Láttu ekki plata þig! Prufudagar án launa ólöglegir

Því miður er nokkuð algengt að starfsfólk á félagssvæði Verk Vest sem ráðið er til starfa í ferðaþjónustu og á veitingastöðum sé boðin vinna á „Jafnaðarkaupi“. Jafnaðarkaup er ekki til samkvæmt kjarasamningum og því óheimilt að semja um slíkt við starfsfólk. Ekkert virðist skorta á hugmyndarflug hvað er sett inn í jafnaðarkaupið. Hafa sumir ferðaþjónustuaðilar gengið svo langt að reikna fæði, húsnæði og önnur hlunnindi eða jafnvel orlof starfsmanna inn í jafnaðarkaupið. Í sumum tilfellum er haft í hótunum við starfsfólk ef það hyggst leita aðstoðar stéttarfélags. Algengasta hótunin er uppsögn eða að haldið verði eftir af launum ef starfsfólk sættir sig ekki við þau kjör sem að þeim er rétt. Því miður er algengt að áhersla sé lögð á að halda stéttarfélagi utan við launamál og aðbúnað starfsmanna þegar kemur að ráðnigu. Því miður koma alltof mörg svona mál inn á borð hjá stéttarfélögum á hverju sumri og fer starfsfólk Verk Vest ekki varhluta af því.