Útför Ingbjargar R. Guðmundsdóttur fer fram í dag
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og fyrrverandi varaforseti Alþýðusambands Íslands, lést miðvikudaginn 24. nóvember á Landspítalanum við Hringbraut, 61 árs að aldri. Ingibjörg fæddist í Reykjavík 19. ágúst 1949, dóttir hjónanna Guðmundar Jónssonar frá Eyrarbakka og Helgu Sigríðar Eiríksdóttur frá Reykjavík. Systir Ingibjargar var María, f. 1943 en hún lést 1980. Ingibjörg lætur eftir sig kjörsynina Bjarna Jónsson og Andrés Jón Esrason.
Ingibjörg starfaði lengst af hjá Flugleiðum og fyrir verkalýðshreyfinguna í rúmlega 30 ár. Hún sat í stjórn VR í alls 14 ár frá árinu 1975, þá aðeins 26 ára gömul. Hún var kosin formaður LÍV á þingi sambandsins árið 1989 og er eina konan sem gegnt hefur embætti formanns landssambands innan ASÍ.