Hlúum að því sem fyrir er !
Mikið hefur verið rætt um hvernig eigi að bjarga atvinnulífinu á Flateyri. Kastað hefur verið fram í umræðuna upphrópunum um að margir hafi sýnt því áhuga að hefja vinnslu á nýjan leik. Við þessar aðstæður er þetta ekki það sem fólk sem hefur misst atvinnuna þarf að heyra. Fólkið vill staðreyndir og raunveruleika, hvað blasir við og hvernig það geti framfleytt sér og sínum við breyttar aðstæður. Þetta kom fram á fundi sem haldinn var með fyrrverandi starfsmönnum Eyrarodda hf. í Félagsbæ á Flateyri í gær. Fjárhagsleg aðstoð Verkalýðsfélags Vestfirðinga hrekkur skammt og atvinnuleysis-bætur koma ekki fyrr en í byrjun mars. Nei þetta dugir ekki til, hér þurfa að koma til bráðaaðgerðir, aðgerðir sem felast í því að hlúa að því sem fyrir er, bæði mannlífi og atvinnulífi.