miðvikudagurinn 11. nóvember 2015

Bónus Ísafirði var oftast með lægsta verðið

Mynd. heilshugar.com
Mynd. heilshugar.com

Bónus Ísafirði var oftast með lægsta verðið og Iceland Engihjalla var oftast með hæsta verðið í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum, mánudaginn 9. nóvember. Kannað var verð á 112 algengum vörum til baksturs og konfektgerðar.

Iceland var oftast með hæsta verðið eða í 45 tilvikum af 112 og Samkaup-Úrval Miðvangi í 34 tilvikum. Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 37 tilvikum af 112, Krónan í 27 tilvikum og Fjarðarkaup í 19. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru, voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum eða 105 af 112 og næstflestar hjá Iceland eða 104. Minnsta úrvalið var hjá Bónus eða aðeins um helmingur þeirra vara sem skoðaðar voru í könnuninni.

Af þeim bökunarvörum sem könnunin náði til og voru fáanlegar í öllum verslunum má nefna nokkur dæmi um verðmun. Appelsínusúkkulaði frá Nóa Síríus 100 gr. var ódýrast á 174 kr. hjá Bónus, en dýrast á 209 kr. hjá Iceland sem er 20% verðmunur. Þurrkuð epli frá Hagver 250 gr. voru dýrust á 479 kr. hjá Iceland en ódýrust á 353 kr. hjá Fjarðarkaupum sem er 36% verðmunur. 500 gr. af flórsykri frá Dansukker var dýrastur á 249 kr. hjá Iceland en ódýrastur á 149 kr. hjá Bónus og Krónunni sem er 67% verðmunur. Að lokum má nefna að vanilludropar frá Kötlu voru dýrastir á 206 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrastir á 149 kr. hjá Bónus og Krónunni sem er 38% verðmunur.

Nánari upplýsingar heimasíðu ASÍ.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.