Betri vinnubrögð – aukinn ávinningur – Samkomulag í höfn!

Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu í dag undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Markmið samkomulagsins er að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta. Með samkomulaginu er lagður grunnur að sátt á vinnumarkaði, auknu samstarfi og minni átökum. Ennfremur er stefnt að auknum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika í landinu.
Samkomulagið er afrakstur af vinnu svokallaðs SALEK-hóps, þar sem eiga sæti helstu viðsemjendur á almennum og opinberum vinnumarkaði. Undir forystu ríkissáttasemjara hefur hópurinn unnið að því undanfarin þrjú ár að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi til að tryggja atvinnulífinu stöðugleika og launafólki auknum ávinningi að norrænni fyrirmynd. Ástæður þess að aðilar eru sammála um að breytinga sé þörf eru m.a. eftirfarandi.

Þrátt fyrir næstum tvöfalt meiri launahækkanir á Íslandi hefur kaupmáttur aukist helmingi minna en á hinum Norðurlöndunum á síðustu 15 árum. Uppsafnað munar þetta ríflega 14% í hreinum kaupmætti á þessum árum.
Verðbólga á Íslandi hefur verið þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum síðustu 15 árin.
Frá aldamótum hefur gengi krónunnar fallið um 50% en gengi mynta hinna Norðurlandanna haldist nánast óbreytt gagnvart evru.
Vegna mikillar verðbólgu og efnahagslegs óstöðugleika á Íslandi hafa vextir að jafnaði verið þrefalt hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Nýtt samningalíkan gerir ráð fyrir eftirfarandi:

Svigrúm til launabreytinga verður skilgreint út frá samkeppnisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum.
Fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða í samkeppni við innflutning móta svigrúm til launabreytinga.
Jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði
Opinberum starfsmönnum verður tryggð hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkaði
Kjarasamningar miða að því að auka kaupmátt á grundvelli stöðugs gengis.

Aðilar samkomulagsins skuldbinda sig til þess að ljúka gerð kjarasamninga til ársloka 2018 en að þeim tíma loknum verði nýtt vinnumarkaðslíkan tekið í notkun.
Nánar á ASÍ