Vöruverð hækkar milli ára

Þegar bornar eru saman verðkannanirnar sem verðlagseftirlitið framkvæmdi í maí 2015 og nú í apríl 2016 má sjá að mjólkurvörur, ostar, kjötvörur og drykkjarvörur hafa almennt hækkað á milli kannana en innfluttar vörur í flestum tilvikum lækkað í verði. Af þeim vörum sem bornar eru saman í þessum tveimur mælingum má sjá þessar verðbreytingar endurspeglast í öllum verslunum. Á tímabilinu hefur almennt verðlag verið stöðugt og gengið styrkst um 9%.
Miklar verðhækkanir á mjólkurvörum á milli ára
Í öllum verslunum hefur vöruflokkurinn ostur, viðbit og mjólkurvörur hækkað en þar má m.a. sjá mikla hækkun á stoðmjólk eða á bilinu 4% – 9%. Þá hefur KEA kókosskyr, 200 g. hækkað um allt að 11%, 400 g. af MS rjómaosti til matargerðar hefur hækkað um allt að 8% og 250 g. af ósöltuðu smjöri hefur hækkað um 9% til 17%. Athygli vekur að nær allar vörur sem skoðaðar vöru í þessum vöruflokki hafa hækkað í verði í öllum verslunum á tímabilinu að undanskildu innflutta viðbitinu Bertolli sem hefur lækkað um allt að 7%.
Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miðast við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 11.5.2015. og 4.4.2016. Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Hagkaupum, Víði og Iceland.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Samanburð milli verslana og tímabili má skoða á töfluformi hér