Ari Sigurjónsson formaður kjörnefnda fer yfir tillögur kjörnefndar
Ari Sigurjónsson formaður kjörnefnda fer yfir tillögur kjörnefndar
1 af 5

Á fundinum sköpuðust góðar umræður um stöðu þeirra viðræðna sem hafa átt sér stað milli samningamann launþega við samtök atvinnulífsins um framlengingu kjarasamninga á almennu markaði. Ljóst var á fundarmönnum að engin ástæða væri til þess að gefa meira eftir en orðið væri í þeim efnum. Launþegar hefðu þegar tekið á sig kjaraskerðingu í formi kaupmáttar skerðingar svo ekki væri talað um hátt vaxta- og verðbólgustig.


Meira


Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 17. september 2008 tekur undir áskorun 53. Fjórðungsþings Vestfirðinga um auknar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í aflaheimildum í þorski. En þegar kemur fram á núverandi fiskveiðiár þá munu afleiðingar skerðingarinnar leggjast af fullum þunga á veiðar og vinnslu sjávarafurða sem gætu haft varanleg áhrif á atvinnumöguleika íbúa sveitarfélöga á Vestfjörðum.

 

Fundurinn tekur einnig undir stefnumótun 53. Fjórðungsþings í samgöngumálum, sérstaklega um nauðsyn þess að með tengingu norðan- og sunnanverðra Vestfjarða muni Ísafjarðarbær standa undir nafni sem byggðarkjarni Vestfjarða. Fyrir íbúa, stofnanir og fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum er brýn nauðsyn að leiðin Ísafjörður - Reykjavík í gegnum Barðastrandasýslu verði heilsársvegur. Þessi vegur yrði að mestu láglendisvegur sem jafnframt tryggði öruggari hringtengingu sveitarfélaga á Vestfjörðum.

 

Þá fagnar fundurinn hugmyndum starfshóps viðskiptaráðherra um niðurgreiðslu á flutningskostnaði framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni. Sá flutningskostnaður  sem framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni þurfa að búa við skekkir mjög samkeppnishæfni þeirra við framleiðslufyrirtæki á suðvesturhorninu. Verði hugmyndir starfshópsins að veruleika styðja þær við frekari atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sem og að treysta atvinnuöryggi íbúa landsbyggðarinnar.


Frá aðalfundi 2008
Frá aðalfundi 2008

Ályktun.

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga beinir þeim orðum til Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingarmálaráðherra, að hún standi sérstakan vörð um almenn útlán Íbúðalánasjóðs þannig að sjóðurinn verði áfram eitt heildstætt lánakerfi fyrir alla landsmenn."

 

Greinagerð.

Ekki er ljóst hvaða tilgangi það á að þjóna hjá ríkisstjórninni að boða óljósar og ótímasettar breytingar á Íbúðalanasjóði eins og staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er um þessar mundir.  Öll óvissa í þeim efnum er einungis fallin til að skapa ótta og villa um fyrir íbúðarkaupendum, sem mega eiga von á hækkun vaxta almennra íbúðalána komi til afnám ríkisábyrgðar á almenn útlán sjóðsins. 

 

Íbúðalánsjóður hefur staðið af sér fyrri atlögur banka og sparisjóða, sem geystust inn á íbúðalánamarkaðinn með gylliboðum um endurfjármögnun og hærra lánshlutfall til íbúðakaupenda. Þeir íbúðakaupendur sem tóku lán hjá bönkum og sparisjóðum standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd að vextir lánanna verði hækkaðir umtalsvert.  Sú aðför að skipulagi og útlánum íbúðalánasjóðs sem nú er verið að gera kemur til með að bitna harðast á íbúðakaupendum á landbyggðinni.

 

 

Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Ísafirði 24. maí 2008


föstudagurinn 4. apríl 2008

Kjararýrnun launþega staðreynd

Þarf að segja eitthvað meira ?
Þarf að segja eitthvað meira ?

Heimilin í landinu hafa ekki farið varhluta af þeim hækkunum sem dynja yfir á degi hverjum. Svo virðist sem reynt sé að vekja upp gamalkunnan draug sem hefur legið hefur í dvala undanfarin ár.  Ekki verður við það unað að sú kjararýnun sem nú er orðin staðreynd skuli bitna á þeim sem sýst geta brugðist við þeim. Það er áríðandi að stéttarfélög í landinu taki saman höndum og verji kjör félaga sinna og um leið kjör heimila á Íslandi.  Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hélt stjórnarfund í gær þar sem ástand efnahagsmála var mjög til umræðu. Í framhaldi af því sendi stjórnin frá sér eftirfarandi ályktun.
 

"Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga gagnrýnir harðlega þá bylgju hækkana sem launþegar hafa þurft að taka á sig að undanförnu. Spyrna þarf við ört hækkandi eldsneytis- og matarverði ásamt  þeim gríðarlegu hækkunum á öðrum nauðsynjum sem dynja á landsmönnum. Það er með öllu óásættanlegt að fyrsti kostur skuli vera að hækka vöruverð og þjónustu til neytenda, mættu aðrir taka þá til fyrirmyndar sem ekki bregða á þessi óyndisráð. Þá eru þau vinnubrögð birgja og heildsala að lauma breytingum á vaxta- og gengismun inn í boðaða hækkun vöruverðs fordæmd harkalega. Ef fram fer sem horfir þá verður verðbólguhraðinn næstu misseri orðinn slíkur að ekki verður við ráðið, og nýumsamdar kjarabætur launþega hverfa með öllu ef ekki verður brugðist strax við vandanum. 

 

Launþegar gerðu miklar væntingar vegna þeirra kjarabóta sem nýjum kjarasamningi var ætlað að færa þeim. Þær kjarabætur skerðast meir og meir með hverjum deginum sem líður, við óbreytt ástand verður ekki unað. Samstaða launþega, með verkalýðshreyfinguna í fararbroddi, gerir þá skýlausu kröfu að endurskoðun vegna framlengingar kjarasamninga hefjist strax. Reynt verði að vinna að haldbærum langtímalausnum á þeim vanda sem steðjar að launþegum, atvinnurekendum og íslensku efnahagslífi. Þar verða allir að leggjast á eitt um að sá árangur náist að verðbólgu og vöxtum verði komið í viðunandi horf  þannig að umsamdar kjarabætur skili sér til heimilanna í landinu."


Oddi Patreksfirði
Oddi Patreksfirði

Í kjölfar þeirrar umræðu og þess atvinnuóöryggis sem hefur verið að skapast hjá fiskverkafólki og sjómönnum vegna þrenginga í atvinnugreinum þeirra, sér stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga sér ekki annað fært en senda frá sér eftirfarandi stjónarsamþykkt.

" Það skýtur skökku við, þegar lokanir og uppsagnir fiskverkafólks vegna niðurskurðar á þorkskkvóta dynja yfir, þá skuli útfluttningur á óunnum sjávarafurðum aukast. Fyrstu fjóra mánuði nýs kvótaárs jókst útfluttningur á óunninni ýsu um 32% borið saman við sama tíma 2006. Þá hefur útfluttningur á óunnum þorski aukist um 13% fyrir sama tímabil. Þetta er í hrópandi ósamræmi við það að boðaðar lokanir og uppsagnir séu vegna niðurskurðar kvóta og hráefnisskorts.

Það er skýlaus krafa að stjórnvöld beiti sér fyrir breytingum á útfluttningsreglum óunninns sjáfarafla. Algjört afnám kvótaálags ofan í boðaðann niðurskurð á þorskkvóta var mikið ógæfuspor sem þarf að leiðrétta.

Stjórnvöld bera fulla ábyrgð á fiskveiðistjórnunarkerfinu og þeim afleiðingum sem það er að valda sjávarbyggðum í landinu. Vegna þessa ber stjórnvöldum skylda til að bregðast strax við með skjótvirkum aðgerðum sem stuðla að auknu atvinnuöryggi hjá sjómönnum og fiskverkafólki á Íslandi"

Samþykkt samhljóða á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Vestfirðinga

mánudaginn 3. mars 2008.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.