Sumarsólstöðuferð Verk Vest 21. júní 2014
Verkalýðsfélag Vestfirðinga stóð fyrir dagsferð á sumarsólstöðum og var ferðinn heitið í Reykhólasveitina að þessu sinni. Góður hópur eldri og yngri félagsmanna lagði af stað frá Ísafirði kl.09.00 laugardagsmorguninn 21. júní vel nestaður fyrir daginn enda venjan í þessum ferðum að félagið bjóði upp á kaffibrauð og annað góðgæti. Fyrsta stopp var í Reykjanesinu þar sem fólk létti á sér og bætti á sig ís, en í Reykjanesinu bættist enn í hópinn. Næsta áning var í Arnkötludal við minnisvarða frá árinu 2009 um þann merka áfanga að þá var loksins hægt að aka á bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur. Var ákveðið að taka nestisstopp enda komið fram undir hádegi. Þarna hittum við leiðsögumann dagsins Björn Samúelsson frá Reykhólum. Björn er mjög fróður um sögu sveitarinnar enda fæddur og uppalinn í Reykhólasveitinni, nánar tiltekið á Höllustöðum.