Saga félagsins

Verkalýðsfélag Vestfirðinga – Verk-Vest tók til starfa 1. janúar 2002 með sameiningu 6 verkalýðsfélaga á Vestfjörðum. Þau voru: Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga í Súðavík, Verkalýðsfélag Hólmavíkur, Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri, Verkalýðsfélagið Brynja á Þingeyri og Verkalýðsfélagið Vörn á Bíldudal.

Formlegur stofnfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu á Ísafirði 21. sept. 2002 og höfðu þá 3 félög til viðbótar slegist í hópinn, Verkalýðsfélag Patreksfjarðar, Sveinafélag byggingamanna á Ísafirði og Verslunarmannafélag Ísafjarðar. Á árinu 2003 bættust enn við 3 félög, Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps á Drangsnesi og Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir á Reykhólum. Þann 1. jan 2004 gekk svo Verkalýðs- og sjómannafélgið Súgandi á Suðureyri til liðs við Verk-Vest. Sjómannafélag Ísfirðinga sameinaðist svo Verk-Vest 1. janúar 2005. Starfssvæði félagsins nær þannig til allra Vestfjarða að Bolungarvík og Hrútafirði undanskildum. Í Bolungarvík eru þó verslunar- og skrifstofumenn í Verk-Vest.

Smellið á hvern kafla fyrir sig til að sjá meira.

Síldarsöltun á Ísafirði, Edinborgarbryggja í bakgrunni.

Verkfall Baldurs á Ísafirði í febrúar 1926 er talið það mikilvægasta á upphafsárum félagsins. Finnur Jónsson formaður Baldurs árin 1921-1932, alþingismaður og síðar ráðherra, skrifaði um það: „Enn stóðu þó stærstu atvinurekendurnir, með bankaútibúin að bakhjalli, í hatramlegri andstöðu við fólkið og hugðust að kúga það undir sig. Hörðustu átökin urðu vorið 1926. Þá buðu atvinnurekendur verkafólkinu slík smánarboð, að alþýðan þoldi þetta ekki lengur, heldur fylkti liði í Baldri og braut vald þeirra á bak aftur.“ 

Aðdragandinn var sá að haustið 1925 lækkuðu atvinnurekendur á Ísafirði laun verkamanna úr 1,30 kr. á tímann um 20 aura. Fremstir í flokki atvinnurekenda voru Jóhann Þorsteinsson kaupmaður, Hinar Sameinuðu íslensku verslanir og verslunarstjóri þeirra Sigfús Daníelsson og Jóhann J. Eyfirðingur kaupmaður. Verkalýðsfélagið hafði enga samninga við atvinnurekendur og treysti sér ekki til að halda uppi kaupinu. Um allt land kröfðust atvinnurekendur launalækkunar vegna gengishækkunar íslensku krónunnar árið 1925, en verkalýðsfélögin hömluðu á móti, með misjöfnum árangri.  Í byrjun febrúar 1926 tilkynntu atvinnurekendur á Ísafirði um enn frekari launalækkun. Kaup karla yrði 1,00 kr. á tímann en kvenna 60 aurar í stað 80 aura. Þá var verkafólki nóg boðið.

Félagsfundur í Baldri ákvað að skipa nefnd til að ná samningum við atvinnurekendur og sætta sig ekki við launalækkunina.  Flutningaskipið Mjölnir kom til bæjarins 7. febrúar að taka saltfisk. Var þá tækifæri notað til að þrýsta á atvinnurekendur. Þegar útskipun var hafin, lýsti verkalýðsfélagið yfir verkfalli, nema atvinnurekendur hétu því að koma til samingaviðræðna. Fengu atvinnurekendur frest til hádegis daginn eftir, til að svara kröfunni.  Næsta dag auglýsti Jóhann Eyfirðingur að hann greiddi 1,oo krónu fyrir vinnu við útskipun, en umboðsmaður hans í Reykjavík, Ólafur Benjamínsson fiskkaupmaður, myndi greiða 20 aura álag fyrir útskipun við Mjölni. Samninganefnd Baldurs taldi þetta tilboð ekki aðgengilegt og verkfallið hélt áfram. 

Í kjölfarið kom til átaka við Edinborgarbryggjuna á Ísafirði þann 9. febrúar 1926. Atvinnurekendur fengu nokkra verkamenn til að mæta til vinnu, en félagar í Baldri fjölmenntu á bryggjuna og komu í veg fyrir að útskipun færi fram. Var bæjarfógetinn, Oddur Gíslason kvaddur á staðinn til að „gæta laga og réttar“.  Skutull, málgagn jafnaðarmanna sem séra Guðmundur frá Gufudal ritstýrði, sagði svo frá atburðunum: „Fógeti var á vettvang kominn og hafði fengið sér varaskeifu eður viðauka við lögregluliðið. Var viðauki sá Norðmaður einn, sem hér hefur verið, O. G. Syre, talinn skrambans vel að manni, lifrarbraskari og m.m.  Skarst hann í leikinn og lenti af því saman við verkamann einn. Gekk sá svo fast að þeim norska, að hann fór undan á hæli uns leikurinn barst að lifrartunnum fullum. Verkamaðurinn drap Syre þar niður á milli eins og smjöri í öskju. Er þá sagt að fógeta yrði að orði: „Ætli hann hafi meitt manninn?“ En það var ekki hætt við því. Austmaðurinn skreið strax upp aftur og hélt heimleiðis óhaltur og yfirlætislaus, eins og hann er vanur.“ 

Sagan af átkökum Sigurðar Bjarnasonar og Norðmannsins hefur lifað í munnmælum á Ísafirði æ síðan. Sagan fær staðfestingu í því að Verkalýðsfélagið Baldur hefur látið gera heiðurspening og afhent Sigurði „Syrafelli“ í kjölfar atburðanna. 

Af verkfallinu var það að frétta að flutningaskipið Mjölnir hélt í burtu eftir slaginn á Edinborgarbryggjunni, án þess að taka meiri saltfisk í það skiptið. Félagsfundur í Baldri samþykkti að halda verkfalli áfram hjá þeim fyrirtækjum sem lækkað höfðu launin og á fundinum skráðu meir en 50 nýir meðlimir sig í félagið. 

Verkfallið stóð í tvær vikur enn þar til atvinnurekendur samþykktu skriflegan samning við Verkalýðsfélagið Baldur. Launin hækkuðu aftur um 10-35 aura, svo kauplækkunin náðist að hluta til baka. Kaup karla varð 1,10 kr. og kvenna 0,70 kr., en 5 aura álag kom á vinnu við upp- og útskipun. Það sem meira var um vert, var að í fyrsta sinn fékk Baldur viðurkenningu á samningsrétti sínum með undirrituðum skriflegum samningum og forgangsréttur meðlima félagsins til vinnu var bundinn í samninginn. Á þeim tíma höfðu aðeins fá verkalýðsfélög náð þeim áfanga hér á landi. Samningsréttur Baldurs var viðurkenndur eftir þetta.

Ísafjörður um 1950. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Fyrsti formaður þess var Jón Páll Halldórsson skrifstofumaður. Félagið gekk þegar í Landssamband íslenskra verslunarmanna, en formaður þess Sverrir Hermannsson vann að undirbúningi og flutti ávarp á stofnfundi félagsins. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands með Landssambandi íslenskra verslunarmanna árið 1964. Verslunarmannafélagið gerðist aðili að Alþýðusambandi Vestfjarða árið 1977, en þá hafði málið verið til umræðu í félaginu um nokkur ár.

Á aðalfundi í september 1975 var samþykkt stækkun á félagssvæði V.Í. þannig að það næði auk Ísafjarðarkaupstaðar yfir Ísafjarðarsýslur báðar að Bolungarvík undanskilinni, þar sem starfaði sérstakt félag. Verslunarmannafélag Bolungarvíkur sameinaðist félaginu í júní 1995.

Verslunarmannafélagið eignaðist árið 1990 sumarbústað við Húsafell í Borgarfirði. Bústaðurinn var seldur árið 1999, en í staðinn keypt orlofshús í Ölfusborgum. Félagið eignaðist einnig íbúð við Ásholt í Reykjavík árið 1993.

Verslunarmannafélagið átti um tíma aðild að sameiginlegri skrifstofu verkalýðsfélaganna á Ísafirði, en opnaði eigin skrifstofu árið 1991 í Hafnarstræði 14 og réð til hennar starfsmann. Félagið flutti starfsemi sína í hús Vestra hf. (Ísfirðingshúsið) árið 1997 og árið eftir hóf Freygerður Ólafsdóttir störf á skrifstofu félagsins.

Verslunarmenn samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu að félag þeirra tæki þátt í stofnun Verkalýðsfélags Vestfirðinga haustið 2002 og mynduðu sérstaka deild í félaginu.

Samkvæmt gögnum félagsins hafa formenn þess verið:

  • Jón Páll Halldórsson 1957-1960
  • Haukur Ingason 1960-1961
  • Gunnar Jónsson 1962-1964
  • Garðar Einarsson 1964-1973
  • Geir A. Guðsteinsson 1973-1977
  • Eiríkur Sigurðsson 1977-1978
  • Friðrik Adolfsson 1978-1980
  • Anna M. Helgadóttir 1980-1981
  • Elín Tryggvadóttir 1981-1986
  • Salmar Jóhannsson 1986-1992
  • Gylfi Guðmundsson 1992-1998
  • Finnur Magnússon 1999-2002


Eldri félög verslunarmanna

 

Áður höfðu starfað tvö félög verslunarmanna á Ísafirði. Fyrsta félagið var stofnað 8. febrúar 1905 og nefndist Verzlunarmannafjelag Ísafjarðarkaupstaðar og sýslna. Það var sameiginlegt félag kaupmanna, verslunarstjóra og starfsmanna verslana í bænum. Félagið hélt hátíðlegan frídag verslunarmanna á Ísafirði í fyrst sinn í júlí 1905 með skemmtiferð inn í Tunguskóg. Starfsemi félagsins lagðist af eftir nokkur ár, þó það væri við lýði að nafninu til fram undir 1920.

Ísafjörður um 1950. Ljósm. M.Simson/Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Annað félag var stofnað 14. maí 1937 undir merkjum Alþýðusambands Íslands. Það hét Verslunarmannafélagið, Ísafirði og starfaði til ársins 1943. Gögn félagsins eru varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði. Félagið var hreint launþegafélag og náði samningum við verslunareigendur, bakarí og bæjarstofnanir á Ísafirði. Fyrsti formaður Verslunarmannafélagsins var Gunnar Andrew, en seinni árin Sigurjón Sigurbjörnsson. Stór hluti félagsmanna starfaði hjá Kaupfélagi Ísfirðinga. Þegar starfsfólk Kaupfélagsins ákvað að stofna sérstakt starfsmannafélag og semja beint við atvinnurekanda sinn, lagðist verslunarmannafélagið niður. Merki þess var endurreist árið 1957, eins og fram kemur efst á þessari síðu.

Heimild

  • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 26. Verslunarmannafélag Ísafjarðar.
 

BíldudalurVerkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal var stofnað 11. júní 1931. Fyrsti formaður félagsins var Jón Magnússon á Jaðri. Með honum í stjórn voru Ingimar Júlíusson, Ebeneser Ebenesersson, Viktoría Bjarnadóttir og Jónína Ólafsdóttir. Viktoría átti hugmyndina að nafni félagsins. Undirbúningur félagsins hafði farið fram í barnaskólanum en stofnfundurinn var haldinn í Baldurshaga. Stofnfélagar voru um 70.

Til stofnfundarins boðuðu Páll Þorbjarnarson, síðar alþingismaður og Árni Ágústsson, þá blaðamaður á Alþýðublaðinu og frambjóðandi Alþýðuflokksins í Barðastrandarsýslu við Alþingiskosningarnar 12. júní sama ár. Páll ávarpaði fundinn, en Árni var fjarverandi. Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn voru skiplagsleg heild á þessum tíma og gekk Vörn í Alþýðusamband Íslands þann 17. júní 1931.

Bíldudalur hafði risið sem blómlegt þorp um aldamótin 1900 þegar Pétur J. Thorsteinsson hóf þar mikil umsvif með þilskipaútgerð og saltfiskvinnslu ásamt fjölbreyttri verslun og þjónustu og framkvæmdum við bryggjur og hús. Meðal annars gaf hann út blaðið Arnfirðing árið 1901-2 og fékk Þorstein Erlingsson skáld til að ritstýra blaðinu. Íbúar á Bíldudal voru þá um 300. Eftir að Pétur flutti til Kaupmannahafnar og eignir hans gengu inn í hlutafélag sem nefndist Milljónafélagið gerðu verkamenn á Bíldudal tilraun til stofnunar verkalýðsfélags. Félagið nefndist Skjaldborg og var stofnað árið 1908. Formaður félagsins var Guðjón Guðmundsson, ritari Júlíus Nikulásson og gjaldkeri Finnur Jónsson. Félagið setti fram kröfu um 10 stunda vinnudag og 30 aura kaup á tímann, en þá hafði tíðkast að borga 20 aura á tímann og jafnvel lægra á veturna. Konur skyldu fá 18 aura á tímann í stað 10-12 aura. Gekk þetta eftir sumarið 1908, enda mikil vinna við fiskvinnslu og skipavinnu þar sem einn togara Milljónafélagsins var látinn landa á Bíldudal. Þegar kom fram á veturinn tók atvinnurekandinn að sniðganga félagsmenn og samþykktir þess og næsta sumar var lítil vinna í þorpinu og launin lækkuðu. Lagðist félagið þá niður og var merki þess ekki tekið aftur upp fyrr en 1934.

Verkalýðsfélagið Vörn setti þegar fram samningskröfur, meðal annars um reglulega útborgun launa í peningum og forgang félagsmanna til vinnu í hreppnum. Tímakaupið var 85 aurar hjá körlum en 55 aurar hjá konum. Þegar atvinnurekandinn í plássinu vildi ekki samþykkja þetta var boðað verkfall, en þá var látið eftir, og samningur undirritaður. Sagt var að skeytið um inngöngu Varnar í Alþýðusambandið þann 17. júní 1934 hafi ráðið þar miklu.

Verkalýðsfélagið Vörn var skjöldur og hlíf verkafólks á Bíldudal gegnum breytingar í atvinnu- og félagsmálum Arnfirðinga á 20. öld. Félagið átti í sínum hópi skelegga forystumenn, svo sem Ingivald Nikulásson og Ingimar Júlíusson bróðurson hans, sem skrifuðu merkar ritgerðir um félagsskap verkafólks á Bíldudal. Verkalýðsfélagið Vörn var eitt af þeim félögum sem stofnuðu Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2002.

Formenn félagsins hafa verið:

Jón Magnússon á Jaðri
Ingivaldur Nikulásson
Ebeneser Ebenesersson
Guðmundur Arason
Gunnar Kristjánsson
Ingimar Júlíusson
Júlíus Jónasson
Gunnar Valdimarsson

Halldór Jónsson
Jón Björnsson
Helga Jóhannesdóttir
Andrés Garðarsson
Margrét Hjartardóttir
Jón Þór Sigurðsson
Haukur Kristinsson

Heimildir:
Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 42.
„Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal.“ Vinnan, afmælishefti 1966. Bls. 57-58.
Hannibal Valdimarsson. „Drög að sögu verkalýðssamtaka á Bíldudal.“ Vinnan 17. árg., 1-3, mars 1960. Bls. 3-11. (Um félagið Skjaldborg stofnað 1908).
Ingivaldur Nikulásson. „Verklýðshreyfing á Bíldudal.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1986. 29. ár., bls. 74-86.

Flateyri Verkalýðsfélagið Skjöldur var stofnað á Flateyri 21. desember 1933. Stofnendur voru 12. Fyrsti formaður félagsins var Friðrik Hafberg, en hann gegndi formannsstarfi alls í 22 ár. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Halldór Vigfússon, Guðjón Jóhannesson, Jón Fr. Guðmundsson og Sturla Þórðarson.

Á Flateyri hafði áður verið stofnað Verkalýðsfélag Önfirðinga þann 16. október 1926 fyrir forgöngu Björns Blöndal Jónssonar erindreka Alþýðusambands Íslands. Formaður þess var Sveinn K. Sveinsson og stofnendur 22. Félagið átti erfitt uppdráttar og starfaði aðeins í tvö ár. Verkalýðsfélag Önfirðinga átti tvo fulltrúa á stofnþingi Alþýðusambands Vestfjarða í mars 1927, þá Svein K. Sveinsson og Hinrik B. Þorláksson.

Verkalýðsfélagið Skjöldur gerðist meðlimur í Alþýðusamband Íslands og Alþýðusambandi Vestfjarða. Árið 1936 kom upp alvarleg deila milli Skjaldar og annarra verkalýðsfélaga innan Alþýðusambands Íslands vegna vinnu við karfavinnslu á Sólbakka við Flateyri. Verkalýðsfélagið taldi félagsmenn sína eiga forgang til allrar vinnu á stöðinni á Sólbakka, en önnur félög, bæði á Vestfjörðum og jafnvel á Suðurlandi kröfðust þess að fá ákveðið hlutfall af vinnunni fyrir sína félaga. Kreppan var í algleymingi og atvinnuleysi mikið á þessum árum. Verksmiðjan á Sólbakka var rekin af Síldarverksmiðjum ríkisins og þótti mörgum sem fleiri ættu að njóta vinnunnar en heimamenn á Flateyri. Félagar í Skildi stóðu fast á sínum rétti, fólk flykktist í félagið og allt upp í 170 manns mættu á fundum félagsins. Alþýðusamband Íslands hótaði að reka félagið úr sambandinu, ef það gæfi ekki eftir þriðjung af vinnunni til annarra félaga. Að lokum var samið um að aðkomumenn fengju ákveðið hlutfall af vinnu við karfa- og síldarvinnslu á Sólbakka. Meirihluti aðkomufólksins voru konur og gengu þær undir nafninu „prósenturnar“. Þær voru „margar ungar og ásjálegar og var að sjálfsögðu vel fagnað af ungum Flateyringum…“ segir Hjörtur Hjálmarsson skólastjóri á Flateyri í yfirliti um sögu félagsins frá 1983. Leystist deila Skjaldar og annarra félaga með farsælum hætti og urðu ekki slíkir árekstrar á félagssvæðinu eftir þetta.

Barátta verkalýðsflagsins fyrir bættum kjörum var ekki aðeins bundin kröfum um hærri laun og bættan aðbúnað. Verkalýðsfélagið Skjöldur stóð fyrir stofnun pöntunarfélags árið 1937 sem starfaði um allnokkur ár. Félagið seldi nauðsynjavörur með litlum kostnaði og álagningu til félagsmanna. Pöntunarstjóri var lengst af Hinrik Guðmundsson. Skjöldur átti stóran þátt í byggingu félagsheimilisins á Flateyri bæði með sjálfboðavinnu félagsmanna og fjáröflun svo sem leiksýningu á Skugga-Sveini. Sjúkrasjóði var fljótlega komið upp í félaginu, sem efldist með tímanum.

Verkalýðsfélagið Skjöldur stóð ætíð dyggilega með öðrum félögum á Vestfjörðum við gerð sameiginlegra samninga landverkafólks og sjómanna. Þegar fyrstu sameiginlegu samningar ASV voru gerðir árið 1949 neituðu atvinnurekendur á Flateyri að viðurkenna þá í fyrstu, en eftir að verkfallsboðun var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu og Kaupfélag Önfirðinga lét undan, gerðu aðrir atvinnurekendur á staðnum það líka.

Með auknum umsvifum í útgerð og fiskvinnslu á Flateyri var formaður félagsins jafnframt gerður að launuðum starfsmanni árið 1970. Bónuskerfi var tekið upp við pökkun og snyrtingu í frystihúsinu árið 1977, eða um líkt leyti og víða annarsstaðar.

Árið 1980 var gerður samningur milli verkalýðsfélagsins, atvinnurekenda og Sparisjóðs Önundarfjarðar um vörslu orlofsfjár. Var þessi nýjung fljótlega tekin upp í samningum ASV, en handbendlar ríkisins reyndu um tíma að koma í veg fyrir þessa ráðstöfun, sem gaf verkafólki margfalt betri ávöxtun á orlofið en áður tíðkaðist. Skjöldur gaf út veglegt afmælisrit í tilefni 50 ára afmælis félagsins árið 1983 og sama ár flutti félagið í eigið húsnæði með skrifstofu og fundaaðstöðu. Félagið var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002. 

Hús félagsins á Flateyri.

Formenn Verkalýðsfélagsins Skjaldar hafa verið

  • Friðrik Hafberg 1934, 1939-1958
  • Jón Magnússon 1935
  • Halldór Vigfússon 1936-1938
  • Hermann Kristjánsson 1959
  • Einar Hafberg 1960-1963
  • Kristján V. Jóhannesson 1963-1967, 1968-1970
  • Benedikt Vagn Gunnarsson 1967-1968
  • Guðvarður Kjartansson 1970-1971
  • Hendrik Tausen 1971-1980
  • Björn E. Hafberg 1980-1981
  • Björn Ingi Bjarnason 1981-1984
  • Gunnar Valdimarsson 1985-1987
  • Jón Guðjónsson 1987-1989
  • Sigurður Þorsteinsson 1989-1995
  • Guðmundur Sigurðsson 1996-1997
  • Ágústa Guðmundsdóttir 1997-2002


Heimildir

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 37.
  • „Verkalýðsfélagið Skjöldur, Flateyri.“ Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 66-67.
  • Afmælisrit Verkalýðsfélagsins Skjaldar 50 ára. Flateyri (1985).
  • – Hjörtur Hjálmarsson, „Verkalýðsfélagið Skjöldur 50 ára.“ Bls. 5-27.
  • – „Stjórnarmannatal Verkalýðsfélagsins Skjaldar 1933-1983.“ Bls. 32-42.

ÞingeyriVerkalýðsfélag Þingeyrar var stofnað 19. október 1926. Á stofnfundi mættu 64, en stofnfélagar voru alls skráðir 89, 71 karl og 18 konur. Félagið gekk þegar í Alþýðusamband Íslands og samþykkti aðild að Alþýðusambandi Vestfjarða þann 8. desember 1928. Nafni félagsins var breytt í Verkalýðsfélagið Brynja þann 15. desember 1935. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Fr. Einarsson, en þeir sem lengst hafa verið formenn eru Sigurður E. Breiðfjörð og Guðmundur Friðgeir Magnússon.

Björn Blöndal Jónsson erindreki ASÍ stóð að undirbúningi félagsins og boðaði til félagsstofnunar. Björn stofnaði einnig félög á Flatyeri og í Bolungarvík í þessari útbreiðsluferð á vegum Alþýðusambands Íslands. Félögin á Flateyri og í Bolungarvík náðu ekki fótfestu í það skiptið, en félagið á Þingeyri óx og dafnaði undir forystu traustra hugsjónamanna. Árið 1926 urðu sviptingar í atvinnulífi Dýrfirðinga og nokkrum dögum fyrir stofnun verkalýðsfélagsins varð helsti atvinnurekandi á Þingeyri, Bræðurnir Proppé, gjaldþrota. Lengst af tuttugustu öld var Kaupfélag Dýrfirðinga helsti atvinnurekandinn á staðnum. 

Verkalýðsfélagið stofnaði árið 1929 Pöntunarfélagið Dýra, í samkeppni við verslanir á Þingeyri. Síðar opnaði pöntunarfélagið verslun sem starfaði undir stjórn Sigurðar Jóhannessonar til ársins 1940. Þá tók verkalýðsfélagið þátt í stofnun útgerðarfyrirtækja á Þingeyri. Verkalýðsfélagið stóð að framboði til sveitarstjórnar, í fyrsta sinn 1931, og fékk fulltrúa kjörna í hreppnefnd Þingeyrarhrepps. Sjúkrasjóður starfaði við félagið frá árinu 1931 og styrkti hann félagsmenn í veikindum, veitti fæðingarstyrki og létti undir með öldruðum félagsmönnum.

Í Haukadal við Dýrafjörð var í janúar 1936 stofnuð sérstök verkalýðsfélagsdeild innan Brynju. Nefndist deildin Skjöldur og starfaði til ársins 1953, lengst af undir stjórn Helga Bjarnasonar.

Verkalýðsfélagið Brynja var meðeigandi í samkomuhúsinu á Þingeyri frá upphafi. Um 1990 eignaðist félagið hús að Fjarðargötu 2 á Þingeyri, auk þess sem Brynja átti hlut í orlofshúsum verkalýðsfélaganna í Vatnsfirði á Barðaströnd og að Svignaskarði í Borgarfirði. 

Á Þingeyri hefur verið stunduð fjölbreytt útgerð og þjónusta frá því í lok nítjándu aldar. Franskir skútukarlar, bandarískir lúðuveiðimenn og breskir togarakarlar hafa sett svip sinn á athafnalíf og mannlíf í Dýrafirði síðustu öldina. Heimamenn hafa stundað skútuútgerð, vélbátaútgerð og togaraútgerð auk verslunar og þjónustu við aðkomumenn og Dýrfirðinga. Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar var víðfræg fyrir smíðar sínar og þjónustu við báta og togara. Náði orðspor vélsmiðjunnar langt út fyrir íslenska landhelgi. Húsnæði vélsmiðjunnar á Þingeyri hefur verið gert að safni.

Á Þingeyri starfaði eldra verkalýðsfélag á árunum 1908 – 1910, oftast nefnt Verkamannafélagið á Þingeyri. Fundargerðabók félagsins ásamt lögum, félagatali og fleiri gögnum er varðveitt í safni félagsins.

Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri var meðal stofnenda Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002.

Formenn Brynju hafa verið:

  • Sigurður Fr. Einarsson 1926-1927
  • Guðbrandur Guðmundsson 1928
  • Sigurður E. Breiðfjörð 1929-1930, 1932-1934, 1936-1937, 1940-1957
  • Óskar Jónsson 1931
  • Steinþór Benjamínsson 1935, 1938-1939
  • Björn Jónsson 1957-1958
  • Guðmundur Friðgeir Magnússon 1959-1997
  • Valdís Bára Kristjánsdóttir 1997-2000
  • Gunnhildur Elíasdóttir 2000-2002

Heimildir:

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 36.
  • „Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri.“ Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 53.
  • „Verkalýðsfélagið Brynja á Þingeyri þrítugt.“ Vinnan 13. árg., 9-12, des. 1956, bls. 15-16. (Í.J.)
  • Ingi S. Jónsson. „Allt sem hann snerti á lék í höndum hans.“ Mannlíf og saga fyrir vestan. Ritröð 7. hefti. Vestfirska forlagið 2000, bls. 39-44 (um Sigurð E. Breiðfjörð).
  • Ingi S. Jónsson. „Upphaf verkalýðshreyfingar á Þingeyri.“ Mannlíf og saga fyrir vestan. Ritröð 8. hefti. Vestfirska forlagið 2001, bls. 31-33.

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað af verkamönnum á Ísafirði 1. apríl árið 1916. Í fyrstu nefndist félagið Verkamannafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt í ársbyrjun 1917. Sama ár gekk félagið í Alþýðusamband Íslands, sem stofnað var 12. maí 1916, og var í senn bæði verkalýðssamband og stjórnmálaflokkur sem nefndist Alþýðuflokkurinn. Sú skipan hélst allt til ársins 1940. Fyrstu stjórn verkamannafélagsins skipuðu Sigurður H. Þorsteinsson, formaður, Kristján Dýrfjörð Kristjánsson, varaformaður, Jón G. Hallgrímsson ritari og Magnús Jónsson gjaldkeri.

Félagið samþykkti þegar í byrjun aukalög, sem voru kauptaxtar félagsmanna, og gerði samþykktir um vinnutíma, sem þá var 12 tímar á dag. Ekki treystu félagar Baldurs sér til þess að láta brjóta á kröfum sínum og valt á ýmsu hvort atvinnurekendur virtu félagið viðlits fyrstu árin. Félagar í Baldri vildu greinilega fara varlega af stað og efla félagsskapinn áður en lengra væri haldið, ef til vill minnugir þess hvernig fór fyrir fyrsta verkalýðsfélaginu sem stofnað var á Ísafirði tíu árum áður.

Fyrsta verkalýðsfélagið 1906

Vorið 1906 var fyrsta verkalýðsfélagið stofnað á Ísafirði. Á þeim tíma var mikill uppgangur í bænum, vélbátum fjölgaði ört og mikil atvinna var hjá stóru verslununum sem jafnframt stóðu að útgerð og saltfiskverkun. Á stuttum tíma söfnuðust meir en 400 nöfn á félagalista Verkamannafélags Ísfirðinga, bæði sjómenn og landverkafólk, karlar jafnt og konur. Formaður félagsins var Júlíus Símonarson, titlaður húsmaður. Með honum í stjórn voru formennirnir Sigurgeir Bjarnason og Tómas Gunnarsson og Eyjólfur Bjarnason bókbindari. Félagið setti fram kröfur um hækkun dagvinnulauna og styttingu vinnudagsins úr tólf tímum í tíu. Voru kröfur félagsins í takt við samþykktir Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, sem þá var nýstofnað. Ekki vildu atvinnurekendur ganga að þessum kröfum og var þá boðað verkfall á Ísafirði. Stóð verkfallið hjá stærstu atvinnurekendum í nokkra daga, en þá tók samstaðan að bregðast og fólk að sækja í vinnu á ný fyrir sömu laun og kjör og áður. Þar með stóð félagið eftir máttlaust og lognaðist útaf í kjölfarið.

Einn maður var þó ódrepandi málsvari félagsskapar verkafólks á þessum árum. Það var Ólafur Ólafsson verkamaður. Hann skrifaði greinar í blöð á Ísafirði og hélt opinbera fyrirlestra um kjör alþýðu og verkalýðsfélög, sem voru prentaðir. Og hann talaði enga tæpitungu þegar hann skrifaði: „Það er ofurmagn þrælsóttans fyrir auðvaldinu, sem vinnur á móti og niðurdrepur alt sjálfstæði yðar.“ (Valurinn 14. mars 1907).

Samhjálp í fyrri heimsstyrjöld

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað á árum fyrri heimsstyrjaldar þegar verð á nauðsynjum, einkum kolum, olíu og öðrum innfluttum vörum hækkaði upp úr öllu valdi og kaupmáttur vinnulauna hrapaði. Auk þess var tímabundið atvinnuleysi fastur liður hjá íbúum kaupstaðarins á hverju ári. Félagar Baldurs beindu því kröftum sínum meira að sameiginlegum innkaupum á nauðsynjum, félagsverslun og garðrækt. Varð það mörgum að gagni á erfiðum tímum. Eftir frostaveturinn mikla 1918 tóku félagar í Baldri sig saman um mótekju á Seljalandsdal. Nýttist það félagsmönnum vel næstu ár í eldiviðarskorti og erfiðu árferði. Árið 1920 gerðist Baldur stofnaðili að Kaupfélagi Ísfirðinga sem varð með tímanum stærsta verslunin í bænum.

Ísafjörður um 1920

Ný forysta – nýjar áherslur

Það var ekki fyrr en vorið 1921 sem félagsmenn í Baldri létu til skarar skríða í launabaráttunni. Tókst þeim að ná fram munnlegum samningi við atvinnurekendur um launahækkun, 1,20 krónur á tímann, en um eftirvinnu og næturvinnu náðist ekki niðurstaða. Samkomulagið stóð ekki nema í einn mánuð og í maí kom fram á almennum verkalýðsfundi að sautján verkamönnum var sagt upp hjá „Hinum Sameinuðu“ eins og stærsta fyrirtæki bæjarins var kallað. Í kjölfarið tóku að berast úrsagnir úr Baldri, sem var óvenjulegt. Atvinnurekendur munu hafa hótað verkamönnum brottrekstri ef þeir segðu sig ekki úr félaginu og margir gátu ekki annað en hlýtt því, þó það væri þeim þvert um geð. Atvinnuna urðu menn að hafa. Var þá hætt að lesa upp úrsagnir á fundum Baldurs. Sýndi þetta að atvinnurekendur voru farnir að óttast áhrif verkalýðsfélagsins. Hörðustu kjaraátök félagsins urðu árið 1926 þegar verkafólki tókst að verjast launalækkunarkröfum atvinnurekenda með verkfalli. Á þessum tíma vildi það Baldursfélögum til að þeir höfðu fengið í sínar raðir nýjan forystumann sem var óháður atvinnurekendavaldinu og vílaði ekki fyrir sér að standa í fremstu víglínu í baráttu verkafólks fyrir mannsæmandi lífskjörum og réttlátara þjóðfélagi.

Haustið 1920 var Finnur Jónsson gerður að póstmeistara á Ísafirði og gekk hann þegar til liðs við verkamenn í Baldri. Var hann kosinn formaður í janúar 1921, þrátt fyrir að hann bæðist undan slíkum trúnaði. Finnur stýrði félaginu næstu ellefu árin. Undir forystu Finns Jónssonar varð Verkalýðsfélagið Baldur að stórveldi í íslenskri verkalýðssögu.

Forystusveit Baldurs varð hryggstykkið í meirihluta jafnaðarmanna í Bæjarstjórn Ísafjarðar sem stóð í aldarfjórðung frá árinu 1921. Undir forystu Finns Jónsson, Vilmundar Jónssonar, Haraldar Guðmundssonar, Hannibals Valdimarssonar, Guðmundar G. Hagalín og samherja þeirra varð Ísafjörður undir merkjum Alþýðuflokksins fyrsti rauði bærinn á Íslandi.

Verkalýðsfélagið Baldur stóð ásamt bæjaryfirvöldum og fleirum að uppbyggingu atvinnufyrirtækja eins og Samvinnufélags Ísfirðinga sem lét smíða sjö báta, Birnina, á árunum 1928-29, útgerðarfélaginu Nirði og togaraútgerð Skutuls á fjórða áratugnum. Var þannig beitt ýmsum ráðum til að halda uppi atvinnu verkafólks og sjómanna á tímum kreppunnar miklu.

Alþýðuhús Ísfirðinga við Norðurveg var reist árin 1934-35 af félögum í Verkalýðsfélaginu Baldri og Sjómannafélagi Ísfirðinga, undir forystu Hannibals Valdimarssonar og Eiríks Einarssonar. Hannibal hafði áður haft forystu um byggingu félagsheimis í Súðavík, þar sem hann tók að sér forystu í félagi verkamanna og sjómanna. Hann flutti til Ísafjarðar árið 1931 og skipaði sér þegar í forystusveit jafnarðarmanna. Hann varð formaður í Baldri árið eftir. Fyrsti félagsfundur Baldurs í Alþýðuhúsinu var haldinn 27. október 1935, í veitingasal í kjallara, en mánuði síðar var fyrsta kvikmyndin sýnd í bíósalnum. Hannibal hafði umsjón með byggingu hússins og var framkvæmdastjóri þess fyrstu árin. Húsið hefur síðan þjónað sem kvikmyndahús kaupstaðarins og var um áratugi helsta samkomuhús Ísfirðinga þar sem fóru fram leiksýningar, tónleikar, skemmtanir, samkomur félaga og pólitískir fundir.

Sterkari samtök

Fyrstu konurnar gengu í Baldur í árslok 1924, og á aðalfundi í janúar árið eftir var lögum félagsins breytt í samræmi við það og nafninu úr verkamanna- í Verkalýðsfélagið Baldur. Verkakonur höfðu stofnað eigið félag árið 1917 og reynt að knýja fram kauphækkun, en ekki haft erindi sem erfiði. Kaup kvenna var yfirleitt um 30% lægra en kaup karla á þessum tíma. Æ síðan var Baldur sameiginlegt baráttutæki alls verkafólks á Ísafirði. Jöfn laun fyrir sömu vinnu voru fest í sessi kringum árið 1960.

Forystumenn Baldurs stóðu fyrir og aðstoðuðu við stofnun verkalýðsfélaga í öðrum byggðum Vestfjarða, svo sem Verkalýðsfélags Hnífsdælinga árið 1924, Verkalýðsfélags Patreksfjarðar 1928, Verkalýðsfélags Álftfirðinga sama ár, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur og Súganda á Suðureyri árið 1931. Frægt varð þegar Hannibal Valdimarsson þáverandi formaður Baldurs var fluttur með valdi frá Bolungarvík til Ísafjarðar sumarið 1932 þegar hann fór að styðja við bakið á verkafólki í Bolungarvík í baráttu fyrir tilverurétti verkalýðsfélagsins.

Árið 1927 stofnuðu jafnaðarmenn og verkalýðssinnar Alþýðusamband Vestfjarða, sem fyrst nefndist Verklýðssamband Vesturlands. Voru það félögin á Ísafirði, Hnífsdal, Flateyri og Bolungarvík sem það gerðu. Fljótlega bættist Brynja á Þingeyri og nýstofnuð félög í Súðavík og á Patreksfirði í hópinn. Alþýðusamband Vestfjarða varð mikilvægt tæki verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum til að ná fram samræmdum kjörum á sjó og í landi fyrir allt verkafólk í fjórðungnum. Munaði þar ekki minnst um samstöðu Baldursfélaga fyrir því að ná kauptöxtum annarra félaga til jafns við það sem náðst hafði á Ísafirði.

Breyttir tímar – traustur grunnur

Verkalýðsfélagið Baldur óx og dafnaði næstu áratugi í samræmi við atvinnulíf á Ísafirði. Fleiri starfsstéttir gengu í félagið og um 1940 stofnuðu nokkrar þeirra sérstakar deildir við félagið. Fyrstir voru vörubílstjórar sem störfuðu innan Baldurs í mörg ár, en einnig voru stofnaðar deildir saumakvenna, starfsstúlkna og netavinnumanna. Deild saumakvenna hjá klæðskerum og við hattagerð nefndist Dyngja, deild starfsstúlkna á sjúkrahúsi og elliheimili nefndist Sjöfn, en deild netavinnumanna Dröfn. Flestar deildirnar störfuðu milli 1940 og 1950, en lögðust síðan af. Innan Baldurs störfuðu áfram fjölmargir starfshópar í fiskvinnslu, almennum þjónustustörfum, verktakastarfsemi og iðnaði.

Samhliða aðild að Alþýðusambandi Íslands og Alþýðusambandi Vestfjarða gekk Verkalýðsfélagið Baldur til liðs við Verkamannasambandi Íslands árið 1965. Forystumenn Baldurs, Björgvin Sighvatsson, Pétur Sigurðsson og Karítas Pálsdóttir hafa öll átt sæti í stjórn sambandsins, sem síðar varð Starfsgreinasamband Íslands. Samningar Baldurs og annarra félaga í Alþýðusambandi Vestfjarða hafa síðustu áratugi tekið mið af heildarsamningum verkalýðsfélaganna í landinu, þó sérstakir samningar hafi verið gerðir milli Alþýðusambands Vestfjarða og atvinnurekenda í fjórðungnum allt fram á þennan dag.

Mörg baráttumál verkalýðsfélaganna hafa náð fram að ganga á síðustu áratugum. Orlof, veikindaréttur, slysabætur, lífeyrissjóðir, starfsréttindi og vinnuvernd eru meðal þeirra réttinda sem verkalýðsfélögin hafa unnið að ásamt hefðbundnum kjaramálum. Með sama hætti hefur starfsemi verkalýðsfélaganna orðið yfirgripsmeiri og margbreytilegri. Flest verkalýðsfélög á Vestfjörðum stóðu að stofnun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga árið 1970. Sjúkra- og styrktarsjóður festi sig í sessi. Orlofssjóður Baldurs eignaðist bæði sumarhús í Vatnsfirði, í Ölfusborgum og víðar í samstarfi við önnur verkalýðsfélög og íbúðir í Reykjavík og á Akureyri til útleigu fyrir félagsmenn. 

Á tímum verðbólgunnar eftir 1980 brunnu launahækkanir jafnóðum upp í hækkandi verðlagi. Verkalýðsfélagið Baldur í samstarfi við Neytendasamtökin hélt úti virku verðlagseftirliti á Ísafirði og í nágrenni og opinni skrifstofu á tímabili. Var gefið út blaðið Baldur með verðkönnunum og fleiri upplýsingum til félagsmanna árin 1983-1995.

Fræðslumál hafa skipað æ stærri sess í starfseminni. Námskeiðahald á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu fyrir trúnaðarmenn og stjórnarmenn í félögum hófust um 1970, en fiskvinnslunámskeið, sem gefa rétt til launahækkana, ruddu brautina fyrir margskonar starfstengt námskeiðahald sem nú þykir sjálfsagður hlutur í öllum starfsgreinum. Verkalýðsfélagið Baldur var í fararbroddi í þjónustu við erlent verkafólk sem hingað hefur leitað til starfa við fiskvinnslu síðustu áratugi. Flestir hafa komið frá Póllandi síðustu ár, og stóð Baldur með Alþýðusambandi Vestfjarða að námskeiðahaldi og útgáfu handbókar fyrir verkafólk á pólsku. 

Verkfallið 1997

Þó að verkalýðsfélögin hafi náð viðurkenningu fyrir mörgum áratugum snýst starf þeirra enn um það grundvallarmarkmið að verkafólk njóti lífskjara sem geri þeim kleift að lifa með reisn og standa jafnfætis öðrum stéttum samfélagsins. Margt hefur áunnist í þeim efnum, en sífellt þarf að setja ný markmið og verja þá áfanga sem náðst hafa.

Verkfallsátök eru sjaldgæfari nú á tímum en áður var. Samningar verkalýðsfélaga og atvinnurekenda fara nú fram samkvæmt nákvæmum reglum og lögum og oft næst samkomulag fyrir tilstilli stjórnvalda sem mikil áhrif hafa á kjör fólks í landinu. Ekki tekst alltaf að ná fram samningum án átaka. Þannig var það vorið 1997 að nokkur verkalýðsfélög innan ASV, undir forystu Verkalýðsfélagsins Baldurs, háðu harðvítugt verkfall á meðan önnur verkalýðsfélög ýmist sættust á minni kröfur eða sátu hjá. Skerðing á kjörum verkafólks, einkum fiskvinnslufólks, hafði þá verið umtalsverð, bæði vegna minnkandi vinnu í landi og hófsamari samninga en aðrar stéttir höfðu náð. Verkafólk á Vestfjörðum taldi sig því knúið til að snúa þróuninni við og þreytti sjö vikna verkfall við erfiðar aðstæður gegn sameinuðu atvinnurekendavaldi á öllu landinu, óvinveittum stjórnvöldum og skilningslausum fjölmiðlum. Baldursfélagar ásamt félögum innan ASV á Hólmavík, í Súðavík, á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri tóku þannig upp hanskann fyrir verkafólk á landinu öllu og sýndi að þegar samtakamáttur og baráttuvilji er fyrir hendi má ná lengra í baráttunni fyrir mannsæmandi kjörum. 

Saga og nútíð

Formenn Verkalýðsfélagsins Baldurs hafa verið: 

  • 1916-1920 Sigurður H. Þorsteinsson
  • 1920-1921 Stefán J. Björnsson
  • 1921-1932 Finnur Jónsson
  • 1932-1939 Hannibal Valdimarsson
  • 1939-1949 Helgi Hannesson
  • 1949-1954 Guðmundur G. Kristjánsson
  • 1954-1957 Björgvin Sighvatsson
  • 1957-1968 Sverrir Guðmundsson
  • 1968-1974 Pétur Pétursson
  • 1974-2002 Pétur Sigurðsson

Verkalýðsfélagið Baldur gerðist ásamt átta öðrum félögum á Vestfjörðum stofnandi Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002. 

Heimildir um Verkalýðsfélagið Baldur

  • Skjalasafn Verkalýðsfélagsins Baldur í Skjalasafni Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 21.
  • Verkalýðsfélagið Baldur 30 ára. Afmælisrit. Ísafirði 1946.
  • Verkalýðsfélagið Baldur 70 ára. Afmælisrit. Ísafirði 1986.
  • Sigurður Pétursson. „Bolsarnir byltast fram. Uppgangur verkalýðshreyfingar og valdataka Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985. 28. ár, bls. 39-76.
  • Sigurður Pétursson: „Hannibal Valdimarsson.“ Andvari 2003. 128. ár, bls. 11-87.
Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932, framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga, alþingismaður og ráðherra
Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932, framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga, alþingismaður og ráðherra
Hannibal Valdimarsson formaður Baldurs 1932-1939, alþingismaður, ráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands.
Hannibal Valdimarsson formaður Baldurs 1932-1939, alþingismaður, ráðherra og forseti Alþýðusambands Íslands.

Patreksfjörður  Verkalýðsfélag Patreksfjarðar var stofnað 16. október árið 1928. Á stofnfundi skrifuðu sig í félagið 55 verkamenn, 46 karlar og 9 konur, en á fundi daginn eftir bættust 29 félagsmenn við. Árið eftir voru meðlimir orðnir 156. Félagið var stofnað að undirlagi Verklýðssambands Vesturlands, eins og Alþýðusamband Vestfjarða kallaðist í fyrstu. Sambandið sendi Halldór Ólafsson ritstjóra Skutuls á Ísafirði og ritara sambandsins til að aðstoða við stofnfundinn. Verkalýðsfélag Patreksfjarðar gekk í Alþýðusamband Íslands árið 1930.

Fyrsti formaður Verkalýðsfélags Patreksfjarðar var Árni G. Þorsteinsson, síðar póstmeistari. Með honum í stjórn voru kosnir Benedikt Einarsson, Ragnar Kristjánsson, Páll Ó. Guðfinnsson, Kristján Jóhannesson, Hans P. Christiansen, Davíð Friðlaugsson og Guðfinnur Einarsson.

Fyrstu árin var nokkuð um reipdrátt milli verkalýðsfélagsins og helsta atvinnurekandans á Patreksfirði, Ó. Jóhannesson og co. Fyrirtækið stóð að myndarlegri togaraútgerð, fiskvinnslu og verslun um áratugaskeið. Fyrsti kauptaxti verkalýðsfélagsins gerði ráð fyrir að tímakaup karla væri 80 aurar í dagvinnu en kvenna 50 aurar. Um áramótin 1930 kom til verkfalls þegar fyrirtækið lokaði fyrir sölu á kolum til almennings. Verkfallið stóð stutt og var því aflýst eftir að Ólafur Jóhannesson mætti á fund í félaginu og sagði kolasölubann ekki í gildi. Áður hafði hann látið syni sína og aðra utanfélagsmenn ganga í störf verkafólks við útskipun. Verkalýðsfélagið vildi hækka dagvinnu karla í eina krónu, en sæst var á 90 aura. Næstu ár voru erfið í útgerð og salfiskvinnslu og gekk á ýmsu um útborgun launa, auk þess sem vinna var stopul og atvinnuleysi oft viðloðandi í plássinu. Urðu verkamenn þá að gera undantekningu frá ákvæði um vikulega útborgun í peningum. Hinsvegar var staðið á forgangsrétti félagsmana til vinnu eins og hægt var og félagið reyndi að jafna niður vinnu félagsmanna, einkum á veturna. 

Togarinn Ólafur Jóhannesson.

Alvarlegar deilur komu upp í félaginu árið 1931. Blönduðust þar saman bæði pólitísk sjónarmið og kaupgjaldsmál. Í aðdraganda alþingiskosninga kom Árni Ágústsson félagi í Dagsbrún í Reykjavík á fund í Verkalýðsfélagi Patreksfjarðar og óskaði eftir að taka til máls. Árni Gunnar formaður félagsins tók því treglega, og spurði hvaða erindi hann ætti, en nafni hans sagðist vera á vegum Alþýðusambandsstjórnar og fékk þá að ávarpa fundinn. Árni Ágústsson var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn í kosningunum í júní. Gengu kærur milli þeirra nafna til sambandsstjórnar ASÍ sem var um leið stjórn Alþýðuflokksins á þessum árum. Svo virðist sem meirihluti virkra félagsmanna hafi verið mótfallinn formanni félagsins þegar þarna var komið sögu. Um haustið þegar deilur komu upp milli verkalýðsfélagsins og atvinnurekenda, sauð upp úr. Árni Gunnar Þorsteinsson formaður sagði sig úr félaginu og hópur manna sem studdi hann tók að sér vinnu við ístöku í andstöðu við meirihluta félagsmanna, sem voru í verkfalli. Skiptust félagsmenn í tvær andstæðar fylkingar og nýr formaður var kjörinn Benedikt Einarsson. Þegar Árni Gunnar vildi snúa aftur í félagið var honum hafnað. Í janúar 1932 kom Hannibal Valdimarsson til Patreksfjarðar í umboði Alþýðusambands Vestfjarða til að reyna að koma á sáttum í félaginu. Eftir nokkur fundahöld var gert samkomulag, bæði við Ó. Jóhannesson og co og eins við hópinn kringum fyrrverandi formann, sem kallaðir voru verkfallsbrjótar í bókum félagsins. Árni G. Þorsteinsson fékk þó ekki inngöngu í félagið á ný. Eftir þetta lægði öldurnar í félaginu, þó áfram væri tekist á við atvinnurekendur.

Sjómannafélag Patreksfjarðar var stofnað árið 1937, og gengu þá margir sjómenn úr Verkalýðsfélaginu, en félagið samþykkti gagnkvæm vinnuréttindi félagsmanna. Sjómannafélagið starfaði til ársins 1944 þegar það gekk sem heild inn í Verkalýðsfélagið og starfaði áfram sem deild í því. Árið áður höfðu verið samþykkt ný lög fyrir félagið og þá var stofnuð kvennadeild innan þess. Deildir verkamanna og verkakvenna störfuðu árin 1943-1953. 

Fyrr var starfandi verkalýðsfélag á Patreksfirði, Verkamannafjel. Patrekshrepps, sem talið er að hafi verið stofnað árið 1914. Lognaðist það útaf eftir fáein misseri.

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar beitti sér fyrir stofnun Byggingafélags verkamanna, Kvennadeildar Slysavarnarfélagsins, byggingu hraðfrystihúss og lestrarfélagi svo nokkuð sé nefnt af framfaramálum sem félagið beitti sér fyrir á fyrstu áratugum þess. Þá átti félagið óbeinan þátt í Pöntunarfélagi verkamanna sem síðar varð Kaupfélag Patrekshrepps. Verkalýðsfélagið átti einnig drjúgan þátt í byggingu Félagsheimilisins á Patreksfirði.

Aðgerð um borð í togara.

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar hefur síðan 1944 verið sameiginlegur vettvangur verkafólks og sjómanna á Patreksfirði. Félagið hefur átt samleið með öðrum félögum innan Alþýðusambands Vestfjarða um samningamál síðan 1950. Félagið átti þátt í stofnun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga árið 1970 og sama ár var samþykkt að taka upp bónuskerfi í frystihúsi Skjaldar hf. Verkalýðsfélagið veitti félögum sínum stuðning og þjónustu eins og önnur félög gegnum sjúkrasjóð, orlofssjóð og með því að halda úti skrifstofu. Verkalýðsfélag Patreksfjarðar var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélaga Vestfirðinga árið 2002. 

Formenn Verkalýðsfélags Patreksfjarðar hafa verið:

  • Árni G. Þorsteinsson 1928-1931
  • Benedikt Einarsson 1931-1936
  • Davíð Davíðsson 1937-1940
  • Jóhannes L. Jóhannesson 1941
  • Ásmundur Matthíasson 1942
  • Jóhannes Gíslason 1943-1945
  • Þórarinn Bjarnason 1946-1947
  • Agnar Einarsson 1948
  • Ingimundur Halldórsson 1949
  • Ólafur Bæringsson 1950,1966-67,1969-70
  • Gunnlaugur Kristófersson 1951,1953-1960
  • Kristján Eggertsson 1952
  • Bjarni H. Finnbogason 1961-1965
  • Jens Líndal Bjarnason 1965-1966
  • Snorri Gunnlaugsson 1967-1968
  • Gestur Guðjónsson 1968-1969
  • Marteinn Jónsson 1970-1977
  • Hjörleifur Guðmundsson 1977-1993
  • Gunnar P. Héðinsson 1992-1993, 1995-1998
  • Magnús M. Gunnbjörnsson 1993-1995, 1998-2002

Heimildir

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 41.
  • Jón úr Vör. „Verkalýðsfélag Patreksfjarðar 20 ára.“ Vinnan. (Útgefandi: Útgáfufélagið Vinnan.) 6. árg. 12. tbl. desember 1948, 274-277 og 280.
  • „Verkalýðsfélag Patreksfjarðar.“ Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 56.

Hómavík. Verkalýðsfélag Hólmavíkur var stofnað 8. mars 1934 á Klossastöðum, en svo nefndist braggabygging í eigu Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Jónsson og með honum í stjórn voru Þorkell Jónsson, Jón Ottósson, Magnea Guðmundsdóttir og Guðbjörn Bjarnason. Guðmundur var helsti hvatamaður að stofnun félagsins og gegndi formennsku í níu ár.

Kaupfélagið var lengi helsti atvinnurekandinn á Hólmavík. Á fundinum þegar félagsstofnunin var rædd stóð kaupfélagsstjórinn upp og taldi enga þörf á slíkum félagsskap þar á staðnum. Þegar hann yfirgaf fundinn gengu margir með honum á dyr. Eftir sátu þeir sem kjarkinn höfðu, aðeins 6 eða 7 menn. Fljótlega sneru ýmsir til baka aftur inn á fundinn og félagið var stofnað. Að fjórum árum liðnum voru félagsmenn orðnir 138.

Á stofnfund Verkalýðsfélagins var mættur Jón Sigurðsson erindreki Alþýðusambands Íslands og aðstoðaði hann við fæðingu þess. Á þessum árum ferðaðist Jón um landið í erindum Alþýðusambandsins og vann að stofnun verkalýðsfélaga innan vébanda þess. Félagið á Hólmavík var fyrsta verkefni hans, eftir að hann réðst til alþýðusamtakanna. Kommúnistar sem réðu mörgum félögum á Norðurlandi létu félög sem þeir stjórnuðu oft sniðganga sambandið, en héldu uppi eigin sambandi, Verklýðssambandi Norðurlands. Félagsmenn á Hólmavík samþykktu strax aðild að Alþýðusambandinu sem var veitt 7. júní sama ár.

Verkalýðshúsið á Hólmavík.

Verkalýðsfélag Hólmavíkur gekk til liðs við Alþýðusamband Vestfjarða árið 1955 og stóð upp frá því að samningum á sjó og landi í samfloti við önnur félög á Vestfjörðum. Aukin útgerð og rækjuvinnsla varð til að styrkja byggð á Hólmavík undir lok tuttugustu aldar, ólíkt þróuninni á mörgum stöðum á Vestfjörðum. Verkalýðsfélag Hólmavíkur undir forystu Helga Ólafssonar frá árinu 1982 tók virkan þátt í samningagerð ASV. Félagið keypti hús undir starfsemi sína og opnaði skrifstofu árið 1985. Í kjölfarið óx virkni félagsins; haldið var upp á 1. maí ár hvert, félagið stóð fyrir námskeiðum af ýmsu tagi og þjónusta við félagsmenn jókst. Félagarnir á Hólmavík stóðu ásamt fjórum öðrum félögum innan ASV að sjö vikna verkfalli landverkafólks vorið 1997. Verkalýðsfélag Hólmavíkur var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2000.

Heimildir um Verkalýðsfélag Hólmavíkur

  • „Verkalýðsfélag Hólmavíkur.“ Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 68.
  • „Það sauð oft á keipum í verkalýðsbaráttunni áður fyrr.“ (Viðtal við Jón Sigurðsson). Vinnan, 3.tbl. 32.árg. 1982, bls. 6-8.
  • „Deyfðin hefur kostað okkur mikið.“ (Viðtal við Helga Ólafsson). Vinnan, 2.tbl. 35.árg. 1985, bls. 6-7.

SuðureyriÍ september árið 1931 fóru tveir af forystumönnum jafnaðarmanna á Ísafirði fótgangandi yfir Botnsheiði til Suðureyrar. Þar voru á ferðinni Hannibal Valdimarsson áður skólastjóri í Súðavík og Guðmundur G. Hagalín rithöfundur og bókavörður, báðir nýfluttir til Ísafjarðar. Þeir höfðu verið kosnir varaformaður og ritari Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs, eins og ASV hét þá, á þingi sambandsins fyrr á sama ári. Erindi þeirra var að breiða út boðskap verkalýðshreyfingarinnar í Súgandafjörð. Að kvöldi 21. september boðuðu þeir til fundar um verkalýðsmál í gamla samkomuhúsinu á Suðureyri. Þar var Súgandi stofnaður.

Stofnfélagar Verkalýðsfélagsins Súganda voru 14, en fljótlega fjölgaði í félaginu þannig að flestir verkamenn urðu félagsbundnir auk sjómanna og verkakvenna. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Guðjón Jóhannsson skósmiður, formaður, Bjarni G. Friðriksson sjómaður, gjaldkeri og Guðmundur Jón Markússon vinnumaður, ritari. Félagið gekk þegar í Alþýðusamband Íslands og var traustur samherji annarra félaga í Alþýðusambandi Vestfjarða gegnum tíðina. Sérstök sjómannadeild var stofnuð við félagið árið 1937 og fékk það þá nafnið sem festist; Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi. 

Suðureyri árið 1943 (Ljósmynd Jóhannes Pálmason)

 

Verkalýðsfélagið Súgandi náði fljótlega viðurkenningu atvinnurekenda sem samþykktu skriflega samninga um kaup og kjör á félagssvæðinu. Ólíkt öðrum stöðum skarst sjaldan í odda milli samningsaðila á Suðureyri. Um það sagði Hannibal Valdimarsson síðar í afmælisgrein á 25 ára afmæli félagsins:

Einhver kynni að halda, að það bæri vott um deyfð og máttleysi félagsins, að það hefur aldrei lent í verkfalli á þessum liðna aldarfjórðungi. En svo er ekki. Þetta skýrist til fulls af tvennu: Hinni almennu þátttöku vinnandi fólks á sjó og landi í félaginu, og því láni Súgfirðinga, að hafa átt myndarlega, víðsýna og sanngjarna atvinnurekendur, sem töldu sig af sama stofni og verkafólkið sjálft. – Smákóngahroki og kúgunarandi hefur aldrei fest rætur í Súgandafirði.
(Vinnan 13.árg. 1956, 9.-12.tbl., bls. 4). 

Vinnslusalur frystihúss Freyju árið 1969.

Þó að kjarabaráttan hafi verið aðalviðfangsefni Súganda hefur félagið jafnframt látið önnur mál til sín taka á sviði menningar- og félagsmála. Félagið tók þátt hreppnefndarkosningum og lagði djúgan hlut í byggingu félagsheimilis á Suðureyri og síðar sundlaugarinnar.

Súgandi eignaðist eigið húsnæði í Bjarnaborg árið 1986 og færði það aukið líf í félagið, auk þess sem tónlistarskólinn á staðnum fékk inni í húsnæði þess. Löng hefð er fyrir því á Suðureyri að verkafólk og sjómenn haldi upp á barátttudag verkalýðsins, 1. maí, með veglegum hætti undir merkjum verkalýðsfélagsins.

Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi stóð með öðrum félögum innan ASV að sameiginlegum samningum landverkafólks og sjómanna um fimm áratuga skeið. Félagið tók þátt í harðvítugu verkfalli 5 félaga á Vestfjörðum vorið 1997. Árið 2003 samþykkti Súgandi að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og starfar áfram sem deild í því félagi.

Formenn Súganda hafa verið

  • Guðjón Jóhannsson,
  • Guðmundur Kr. Guðnason,
  • Bjarni G. Friðriksson,
  • Hermann Guðmundsson,
  • Guðni Ólafsson,
  • Ingólfur Jónsson,
  • Þórarinn Brynjólfsson,
  • Eyjólfur S. Bjarnason,
  • Hólmberg Arason,
  • Jóhann Bjarnason,
  • Jens Ásmundsson,
  • Sveinbjörn Jónsson,
  • Lilja Rafney Magnúsdóttir

Heimildir

  • „Verkalýðsfélagið Súgandi 25 ára.“ Vinnan 13.árg. 1956, 9.-12.tbl., bls. 4.
  • Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 59 og 41.árg., 5.tbl., júní 1991.
Úr beitingaskúrnum hjá Freyju 1947, Guðni (Lalli) Guðjóns, Gissur, Ingólfur, Björgvin Alexandersson og Willy Blumenstein(Ljósmynd Jóhannes Pálmason)
Úr beitingaskúrnum hjá Freyju 1947, Guðni (Lalli) Guðjóns, Gissur, Ingólfur, Björgvin Alexandersson og Willy Blumenstein(Ljósmynd Jóhannes Pálmason)

ReykhólarVerkamannafélagið Grettir, Reykhólum var stofnað 15. júlí árið 1956. Það var samþykkt í Alþýðusamband Íslands 28. ágúst sama ár. Fyrstu árin voru félagsmenn milli 15 og 20, flestir voru þeir 47 í kringum 1993, en tíu árum síðar voru félagsmenn 26, þar af 16 konur.

Þéttbýli tók að myndast á Reykhólum á síðustu áratugum 20. aldar, einkum eftir að þar reis þörungavinnsla. Áður var Króksfjarðarnes miðstöð sveitarinnar og starfsfólk Kaupfélagsins og sláturhúss þess tilheyrði félaginu. Flestir félagsmanna verkalýðsfélagsins hafa atvinnu við þörungavinnsluna og dvalarheimili aldraðra á Reykhólum, auk annarra þjónustustarfa. Sjómenn hafa haft nokkra atvinnu af þangskurði fyrir vinnsluna og var nafni félagsins af þeim ástæðum breytt í Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir. 

Áður starfaði verkalýðsfélag í Flatey á Breiðafirði, sem nú tilheyrir Reykhólahreppi. Þar hafði risið þéttbýli í tengslum við uppbyggingu útgerðar og fiskvinnslu á fyrri hluta 20. aldar. Verkalýðsfélag Flateyjar starfaði á árunum 1930-1961. Fyrsti formaður þess var Friðrik Salómonsson. Gegndi hann formannsstörfum allt til 1949.

Áberandi hefur verið hve konur hafa staðið framarlega í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélagsins Grettis. Má sem dæmi nefna að formenn í félaginu frá 1992-2003 voru konur:

  • Kristín Svavarsdóttir 1992, 1999-2000
  • Erla M. Pálmadóttir 1993-1994
  • Svanhildur Sigurðardóttir 1995
  • Þórunn Játvarðsdóttir 1996-1999
  • Ásdís Á. Sigurdórsdóttir 2000-2003

Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir á Reykhólum gekk til liðs við Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2003 og starfar áfram sem deild í félaginu.

Heimildir

  • Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 105. Ársskýrslur Grettis til ASV.

TálknafjörðurVerkalýðsfélag Tálknafjarðar var stofnað 28. nóvember 1935 í barnaskólahúsinu á Sveinseyri. Fyrsti formaður þess var Jóhann L. Einarsson, Tungu. Aðrir í stjórn voru Albert Guðmundsson, Sveinseyri, Knútur Hákonarson, Bjarni E. Kristjánsson og Skúli Guðmundsson. Áður höfðu Albert og Jóhann boðað bréflega til undirbúningsfundar níunda sama mánaðar. Stofnendur voru 41, allt karlar.

Verkalýðsfélagið óx upp með þorpinu í Tungu við Tálknafjörð, sem byggði á útgerð og fiskvinnslu. Albert Guðmundsson var lengi einn helsti fyrirsvarsmaður í kauptúninu og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Tálknafjarðar, auk þess að vera í forystu verkalýðsfélagsins. 

Annar hvati til stofnunar félagsins var uppbygging hvalveiðistöðvar á Suðureyri við Tálknafjörð árið sem félagið var stofnað. Kópur hf. starfrækti hvalveiðistöðina 1935-1939 og gerði samninga um kaup og kjör við verkalýðsfélagið, þar sem var ákvæði um forgang félagsmanna til vinnu. Nokkrar deilur komu upp um vinnu utanhéraðsmanna við stöðina, og kvörtuðu Patreksfirðingar yfir því að nágrannar þeirra vildu ekki hleypa þeim að. Atvinnuleysi lá eins og mara yfir sjávarþorpum um allt land á kreppuárunum og baráttan um vinnuna var oft hörð. Fram kemur í skjölum félagsins að árið 1936 hafi 41 maður haft vinnu við stöðina á Suðureyri, þar af 13 aðkomumenn.

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar gekk í Alþýðusamband Íslands í janúar 1936 en sagði sig úr sambandinu með bréfi í desember 1939. Stóð það í tengslum við stjórnmáladeilur innan sambandsins þegar félög sem sósíalistar og sjálfstæðismenn réðu stóðu að stofnun Landssambands íslenskra stéttarfélaga við hliðina á Alþýðusambandi Íslands. Kaus félagið tvo fulltrúa á stofnþing hins nýja sambands haustið 1939. Varð þetta, ásamt öðru, til þess að skipulagi Alþýðusambandsins var breytt þannig að það var ekki tengt Alþýðuflokknum með beinum hætti eftir 1942. Verkalýðsfélag Tálknafjarðar var tekið aftur í ASÍ 12. júlí 1944.

Tálknafjörður um jól 1999, af vef Tálknafjarðarhrepps.

Tálknfirðingar stóðu nokkuð sér í hópi verkalýðsfélaga á Vestfjörðum um tíma og tóku ekki þátt í samstarfi þeirra. Áður var kaupgjald misjafnt milli félaga á Vestfjörðum og má taka sem dæmi árið 1946 þegar félagið gerði samning við helstu atvinnurekendur í firðinum, Kaupfélag Tálknafjarðar og Hraðfrystihús Tálknafjarðar. Samkvæmt samningnum var tímakaup karla kr. 2,30, kvenna kr. 1,85 og unglinga kr. 1,50. Eftirvinna var greidd með 25% álagi og nætur- og helgidagavinna með 75% álagi á dagvinnukaup. Baldur á Ísafirði samdi sama haust um að almennt verkamannakaup karla hækkaði úr kr. 2,45 í 2,65 á tímann og kvenna úr kr. 1,75 í 1,89. Eftirvinna væri greidd með 40% álagi og nætur- og helgidagavinna með 100% álagi. Síðar tók Verkalýðsfélag Tálknafjarðar fullan þátt í sameiginlegum samningum félaganna á Vestfjörðum undir merkjum Alþýðusambands Vestfjarða. 

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar stofnaði bókasafn árið 1937 og starfrækti um áratugaskeið. Á félagsfundi í desember 1985 var samþykkt að afhenda safnið Táknafjarðarhreppi. Gjafabréf var afhent í janúar árið eftir og í sama mánuði afhenti sveitarsjóður félaginu að gjöf húseignina Þinghól, þar sem komið var upp fundaaðstöðu og skrifstofu fyrir félagið.

Formenn félagsins hafa verið

  • Jóhann L. Einarsson
  • Sigurður Ág. Einarsson
  • Kristján Hannesson
  • Einar Brandsson
  • Páll Guðlaugsson
  • Agnar Sigurbjörnsson
  • Jóhann Eyþórsson
  • Þorsteinn Stefánsson
  • Hreggviður Davíðsson
  • Guðjóna Ólafsdóttir
  • Lúðvík Th. Helgason
  • Höskuldur Davíðsson
  • Ásta Jakobsdóttir
  • Birna Benediktsdóttir
  • Kristín Ólafsdóttir

Sjómannadeild var stofnuð innan félagsins í október 1978 og starfaði hún til 1984. Frá árinu 1979 nefndist félagið Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar. Félagið samþykkti inngöngu í Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2003 og gerðist frá þeim tíma deild í sameiginlegu félagi. Félagsmenn voru þá 41, 14 konur og 27 karlar, verkafólk, sjómenn og verslunarmenn.

Heimildir

  • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, deild 43.
    Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 95-96.
Síðasta stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar
Síðasta stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar

DrangsnesVerkalýðsfélag Kaldrananeshrepps, eins og félagið hér í upphafi, var stofnað 17. júní 1934 í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Guðmundur Guðni Guðmundsson og varð hann fyrsti formaður þess.

Á Drangsnesi hefur vélbátaútgerð og fiskvinnsla verið undirstaða þéttbýlis. Eins og á öðrum þéttbýlisstöðum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi hafa skipst á skin og skúrir í atvinnu og afkomu fólks og fyrirtækja á staðnum, allt eftir því sem fiskigengd, markaðsmál og stjórnmál hafa þróast bæði innan lands og utan.

Verkalýðsfélagið fór rólega af stað, en árið 1935 gerðu verkamenn sem unnu við vegagerð í hreppnum verkfall til að fá sömu laun fyrir vinnu sína og verkamenn annarsstaðar á landinu. Þeir fengu greidda 90 aura á tímann, en vegagerðarmenn í Kaldrananeshreppi, sem aðallega voru bændur, fengu 75 aura. Undir merkjum verkalýðsfélagsins náðu verkamenn fram sínum kröfum. 

Á Drangsnesi voru atvinnurekendur alls ráðandi, eins og víðar, og margir hræddust atvinnukúgun ef þeir gengju fram fyrir skjöldu í verkalýðsbaráttunni. Árið 1936 var verkalýðsfélaginu neitað um samkomuhúsið til fundahalds og var þá haldinn fundur í hálfbyggðu húsi eins verkamanns, Halldórs Jónssonar frá Asparvík. Einn atvinnurekandi reyndi að komast inn á fundinn og hafa áhrif á umræður þar, en var vísað frá. Sagt var að Halldór hafi átt erfitt með að fá vinnu á Drangsnesi fyrst á eftir. Í kjölfar slíkra deilna við atvinnurekendur gekk verkalýðsfélagið í Alþýðusamband Íslands árið 1937. Það gekk síðar einnig til samstarfs við önnur félög í Alþýðusambandi Vestfjarða.

Nokkrir af formönnum félagsins hafa verið:

  • Guðmundur Guðni Guðmundsson,
  • Einar Sigvaldason,
  • Torfi Guðmundsson,
  • Helgi Sigurgeirsson,
  • Magnús B. Andrésson,
  • Kristján Loftsson,
  • Anna Gunnarsdóttir,
  • Ingi Vífill Ingimarsson,
  • Hafdís Baldursdóttir,
  • Haraldur Vignir Ingólfsson,
  • Sigurmunda Ásbjörnsdóttir.

Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps samþykkti haustið 2003 að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Félagsmenn voru þá 44; verkafólk og sjómenn á Drangsnesi.

Heimildir

  • Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 78-79.

SúðavíkVerkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var stofnað 6. apríl árið 1928, sem bar upp á föstudaginn langa. Fyrsti formaður var Halldór Guðmundsson verkamaður og ritari Helgi Jónsson, en þeir voru helstu hvatamenn að stofnun félagsins. Gjaldkeri var Guðmundur Guðnason. Á stofnfundinn mætti einnig Ingólfur Jónsson lögfræðingur og bæjarritari á Ísafirði, forseti Verklýðssambands Vesturlands, sem stofnað hafði verið árið áður. Félagið gekk þegar í sambandið og í Alþýðusamband Íslands árið 1931.

Erfiðlega gekk að fá atvinnurekendur í Súðavík til að viðurkenna samningsrétt verkalýðsfélagsins í fyrstu, einkum Grím Jónsson, sem rak umfangsmestu verslun og útgerð í plássinu. Bauðst hann jafnvel til að koma upp veglegum sjúkra- og styrktarsjóði fyrir verkafólk í Súðavík ef það segði sig úr Alþýðusambandi Vestfjarða. Að vísu átti sjóðurinn ekki að taka til starfa fyrr en að 25 árum liðnum. Félagið hafnaði þessu og sömuleiðis þeirri hugmynd að setja á fót gerðardóm með sóknarprestinn sem oddamann. Gekk í þessu stappi í tvö ár.

Árið 1930 fengu þeir Halldór og Helgi ungan barnakennara til að taka að sér formennsku í félaginu. Hann var þá nýlega heimkominn frá námi í Danmörku og hafði starfað sem skólastjóri við barnaskólann í Súðavík veturinn á undan. Þar með hófust afskipti Hannibals Valdimarssonar af verkalýðsmálum. Hannibal varð síðar formaður í Verkalýðsfélaginu Baldri á Ísafirði, forseti Alþýðusambands Vestfjarða og Alþýðusambands Íslands, alþingismaður og ráðherra. Val Hannibals til forystu í verkalýðsfélaginu í Súðavík helgaðist af því að hann var ekki háður útgerðarmönnum um laun og atvinnu og gat því beitt sér fyrir félagið án þess að eiga á hættu atvinnumissi. Það höfðu forystumennirnir í Súðavík mátt reyna.

Eldskírn sína fékk Verkalýðsfélag Álftfirðinga, eins og það hét fyrstu árin, í harðvítugu verkfalli vorið 1931. Verkfalli var lýst yfir til að knýja Grím Jónsson til að undirrita samning við félagið. Um sama leyti komu tvö vöruskip í fjörðinn hlaðin timbri og salti. Verkalýðsfélagið ákvað að koma í veg fyrir uppskipun, en aðrir, aðallega sjómenn, voru ráðnir til verksins í staðinn. Saltinu var skipað upp í árabáta og þeim róið að lausri bryggju í fjörunni, þaðan sem pokarnir voru bornir í pakkhús kaupmannsins. Kom þá til áfloga í fjöruborðinu í Súðavík þar sem karlar og konur úr verkalýðsfélaginu veltu byrðunum af þeim sem unnu að uppskipuninni og reyndu þannig að framfylgja boðuðu verkfalli. Eftir nokkur átök urðu verkfallsmenn frá að hverfa sökum liðsmunar. Þegar fréttist að erindreki Alþýðusambands Íslands væri á leiðinni til Súðavíkur til að stýra verkfallinu ákvað útgerðarmaðurinn tveim dögum síðar að undirrita samninga við félagið og viðurkenna það þannig í raun. Tímakaupið hækkaði í 1 krónu hjá karlmönnum, en hafði yfirleitt verið 60-80 aurar áður.

Sjómenn í Súðavík gengu fljótlega til liðs við félagið, og stofnuðu um tíma sérstaka sjómannadeild. Nafni félagsins var þá breytt í Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga. Sjómenn gerðu verkfall haustið 1935 sem stóð í þrjá mánuði, allt til nýjárs 1936. Helstu kröfur sjómanna voru að fá uppgert mánaðarlega og laun greidd í peningum, en slíkt hafði ekki tíðkast í Álftafirði fram að því. Verslanir í Súðavík ýmist lokuðu eða tæmdust í verkfallinu, enda í eigu útgerðarmanna og leituðu verkfallsmenn þá til verkalýðssamtakanna á Ísafirði og í Reykjavík og fengu aðstoð þaðan þegar komið var fram á jólaföstu. Tókst að ná fram helstu kröfum sjómanna í þessari vinnudeilu.

Frá þessum tíma hafa sjaldan orðið hörð verkfallsátök í Súðavík. Kaup og kjör urðu sambærileg og á öðrum stöðum á Vestfjörðum í sameiginlegum samningum Alþýðusambands Vestfjarða bæði á landi og á sjó. Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga hefur yfirleitt verið samstíga öðrum félögum á Vestfjörðum og tók meðal annars þátt í verkfalli fimm ASV-félaga vorið 1997. 

Samkomuhúsið í Súðavík.

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga hefur tekið þátt í félags- og menningarmálum Súðvíkinga frá stofnun. Það átti forgöngu um byggingu Samkomuhúsins í Súðavík árið 1930, meðan Hannibal Valdimarsson var formaður þess. Bætti það úr brýnni þörf fyrir kennsluhúsnæði og til guðsþjónustu-, samkomu- og fundahalds í hreppnum. Verkalýðsfélagið hefur staðið að rekstri samkomuhússins, sem hefur þjónað menningar- og félagslífi Súðvíkinga allt fram á þennan dag.

Formenn Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga hafa verið:

  • Halldór Guðmundsson 1428 – 1929 og 1943 – 1944
  • Hannibal Valdimarsson 1930 – 1931
  • Jón Gíslason 1932 – 1934
  • Ásgrímur Albertsson 1935
  • Kristóbert Rósinkarsson 1936
  • Ólafur Jónsson 1937, 1942 og 1945 – 1946
  • Þórður Jónsson 1938 – 1941
  • Albert Kristjánsson 1947 –
  • Bjarni Guðnason
  • Hálfdán Kristjánsson
  • Heiðar Guðbrandsson
  • Hafsteinn Númason
  • Eiríkur Ragnarsson
  • María Kristófersdóttir

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002.

Heimildir um Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga:
Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 33.
Halldór Guðmundsson, „Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga 20 ára.“ Vinnan 6.árg. 1948, 10.-11. tbl., bls. 238-241.
„Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga.“ Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 59-60.

ÍsafjörðurSveinafélag byggingarmanna, Ísafirði var stofnað þann 16. október árið 1980. Nefndist félagið í fyrstu Sveinafélag byggingariðnaðarmanna á Ísafirði. Á stofnfundi mættu 23 húsasmiðir, húsgagnasmiðir, múrarar, píparar og málarar. Pétur Sigurðsson forseti ASV hafði forgöngu um stofnun félagsins og hafði framsögu á fundinum. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Gunnar Pétur Ólason húsasmiður.

Sveinafélagið gerðist þegar meðlimur í Alþýðusambandi Vestfjarða, en gekk einnig í Samband byggingarmanna, og þar með Alþýðusamband Íslands. Samband byggingamanna myndaði síðar ásamt fleiri iðnfélögum Samiðn, landssamband fagfélaga í iðnaði.

Sveinafélag byggingamanna, Ísafirði, hefur sinnt kjara- og samningamálum félagsmanna. Það gerðist aðili að endurmenntunarsjóði bygginngar- og tréiðnaðarmanna árið 1991 og hefur staðið fyrir fjölmörgum námskeiðum fyrir byggingamenn. Félagið keypti árið 1991 sumarhús í orlofsbyggð verkalýðsfélaganna í Vatnsfirði.

Byggingamenn að störfum 2002.

Árið 2002 var samþykkt á félagsfundi að Sveinafélagið gengi til samstarfs við átta önnur verkalýðsfélög á Vestfjörðum um stofnun sameiginlegs félags. Byggingamenn mynda sérstaka deild í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Formenn félagsins frá 1980 voru Gunnar P. Ólason frá stofnun þess til 1987 og Guðjón K. Harðarson frá 1987 til 2002.

Heimildir:

  • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, deild 27.

Hávarður Ísfirðingur, síðar Skutull, smíðaður.Sjómannafélag Ísfirðinga var stofnað 5. febrúar 1916. Fyrsti formaður þess var Eiríkur Einarsson, en aðrir í stjórn voru Sigurgeir Sigurðsson, Jón Björn Elíasson og Jónas Sveinsson. Á stofnfundinum voru skráðir í félagið 75 meðlimir, samkvæmt fundargerðabók, en fram að næsta fundi bættust við 34, þannig að stofnfélagar teljast 109. Félagar hafa lengst af verið hátt á annað hundrað, en mest um þjú hundruð á árum eftir síðari heimsstyrjöld.

Í fyrstu hét félagið Hásetafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt á fundi 23. október 1921, til samræmis við sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Félagið sótti um inngöngu í Alþýðusamband Íslands árið 1921, en virðist ekki hafa verið samþykkt fyrr en 18. febrúar 1924. Sjómannafélagið var meðal stofnenda Alþýðusambands Vestfjarða (Verklýðssambands Vesturlands) árið 1927 og félagið gekk í Sjómannasamband Íslands eftir 1970.

Sjómannafélag Ísfirðinga hefur frá stofnun þess 1916 unnið að bættum hag sjómannastéttarinnar á ýmsum sviðum, bæði með samningagerð, en einnig afskiptum af öryggismálum og öðrum þeim málum sem snúa að bættum hag og lífskjörum félagsmanna. Má þar nefna sjómannafræðslu, sundlaugarbyggingu og lífeyrismál.

Ísafjörður kringum 1930.

Félagið náði samningum við útgerðarmenn á Ísafirði á fyrst starfsári sínu 1916, og var það í fyrsta sinn sem atvinnurekendur viðurkenndu samningsrétt verkalýðsfélags í bænum. Næstu ár versnuðu hinsvegar aðstæður útgerðarinnar og erfitt reyndist að koma á samningum. Fyrsta verkfall félagsins vorið 1920 breytti þar engu um, hásetafélagið aflýsti verkfallinu án þess að ná fram sínum kröfum. Sjómannafélag Ísfirðinga náði fram ýmsum baráttumálum sjómanna eftir að Samvinnufélag Ísfirðinga var stofnað, svo sem kauptryggingu árið 1936 og það átti verulegan þátt í því að koma á heildarsamningum um kjör sjómanna á Vestfjörðum árið 1952. Voru þeir samningar í ýmsu betri en aðrir samningar sjómanna á landinu.

Júlíus Geirmundsson, fyrsti skuttogari Ísfirðinga, smíðaður í Noregi 1972, 407 brl.

Sjómannafélagið átti ríkan þátt í stofnun Samvinnufélags Ísfirðinga árið 1927, undir forystu Eiríks Einarssonar sem hafði eftirlit með byggingu sjö báta félagsins í Noregi og Svíþjóð. „Birnirnir“ komu til heimahafnar árin 1928 og 1929. Sjómenn ásamt verkafólki stóðu að byggingu Alþýðuhússins á Ísafirði 1934-1935, og var Eiríkur Finnbogason annar helsti forsvarsmaður húsbyggingarinnar með Hannibal Valdimarssyni formanni verkalýðsfélagsins Baldurs. Styrktarsjóður Sjómannafélagsins er annar eigandi hússins.

Sjómannafélagið ásamt öðrum félögum sjómanna og útgerðarmanna á Ísafirði stóð að Sjómannadagsráði frá árinu 1938 – 1993, sem haldið hefur hátíðlegan Sjómannadaginn. Þá kaus félagið fulltrúa í 1. maí nefnd stéttarfélaganna á Ísafirði og í Jólatrésnefnd um áratugaskeið.

Formenn félagsins hafa verið:

  • Eiríkur Einarsson 1916, 1918-1919, 1924-1925, 1927
  • Pálmi Kristjánsson 1917
  • Ólafur Ásgeirsson 1920-1921
  • Sigurvin Hansson 1921-1923
  • Sigurður Ingvarsson 1925-1926
  • Ingólfur Jónsson 1927-1930
  • Pjetur Sigurðsson 1930-1931
  • Eiríkur Finnbogason 1931-1936 (lést 24.11.1936)
  • Bjarni Hansson 1936
  • Árni Magnússon 1937-1942
  • Kristján Kristjánsson (lóðs) 1942-1943
  • Ólafur Þórðarson 1943-1944
  • Jón H. Guðmundsson 1944-1959, 1962-1963
  • Sigurður Kristjánsson 1959-1962
  • Guðjón Jóhannesson 1963-1969
  • Bjarni L. Gestsson 1969-1970
  • Guðmundur Gíslason 1970-1974 (lést 29.11.1974)
  • Ágúst Ingi Ágústsson 1975-1977
  • Jón Grímsson 1977-1978
  • Gunnar Þórðarson 1979-1981
  • Sigurður Ólafsson 1982-1999
  • Sævar Gestsson 2000-2005

Félagar í Sjómannafélag Ísfirðinga samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk 15. janúar 2005 að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. 54 félagsmenn af 107 tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og samþykktu 45 sameininguna. Sjómannafélagið starfar áfram sem deild í hinu sameinaða félagi. Formaður deildarinnar árið 2005 er Sævar Gestsson.

Prentaðar heimildir um Sjómannafélag Ísfirðinga:

  • Sigurður R. Ólafsson, Sjómannafélag Ísfirðinga. Stjórn og nefndir 5.febrúar 1916 – 26. desember 1999. (Fjölrit 1999).
  • „Sjómannafélag Ísfirðinga.“ Vinnan, afmælishefti 1966. Útgefandi Alþýðusamband Íslands. Bls. 50.
  • Sigurður Pétursson. „Bolsarnir byltast fram. Uppgangur verkalýðshreyfingar og valdataka Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985. 28. ár. Ísafirði 1985, bls. 39-76.
Ísing á togara. Ísingin var einhver mesta vá sem steðjaði að sjómönnum á síðutogurunum. Í frosti og ágjöf hlóðst ísinn á vanta og stög, sem mikið var af á þessum skipum. Þá varð að berja ísinn af, oft við ótrúlega erfiðar aðstæður. Annars gat skipið orðið yfirþungt og oltið.
Ísing á togara. Ísingin var einhver mesta vá sem steðjaði að sjómönnum á síðutogurunum. Í frosti og ágjöf hlóðst ísinn á vanta og stög, sem mikið var af á þessum skipum. Þá varð að berja ísinn af, oft við ótrúlega erfiðar aðstæður. Annars gat skipið orðið yfirþungt og oltið.