Samtök atvinnulífsins klúðra eigin hugmyndafræði !

Fyrsti fundur samninganefndar Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, eftir að kjaradeilunni var vísað til Ríkissáttasemjara þann 16. þ.m., var haldinn hjá sáttasemjara í morgun.

Ljóst er að mikið ber í milli samningsaðila. Samtök atvinnulífsins lýstu þeirri kröfu sinni að ekki yrði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið væri fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þessi krafa SA var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust þann 7. janúar. Þá óskaði SA eftir því við Starfsgreinasambandið að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum svaraði samninganefnd SGS á jákvæðum nótum og því kemur það verulega á óvart að SA geri nú kröfu um að blanda málefnum sjávarútvegsins inn í kjaraviðræðurnar þegar viðræðurnar virtust vera að falla í farveg. Krafa SA núna verður ekki túlkuð öðruvísi en svo að Samtök atvinnulífsins hafni sinni eigin hugmyndafræði.