föstudagurinn 4. apríl 2008

Kjararýrnun launþega staðreynd

Þarf að segja eitthvað meira ?
Þarf að segja eitthvað meira ?

Heimilin í landinu hafa ekki farið varhluta af þeim hækkunum sem dynja yfir á degi hverjum. Svo virðist sem reynt sé að vekja upp gamalkunnan draug sem hefur legið hefur í dvala undanfarin ár.  Ekki verður við það unað að sú kjararýnun sem nú er orðin staðreynd skuli bitna á þeim sem sýst geta brugðist við þeim. Það er áríðandi að stéttarfélög í landinu taki saman höndum og verji kjör félaga sinna og um leið kjör heimila á Íslandi.  Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hélt stjórnarfund í gær þar sem ástand efnahagsmála var mjög til umræðu. Í framhaldi af því sendi stjórnin frá sér eftirfarandi ályktun.
 

"Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga gagnrýnir harðlega þá bylgju hækkana sem launþegar hafa þurft að taka á sig að undanförnu. Spyrna þarf við ört hækkandi eldsneytis- og matarverði ásamt  þeim gríðarlegu hækkunum á öðrum nauðsynjum sem dynja á landsmönnum. Það er með öllu óásættanlegt að fyrsti kostur skuli vera að hækka vöruverð og þjónustu til neytenda, mættu aðrir taka þá til fyrirmyndar sem ekki bregða á þessi óyndisráð. Þá eru þau vinnubrögð birgja og heildsala að lauma breytingum á vaxta- og gengismun inn í boðaða hækkun vöruverðs fordæmd harkalega. Ef fram fer sem horfir þá verður verðbólguhraðinn næstu misseri orðinn slíkur að ekki verður við ráðið, og nýumsamdar kjarabætur launþega hverfa með öllu ef ekki verður brugðist strax við vandanum. 

 

Launþegar gerðu miklar væntingar vegna þeirra kjarabóta sem nýjum kjarasamningi var ætlað að færa þeim. Þær kjarabætur skerðast meir og meir með hverjum deginum sem líður, við óbreytt ástand verður ekki unað. Samstaða launþega, með verkalýðshreyfinguna í fararbroddi, gerir þá skýlausu kröfu að endurskoðun vegna framlengingar kjarasamninga hefjist strax. Reynt verði að vinna að haldbærum langtímalausnum á þeim vanda sem steðjar að launþegum, atvinnurekendum og íslensku efnahagslífi. Þar verða allir að leggjast á eitt um að sá árangur náist að verðbólgu og vöxtum verði komið í viðunandi horf  þannig að umsamdar kjarabætur skili sér til heimilanna í landinu."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.