Ályktun um fjárlagafrumvarp og ráðstafanir í ríkisfjármálum
Miðstjórn ASÍ telur óhjákvæmilegt að ráðast í það erfiða verkefni að taka á hallarekstri ríkissjóðs. Ljóst er að það tekur nokkur ár að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi. Miðstjórnin leggur á það áherslu að stjórnvöld leggi fram tillögur sem taka á því hvernig jafnvægi verði komið á ríkisreksturinn á næstu árum og óvissu verði þannig eytt. Miðstjórnarfundur haldinn 17. desember 2008 telur afar mikilvægt að varin verði staða þeirra sem minnst mega sín við þessar erfiðu aðstæður, s.s. elli- og örorkulífeyrisþega. Í þeim ráðstöfunum sem kynntar hafa verið vantar verulega á að þetta hafi verið gert. Heildarsamtök launafólks ákváðu því í síðustu viku að fresta öllum viðræðum um endurskoðun og gerð nýrra kjarasamninga vegna áranna 2009 og 2010 fram yfir áramót. Ef takast á að skapa ásættanlegan grundvöll að slíkri vinnu telur miðstjórn ASÍ nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á eftirfarandi þáttum:
Dregið verði úr niðurskurði vegna elli- og örorkulífeyris með upptöku frítekjumarks vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.
Unnið verði á næstu vikum að tillögum um það hvernig auka megi tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins.
Sett verði lög um greiðsluaðlögun sem heimili niðurfærslu og skilmálabreytingu á húsnæðisskuldum heimilanna.
Stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna til að auðvelda niðurfærslu húsnæðisskulda.
Settur verði starfshópur með fulltrúum byggingarmanna til að fara yfir verklegar framkvæmdir og forgangsraða mannaflsfrekum framkvæmdum.
Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn njóti sömu lífeyrisréttinda og aðrir opinberir starfsmenn.
Staðið verði við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008.
Tekið af vef ASÍ