Ber okkur gæfu til að standa saman ?
Hvernig heldur þú að komandi kjarasamningar komi til með að ganga? Þessari spurningu er ég spurður að nánast hvern einasta dag og á öllum mannamótum sem ég fer á. Ég svara því til að þetta verði ekki einfaldir samningar og að eitt sé víst ef launafólk í landinu ætlar ekki að ganga í takt þá verði fjandinn laus. Ég fékk góða hvatningu frá félagsmanni á dögunum sem sagði að nú yrði launafólk að sýna hvað alvöru samstaða er og hverju þessi samstaða geti skilað launafólki þegar upp er staðið. Þetta eru orð að sönnu því alvöru samstaða launafólks hefur skilað samfélaginu stærstu sigrunum, en við lifum ekki um alla tíð á sigrum í gömlum orrustum.