Starfsendurhæfing Vestfjarða tók til starfa 1. janúar síðastliðinn og er starfsemin til húsa í Vestrahúsinu, Árnagötu 2 – 4 á Ísafirði. Starfsendurhæfing Vestfjarða er sjálfseignarstofnun og hefur það að markmiði að veita einstaklingum á Vestfjörðum endurhæfingu til atvinnuþátttöku í heimabyggð og auka þannig lífsgæði þeirra og fjölskyldna þeirra.
Markhópur starfsendurhæfingar eru einstaklingar með örorku eða endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, eða einstaklinga sem njóta bóta frá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun eða sveitarfélögum.
Í endurhæfingunni verður lögð áhersla á einstaklingsbundin úrræði sem miðast að því, að efla fólk til sjálfshjálpar eftir þörfum hvers og eins, meðal annars með menntun og fræðslu, fjármálaráðgjöf, sálfræðistuðningi, líkamsþjálfun o.fl. Þjónustan mun einnig fela í sér að undirbúa einstaklinginn fyrir vinnu, greina atvinnutækifæri hans, aðstoða hann við atvinnuleit og gerð atvinnuumsókna og tímabundinn stuðning á vinnustað ef með þarf.
Starfsendurhæfing Vestfjarða var stofnuð í september 2008 af 21 stofnaðila. Innan þess hóps eru öll sveitafélög á Vestfjörðum, heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, lífeyrissjóður, starfsgreinafélög og fleiri stofnanir.
Forstöðumaður stofnunarinnar er Harpa Lind Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi.
Byrjað er að taka við umsóknum um þátttöku í verkefninu og stefnt er að því að endurhæfing fyrsta hópsins fari af stað í byrjun mars. Forstöðumaður Starfsendurhæfingar Vestfjarða svarar fyrirspurnum og tekur á móti umsóknum þátttakenda um starfsendurhæfingu á skrifstofu stofnunarinnar að Árnagötu 2 – 4 á Ísafirði, í síma 450 3070 eða á harpa@sev.is