Ríkið flytur kostnað á milli vasa
Ákveðið hefur verið að segja upp öllu starfsfólki á hjúkrunardeildinni Sólborg á Flateyri og leggja störf þess niður. Með þessum hætti á að vera hægt að ná fram auknum sparnaði í rekstri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, en rekstrareiningin á Sólborg þykir mjög óhentug og barn síns tíma. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni verður ekki hægt að bjóða starfsfólkinu sem missir vinnuna önnur störf hjá stofnuninni, en ef um nýráðningar verði að ræða hjá stofnuninni þá verði vissulega horft til þessara einstaklinga. Þarna munu því sjö einstaklingar missa vinnuna og bætast í stækkandi hóp atvinnuleitenda á Vestfjörðum.