Fjöldauppsagnir á Vestfjörðum
Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi og jarðverktakafyrirtækið Ósafl tilkynntu á starfsmannafundum í hádeginu í dag að öllu starfsfólki fyrirtækjanna yrði sagt upp störfum frá og með 1.nóvember næst komandi. Alls eru þetta rúmlega 60 einstaklingar sem munu missa vinnuna með þessum neyðarúrræðum fyrirtækjanna sem hópuppsagnir eru. Starfsmenn Ósafls hafa haldið í vonina að eftir að framkvæmdum við jarðgöng milli Hnífsdals og Bolungavíkur lauk að þá yrði settur kraftur í framkvæmdir við snjóflóðagarð í Bolungavík sem einnig hefur verið unnið af Ósafli. Hjá Eyrarodda hefur verið róinn lífróður við að halda fyrirtækinu gangandi frá því um síðustu áramót. Hefur verið farið í ýmsar hagræðingaraðgerðir sem hafa bitnað á starfsfólki í formi uppsagna, en frá áramótum hefur starfsfólki í fiskvinnslu fækkað úr 45 í 28, en hjá fyrirtækinu störfuðu rúmlega 40 einstaklingar við veiðar og vinnslu.