Munu standa vörð um sjómannaafsláttinn

Það er með öllu ótækt að í hvert sinn sem fjallað er um breytingar á skattkerfinu þá skuli eiga að höggva í sjómannaafsláttinn í leiðinni. Sjómannaafsláttur er hluti af tekjum sjómanna, lækkun eða skerðing er bein aðför að kjörum ákveðinnar starfsstéttar á Íslandi. Sjómenn eru sagðir hálaunastétt og beri að leggja sitt til samfélagsins í sama hlutfalli og aðrir skattborgarar. Sjómenn leggja sitt til samfélagsins og rúmlega það, allt tal um að sjómenn borgi ekki sinn skerf til samfélagsins er móðgun við sjómannsstéttina.