Nokkrar staðreyndir vegna umfjöllunar um endurskoðun á fjárreiðum Starfsgreinasambands Íslands og starfsloka framkvæmdastjóra

Á framkvæmdastjórnarfundi þriðjudaginn 10. maí 2011 var lögð fram frá óháðum endurskoðanda sem fenginn var til verksins (Deloitte) „Skýrsla um könnun á bókhaldi Starfsgreinasambands Íslands 2010″ og „Minnisblað“ frá óháðum lögmanni, Páli Arnóri Pálssyni hrl.
Í skýrslu Deloitte eru meðal annars gerðar athugasemdir við óútskýrðan erlendan ferðakostnað sem stofnað var til af Skúla Thoroddsen framkvæmdastjóra SGS á árinu 2010. Þar koma fram ófullnægjandi skýringar á gjaldfærðum kostnaði að upphæð samtals kr. 779.285. Þess skal getið að í skýrslu Deloitte kemur fram að dagpeningagreiðslur til framkvæmdastjóra erlendis fyrir árið 2010 námu kr. 1.064.364 þrátt fyrir að kostnaður vegna ferðanna væri þar til viðbótar í mörgum tilfellum einnig greiddur.
Einnig bendir Deloitte á að ökutækjastyrkur framkvæmdastjóra innanlands nam samtals kr. 1.570.791 fyrir árið 2010. Þess ber að geta að framkvæmdastjóri fær að auki fastan bílastyrk kr.62.400 á mánuði á núvirði ( 600 km X 104 ) eða kr. 748.000 á ársgrundvelli. Í skýrslunni er vakin athygli á að framkvæmdastjóri miðar aksturs greiðslur ávallt við heimili sitt þrátt fyrir að ráðningastaður sé í Reykjavík og hann fái fastan bílastyrk miðað við það eins og áður hefur komið fram. Bílastyrkur til framkvæmdastjóra fyrir árið 2010 nam því um 2,3 miljónum króna.