fimmtudagurinn 11. apríl 2019

Hvert atkvæði skiptir máli!

Nýjir kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verzlunarmanna við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir 3. apríl og fengu nafnið Lífskjarasamningar.  Aðgerðarpakkinn sem ríkisstjórnin kom með að borðinu á loka metrunum reyndist lykillinn að því að hægt var að ljúka við gerð nýrra kjarasamninga.

Við sem tókum þátt í að móta samningana teljum þá munu koma lægst launaða hópnum á vinnumarkaði best. Enda var lögð sérstök áhersla á að bæta hag ungs fólks og tekjulágra. Sömuleiðis er samið um fastar krónutöluhækkanir og þannig hlutfallslega meira fyrir þá sem eru á taxtalaunum.

Fleiri baráttumál verkalýðshreyfingarinnar komu inn í samingana, svo sem stytting vinnuvikunnar, aðgerðir í húsnæðismálum, lágtekjuþrep í skattkerfinu, lengingu fæðingarorlofs og aðgerðir til afnáms verðtryggingar. Samningarnir eiga líka að skapa góð skilyrði til vaxtalækkana og hagvaxtaaukningar sem skilar sér að lokum í auknum kaupmætti til allra.

Sjaldan eða aldrei hafa fleiri félagsmenn í Verk Vest tekið þátt í að móta kröfugerð félagsins. En á sjöunda hundrað félagsmanna Verk Vest kom með einum eða öðrum hætti að mótun kröfugerðar félagsins. Nú er komið að síðasta skrefinu, sem er að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamningana. Aðeins með þeim hætti geta félagsmenn sagt sitt álit á samningunum. Það eru félagsmenn Verk Vest sem eiga síðasta orðið í þessum efnum.

Rétt er að benda á að ekki er búið að semja fyrir félagsmenn okkar sem starfa á bændabýlum, hjá ríkisstofnunum, sveitarfélögum og við beitningu.  Þá er einnig ósamið hjá iðnaðarmönnum og fyrir starfsfólk Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.

Eingöngu þeir félagsmenn í Verk Vest sem starfa eftir samningum SGS á almenna markaðnum sem og verslunar- og skrifstofufólk eiga taka þátt í atkvæðagreiðslunni. 

Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram á www.verkvest.is og hefst kl.13:00 þann 12. apríl og lýkur klukkan 16:00 þann 23. apríl.

Stöndum saman og tökum þátt í atkvæðagreiðslunni. Hvert atkvæði skiptir máli!

Baráttukveðjur,

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.