miðvikudagurinn 4. desember 2013

Fordæmir aðgerðir Íslandspósts

Á fundi stjórnar Verk Vest voru til umræðu ákvarðanir Íslandspósts um að loka póstafgreiðslum á Suðureyri og Þingeyri. Með þessari ákvörðun er búið að loka öllum póstafgreiðslum í sameinuðum Ísafjarðarbæ, en áður haföi verið lokað á Flateyri. Póstafgreiðslum á Vestfjörðum fækkar jafnt og þétt og með þeim störfum sem fólk hefur byggt afkomu sína á og íbúar treyst á póstþjónustuna, Þessari þróun verður að snúa við og ber forsvarsmönnum sveitafélaga skylda að ganga fram fyrir skjöldu og krefjast lagfæringa. Rétt er að benda á að í Súðavík voru málin leyst í samstarfi sveitarfélagsins og Íslandspósts. Í lok umræðunnar var samþykkt að félagið sendi frá sér efttirfarandi ályktun;

"Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga fordæmir harðlega þá ákvörðun Íslandspóst að loka póstafgreiðslum á Suðureyri og Þingeyri.  Slík ákvörðun hafi ekki eingöngu áhrif á þjónustu við íbúa, heldur skerði ennfrekar möguleika fyrirtækja á Suðureyri og Þingeyri til að nýta póstsamgöngur í eigin atvinnurekstri. Þá skal einnig bent á það ófremdarástand sem ríkir í póstsamgöngum innan Vestfjarða, ákvörðun um lokun og fækkun póstafgreiðslustöðva með uppsögnum starfsfólks bæti þá stöðu ekki.

Stjórn félagsins tekur undir með bókun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, þar sem minnt er á þá grunnþjónustu samfélagsins sem póstþjónustan er. Allar takmarkanir á slíkri grunnþjónustu munu valda íbúum kostnaði og óþægindum auk þess sem hætt er við að grafið verði undan samfélginu á Vestfjörðum í heild sinni. Það er með öllu ólíðandi og má til sanns vegar færa að eftir lokanir Íslandspósts á Bíldudal, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri muni Vestfirðingar búa við enn verri póstsamgöngur en voru á tímum landpóstanna um aldamótinn 1900.

Það er krafa stjórnar Verk Vest að póstsamgöngur innan fjórðungs verði komið í betra horf enda eru góðar póstsamgöngum ein af mikilvægari undirstöðum hvers samfélags."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.