SGS lýsir vonbrigðum með afstöðu LÍÚ

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins lýsir vonbrigðum yfir fjarveru LÍÚ og Samtaka Fiskvinnslustöðva úr Ráðgjafanefnd sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnunarkerfið. „Það er ekki vænleg leið til farsællar niðurstöðu og sátta að stunda hótanir og ofríki í stað málefnalegrar umræðu og þá sérstaklega ekki þegar horft er til þeirra sérhagsmuna sem útvegsmenn eru að vernda,“ segir í ályktun framkvæmdastjórnar SGS frá 16. mars s.l. „Taka verður mið af byggðarsjónarmiðum við löndun og vinnslu sjávarfangs, þannig að útvegsmenn séu ekki einráðir um löndun hráefnis til fiskvinnslustöðva eða sölu á erlenda markaði,“ segir ennfremur í ályktun sem framkvæmdarstjórn SGS samþykkti að senda frá sér að loknum umræðum um þessi málefni
„Krefjumst aðgerða gegn atvinnuleysinu“ – ályktun SGS

Á fundi Starfsgreinasambands Íslands voru til umfjöllunar meðal annarra mála þau fjárfestingarverkefni sem ríkisstjórnin hafði lofað við gerð stöðugleikasáttmálans. Þetta eru fjárfestingaverkefni upp á 280 – 380 milljarða króna á ári næstu 3 árin sem gætu skilað um 26 þúsund ársverkum á næstu árum, framkvæmdir sem mundu hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þeirra á legg. Þessar framkvæmdir myndu því slá á gríðarlegt atvinnuleysi sem er og fer vaxandi.