Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands fagnar eins prósentustiga vaxtalækkun sem Seðlabankinn kynnti í morgun. „Við höfum barist fyrir vaxtalækkun lungan úr þessu ári og lækkunin núer í takt við það samkomulag sem við gerðum við stjórnvöld og óbeint við Seðlabanka í Stöðugleikasáttmálanum. Það er alveg ljóst að hátt vaxtastig hefur hamlað uppbyggingu atvinnulífsins sem er aftur forsenda þess að við komumst út úr kreppunni. Þetta er því skref í rétta átt og mikilvægt að halda áfram á sömu braut, því það hafa verið að koma fram upplýsingar um að samdrátturinn í efnahagskerfinu sé minni en óttast var. Það er því mikilvægt að blása lífi í þær glæður með frekari lækkun vaxta. Þannig getum við komist fyrr út úr kreppunni. Í desember í fyrra voru stýrivextir 18% og nú eru þeir komnir í 10%. Mínar vonir standa til þess að á sama tíma að ári geti vaxtamunur á við evrusvæðið verið komin niður í 3-4% þannig að við verðum orðin samkeppnishæf við Evrópu í vöxtum,” segir Gylfi Arnbjörnsson.Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu ASÍ