Skertar atvinnuleysisbætur vegna séreignargreiðslna

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hvetur þá félagsmenn sem eru 60 ára eða eldri og hafa verið að fá atvinnuleysisbætur ásamt því að fá greiddan séreignarlífeyrissparnað til að kanna hvort bætur þeirra hafi verið skertar vegna þessa. En breytingar voru gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 70/2010, sem tóku gildi í júní sl. Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysis-tryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði.