Minnum á kosningu um nýjan kjarasamning Súðavíkur- og Reykhólahreppa

Kosningin stendur til kl. 12:00 á fimmtudag og eru félagsmenn hvattir til að kjósa í tíma. Nú hafa aðeins 15,3% félagsmanna kosið, ekki láta tímann hlaupa frá okkur!
Helstu atriði samningsins eru:

Launahækkanir:

o Jan. 2020 kr. 17.000.
o Apr. 2020 kr. 24.000.
o Jan. 2021 kr. 24.000.
o Jan. 2022 kr. 25.000.
o Jan. 2023 tekur ný launatafla gildi sem hefur í för með sér launahækkun sbr. alm. markaðinn.

Útborgun launa færist þannig til að beri fyrsta dag mánaðar upp á helgidag skuli greiða út laun síðasta virka dag á undan.
Eingreiðsla kr. 105.000 fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall, en þessi greiðsla er auk fyrirframgreiðslunnar kr. 125.000 sem var greidd í fyrra. Samtals eingreiðsla til starfsmanna Súðavíkur- og Reykhólahreppa er þá kr. 230.000.
Stytting vinnuviku um 180 mínútur án launaskerðingar.
Persónuuppbætur koma í stað orlofs- og desemberuppbóta og verða:

o des. 2019 kr. 115.850.
o maí 2020 kr. 50.450.
o des. 2020 kr. 118.750.
o maí 2021 kr. 51.700.
o des. 2021 kr. 121.700.
o maí 2022 kr. 53.000.
o des. 2022 kr. 124.750.
o maí 2023 kr. 54.350.

Lágmarksorlof verður 30 dagar og reiknast ávinnslan frá 1. janúar 2020.
Gert er ráð fyrir að orlofstöku ljúki að fullu á orlofsárinu.
Fái starfsmenn ekki orlof á sumarorlofstíma að ósk vinnuveitanda reiknast 25% álag á þann hluta sem tekinn er utan sumarorlofstíma.
Skilgreint er hvernig skuli greiða fyrir ferðir með nemendur og skjólstæðinga.
Aukið er við vinnufatnað við ræstingar og starfsfólk íþróttahúsa og sundstaða.
Greitt verður fyrir kr. 20 á unna klst þar sem krafist er borgaralegs fatnaðar við vinnu.
Skilgreint er persónuálag fyrir menntun á framhaldsskólastigi og fyrir meistarabréf í iðngrein.
Heimilt verður að veita starfsmanni sem starfað hefur skv. þessum samningi samfellt í þrjú ár launað leyfi í samtals 3 mánuði til að stunda viðurkennt nám sem veitir starfsréttindi.
Skilgreint verður hvernig skuli fara með ráðningar eftir 70 ára aldur.
Rýmri réttindi vegna veikinda barna og vegna mæðraskoðunar.
Greiðslur í sjúkrasjóð hækka í 0,6%. Tímabundið hækka greiðslur í sjúkrasjóð í 1,2% vegna Covid-19.
Launamaður fær 1,5% allra launa lögð inn í sérstakan Félagsmannasjóð ofan á launin. Stofnframlag verður í þennan sjóð kr. 61.000 miðað við fullt starf, og hlutfallslega fyrir þá sem eru í lægra starfshlutfalli. Tímabil til viðmiðunar fyrir stofngreiðslu er 1. apr. 2019 til 1. feb. 2020. Útfærsla á þessu atriði er í vinnslu hjá ASÍ og SNS.
Hagvaxtarauki reiknast á laun verði hagvöxtur hagstæður.
Launaþróunartrygging tengir laun við almenna markaðinn svo starfsmenn sveitarfélaga sitji ekki eftir.