Samkomulag um vinnustaðaskírteini taka gildi

Þann 15. ágúst sl. tók gildi samkomulag ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Öllum atvinnurekendum í hlutaðeigandi greinum ber að sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Nánar um gildissvið og afmörkun starfa má finna í samkomulaginu sjálfu. Síðar er gert ráð fyrir að aðrar atvinnugreinar fylgi í kjölfarið. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa því, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa. Með atvinnurekanda er einnig átt við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Markmið vinnustaðaskírteina og eftirlits á vinnustöðum er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. og þannig verði komið í veg fyrir ólöglega háttsemi fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði.