Á fjölmennum fundi stjórnar og trúnaðarráðs í gærkvöldi var farið yfir niðurstöður kjaramálráðstefnu félagsins og endanlegar kröfur félagsins samþykktar. Einnig var samþykkt að veita landssamböndum sem félagið er aðili að samningsumboð þó með ákveðnum skilyrðum. Á fundinum var einnig samþykkt að veita Fjölskylduhjálp Íslands aðstoð í formi peningagjafar, en nú ríður á að allir þeir sem geta veit aðstoð leggi sitt af mörkum. Þá voru einnig samþykktar tvær ályktanir, önnur varðandi niðurskurð til heilbrigðismála á Vestfjörðum þar er talað um Eyðibyggðastefnu stjórnvalda, hin ályktunin er um aukningu aflaheimilda sem bráðaaðgerð í atvinnumálum. 

Ályktun um niðurskurð í heilbrigðismálum á Vestfjörðum. 

"Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir megnri vanþóknun á þá Eyðibyggðarstefnu sem birtist í niðurskurði til heilbrigðismála á landsbyggðinni. Tillögur ríkisstjórnarinnar lýsa fullkomnu skilningsleysi og vanþekkingu á staðháttum, sérstaklega á Vestfjörðum.  Aðstæður á Vestfjörðum eru með þeim hætti að ekki er hægt að sinna sjúkrahúsþjónustu frá öðrum stöðum á landinu og mun sjúkraflug ekki koma í stað hennar. Ætla má að fyrirhugaður niðurskurður og breytingar á sviði heilbrigðismála á Vestfjörðum muni tefla öryggi og jafnvel lífi fólks í stórhættu.

Fyrirhugaður niðurskurður heilbrigðisstofnana kemur harðast niður á landsbyggðinni. Sum staðar svo mjög að öryggi íbúa stafar beinlínis hætta af þeim sparnaðaraðgerðum sem fjárlagafrumvarpið boðar, það á sannarlega við á Vestfjörðum. Ekki má gleyma heimilunum sem þurfa að taka á sig aukinn kostnað við að leita sér heilbrigðisþjónustu fyrir utan sína heimabyggð, má þar nefna ferðakostnað, uppihald og vinnutap. Íbúar Vestfjarða geti ekki tekið skilaboðum stjórnvalda á annan hátt en að leggja eigi byggð á Vestfjörðum að veði þar sem nauðsynleg heilbrigðisþjónusta verður ekki lengur í boði. Ætla má að samfélagslegar breytingar sem fylgdu í kjölfarið á boðuðum niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni, að ótöldum uppsögnum starfsfólks,  muni valda stórfelldum búferlaflutningum frá Vestfjörðum.

Það er krafa stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Vestfirðinga að stjórnvöld dragi til baka fyrirhugaðar niðurskurðar hugmyndir í  heilbrigðiskerfinu. Horft verði til annarra möguleika við að hagræða í ríkisrekstrinum en höggva of nærri grunnþjónustu og öryggi íbúa á Vestfjörðum, þær eru skerðing á sjálfsögðum mannréttindum."

Ályktun um auknar aflaheimildir

"Á Vestfjörðum er hæsta hlutfall verkafólks við fiskvinnslu og tengd störf samkvæmt tölum frá Hagfræðideild Háskóla Íslands.  Gera má ráð fyrir að veiðar og vinnsla sjávarafurða muni áfram skila Íslendingum hvað mestum verðamætum í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin tekst á við um þessar mundir.  Aukin úthlutun á aflaheimildum er kjörin leið til að auka tekjur byggðarlaga sem byggja afkomu sína að miklu leyti á veiðum og vinnslu sjávarafla.  Tregða stjórnvalda til aukningar aflaheimilda leggst þungt á byggðir Vestfjarða ,  enda sjávarútvegur burðarás í atvinnulífi fjórðungsins.

Stjórnvöld bera fulla ábyrgð á fiskveiðistjórnunarkerfinu og þeim afleiðingum sem það er að valda sjávarbyggðum í landinu.  Ljóst má vera að við óbreytt ástand munu fiskvinnslur í auknum mæli grípa til lokana í enn lengri tíma en áður hefur tíðkast. Það mun leiða til enn frekara óöryggis hjá fiskverkafólki og sjómönnum, fólkinu sem um þessar mundir skapa þjóðarbúinu hvað mest verðmæti.

Stjórnvöldum ber skylda til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist. Ein af leiðunum til þess að svo verði ekki er að auka aflaheimildir og hvetja til fullvinnslu sjávarafla.

Hægt er að auka aflaheimildir í mörgum tegundum, án þess að gengið sé á fiskistofna, til dæmis með breytingu á aflareglu. Slík ráðstöfun myndi hafa gríðarlega jákvæð efnahagsleg áhrif ásamt því að efla atvinnu í byggðum landsins. Þannig mætti skjóta traustari fótum undir atvinnu og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með skjótum hætti.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga tekur undir með sveitastjórnum á vestfjörðum og  skorar á Alþingismenn að ganga fram af festu og auka aflaheimildir nú þegar. "

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.