þriðjudagurinn 1. október 2013

Stjórn Verk Vest ályktar um hópuppsögn í Kampa hf.

Vegna hópuppsagnar starfsfólks rækjuverksmiðjunnar Kampa hf. á Ísafirði sendir stjórn Verkalýðasfélags Vestfirðinga frá sér eftirfarandi ályktun.

„Það er ólíðandi að atvinnuöryggi félagsmanna okkar og íbúa á Vestfjörðum sé háð illa ígrunduðum ákvörðunum stjórnvalda eins og boðuð kvótasetning rækjuveiða í úthafinu ætlar að reynast.  Ætla má að kvótasetning úthafsrækju leiði til mikilla hækkana á nýtingarstuðli rækjuaflamarks. Slíkt mun ýta undir að rækjan verði notuð sem skiptimynt fyrir þorskaflaheimildir og allt á kostnað rækjuveiða og vinnslu. Sú mikla uppbygging og fjölgun starfa sem hefur orðið í rækjuveiðum og vinnslu undanfarin ár mun að öllum líkindum tapast ef af fyrirhuguðum breytingum verður. Hætt er við að afleiðingarnar verði vestfirsku samfélagi dýrkeyptar og jafnvel óafturkræfar. 

Glöggt dæmi hvernig inngrip stjórnvalda í grunnatvinnuveg Vestfirðinga bitnar beint á störfum landverkafólks og sjómanna, er það neyðarúrræði sem eigendur rækjuvinnslu Kampa á Ísafirði hafa ákveðið að grípa til. En eigendur Kampa hafa ákveðið að segja öllu starfsfólki í rækjuvinnslu upp vegna óvissu um framtíðar rekstargrundvöll verksmiðjunnar.

Megin stoð atvinnulífs á Vestfjörðum byggir á sjávarútvegi. Inngrip stjórnvalda í grunnatvinnuveg okkar Vestfirðinga hafa í gegnum tíðina kippt fótunum undan heilu byggðarlögunum og valdið óbætanlegum skaða í sumum tilfellum. Því miður virðist ekkert lát verða á slíkum gjörningum vestfirskum byggðarlögum til stórfellds skaða."

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.