Sú staða sem er uppi í samningaviðræðum lögreglumanna við ríkisvaldið er með öllu óboðleg og ríkisvaldinu ekki til sóma. Lögreglumenn eru með lausa samninga og enn hefur forystufólk ríkisstjórnarinnar ekki staðið við yfirlýsingar  sem lögreglumönnum  hefur verið  lofað.  Staða þessi er mjög alvarleg, sér í lagi þar sem lögreglumenn njóta ekki þeirra sjálfsögðu mannréttinda að hafa verkfallsrétt.

Flestum er kunnugt hversu mikilvægu hlutverki lögreglumenn gegna í samfélaginu, þeirra störf eru oft á tíðum unnin við hættulegar og krefjandi aðstæður á vettvangi slysa, glæpa og náttúruhamfara. Þegar við höldum okkur heima, þá eru lögreglumenn sendir á vettvang.

Í Covid faraldrinum sem nú gengur yfir hefur mikið mætt á lögreglumönnum og þeir berskjaldaðir fyrir þeirri vá vegna nálægðar við skjólstæðinga sína. Þær aðstæður sem lögreglumenn vinna við og sú vinna sem þeir inna af hendi alla daga skipar þeim klárlega í Framlínusveit Íslands.

Af fréttum undangengnar vikur hefur sú staða legið í loftinu að algjört áhugaleysi ríki í herbúðum samninganefndar ríkisins. Mögulega gæti þar spilað stórt hlutverk að lögreglan hefur ekkert verkfallsvopn í að grípa. Að sýna fólki slíkt virðingaleysi er með öllu óskiljanlegt ef rétt reynist.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga skorar því á ríkisstjórn Íslands og samninganefnd ríkisins við Landssamband Lögreglumanna að setjast strax að samningaborðinu og sýna lögreglumönnum þann sóma sem þeir sannarlega eiga skilið í störfum sínum fyrir land og þjóð .

Að lokum hvetur félagið önnur stéttarfélög til að sýna lögreglumönnum stuðning í baráttu þeirra fyrir leiðréttingu á kjörum sínum.

Með vinsemd og virðingu,

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga .

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.