samkvæmt almennum taxta, átt að hækka um kr. 13.500 og hjá iðnaðarmönnum um kr. 17.500.   Launahækkanirnar sem hefur nú verið frestað hefðu því skipt þessa launþega miklu máli.   

 

Lágmarks taxti fyrir almenn störf sem ekki eru skilgreind í kjarasamningi eru kr.137.752 fyrir dagvinnu.  Um síðustu áramót hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur í kr.149.523 og voru þá orðnar 11.771 krónum hærri en lágmarks taxti.

Frá og með 1.mars hækkaði lágmarkskauptrygging úr 145.000 í 157.000 fyrir dagvinnu ásamt bónus og vaktaálag. Til samanburðar  er lágmarkstaxti í fiskvinnslu  kr.144.153 fyrir dagvinnu.  Lágmarkstaxti í fiskvinnslu er því 12.847 krónum lægri en kauptryggingin. 

 

Í ljósi þessa er þeirri hvatningu beint til fyrirtækja að þau hækki taxtalaun þannig að enginn greiddur taxti verði undir lágmarkstekjutryggingu fyrir fullt starf í dagvinnu.

 

Kjósi atvinnurekendur þá leið að hækka laun nú þá munu þeir stuðla að aukinni velferð og starfsánægju á vinnustað, ásamt því að viðhalda þeim megin markmiðum kjarasamninganna frá 17. febrúar 2008 að bæta kjör þeirra lægst launuðu.

 

Með þessu móti væru atvinnurekendur einnig að koma á móts við þau meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins að viðhalda stöðugleika sem og hvetja til virkrar þátttöku á vinnumarkaði." 

mánudagurinn 26. janúar 2009

Örvun hagkerfisins nauðsynleg

ljósm. Ragnar F. Valsson
ljósm. Ragnar F. Valsson
Undanfarið hafa staðið yfir viðræður á milli samninganefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði. Fjölmargir standa á hliðarlínunni og ráða samninganefndum heilt um hvert skuli stefna og hvað atriði skuli helst leggja áherslu á. Eitt er þó öllum ljóst að hinn almenni launamaður hefur orðið fyrir mikilli tekjurýrnun á því tæpa ári sem er liði frá því skrifað var undir kjarasamninga á almennum markaði. Áherslur launþegahreyfingarinnar eru því skýrar, stöðugleiki á vinnumarkaði og nauðsyn þess að viðræður muni skila umsömdum hækkunum í aðra hönd að lágmarki.
Meira

föstudagurinn 28. nóvember 2008

Auðveldum fiskvinnslu aðgengi að gámafiski!

Þó ekki sé þörf á að minna á þann vanda sem stefnir í varðandi landvinnslu sjáfarafurða vegna niðurskurðar á þorskkvóta, þá sé ég mig samt knúinn til að minna á eitt af því sem gæti komið í veg fyrir fjölda atvinnuleysi í vinnslu og útgerð. Í umræðunni er sífellt verið að klifa á því hve mörg störf tapist ef ekki verði tekið af festu á þeim vanda sem mun skapast í fiskvinnslu og útgerð í landinu að óbreyttu.
Meira

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Stjórn seðlabankans hefur tekið þá ákvörðun að veita atvinnulífi landsmanna náðarhöggið með 550 punkta hækkun stýrivaxta. Var vandinn ekki nægur þótt þessi gjörningur þyrfti ekki að bætast ofan á ?  Nú er það ljóst að ein helsta krafa alþjóða gjaldeyrissjóðsins um lánafyrirgreiðslu væri umtalsverð hækkun stýrivaxta.  Í ljósi atburða síðustu vikna þá getur laskað atvinnulíf landsmanna ekki tekið á sig frekari áföll sem hækkun stýrivaxta kemur til með að hafi í för með sér. Fjármálaráðherra boðar að hækkunin vari eingöngu í stuttan tíma, kannski er það sá tími sem atvinnulíf okkar þolir ekki við núverandi aðstæður? Hætta er á að fjöldagreiðslustöðvun fyrirtækja muni fylgja boðuðum hópuppsögnum um næstu mánaðarmót í kjölfar þeirra vaxtahækkunar sem nú hefur verið boðuð.

 

Sveitafélög, sem eru lífakkeri margra í atvinnumálum, sjá ekki fram á að geta fjármagnað almennan rekstur og þjónustu,  hvað þá nauðsynlegar viðhalds- eða nýframkvæmdir. Mörg sveitafélög eru komin að fótum fram hvað skuldsetningu varðar og þessi vaxtahækkun mun ekki auðvelda þeim róðurinn. Til þess að koma í veg fyrir algjört hrun atvinnulífs í sveitafélögum þá þarf að hefjast handa strax við viðhald og uppbyggingu sem veita íbúum atvinnuöryggi og tiltrú á að betri tímar séu í sjónmáli. Þar ber stjórnvöldum að sýna að hugur fylgi máli og koma sveitafélögum til tafalausrar aðstoðar í þeim vanda sem nú er við að eiga.

 

Kaupmáttur launa hefur rýrnað með ógnar hraða undanfarnar vikur, sú þróun mun verða enn áþreifanlegri þegar veikir möguleikar fyrirtækja um að halda úti atvinnu verða að engu gerð með þessari ákvörðun. Í framhaldi af því hljótum að spyrja okkur hvað varð um þá skjaldborg sem ætlunin var að slá um heimili landsmanna ?  Þessi margumtalaða skjaldborg virðist eingöngu vera til í orðagjálfri einstaka ráðamanna en ekki þegar á reynir. Skuldabyrgði heimilanna kemur til með að aukast gífurlega með frekara vaxtaokri, afleiðingin verður sem olía á það óánægjubál sem nú logar í íslensku samfélagi.

 

Gríðarlegur verðbólguhraði tekur líka sitt af innkomu heimilanna, matvara og aðrar nauðsynjar hafa hækkað gífurlega undanfarnar vikur þrátt fyrir ítrekaða hvatningu um að hleypa ekki óvissu í gengismálum út í verðlagið. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að setja gróðasjónamiðið til hliðar og hugsa um samfélagsheildina. Fyrirtæki og opinberir aðilar verða að leggjast á árar um að hleypa þessari vaxtahækkun ekki út í verðlagið. Afleiðingarnar ættu öllum að vera ljósar, verðbólgupúkinn myndi fitna sem aldrei fyrr.

 

Nú sem aldrei fyrr er nauðsyn á þátttöku ríkisvaldsins með kraft og áræðni í ákvarðanatöku svo úr rætist í atvinnulífi landsmanna. Ef ekki fara að koma raunhæfar lausnir á þeim vanda sem nú við er að glíma er hætta á algjöru skipbroti atvinnulífs á Íslandi með skelfilegum afleiðingum.  Sú vá sem nú er fyrir dyrum verður ekki leyst nema allir spili í sama liði, hroki og skeytingarleysi gagnvart skoðunum almennings verður að víkja til hliðar, hér eru meiri hagsmunir í húfi en svo að hugmyndir almennings um mögulegar lausnir verði áfram virtar að vettugi.

 

 


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.