mánudagurinn 8. ágúst 2016

Íslenskir atvinnurekendur ekki barnanna bestir

Ólaunuðum starfsmönnum hvort sem þeir kallast sjálfboðaliðar eða starfsnemar hefur fjölgað hratt síðustu misseri í íslensku atvinnulífi. Mest ber á slíku í ferðaþjónustu, landbúnaði og við barnagæslu og heimilisaðstoð. Ásókn erlendra ungmenna í sjálfboðaliðastörf hér á landi er einn fylgifiskur þess að Ísland er komið á kortið sem ferðamannaland. Þetta segir Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Alþýðusambandi Íslands.

Ungt fólk í ævintýraleit

„Atvinnurekendur brjóta því meðvitað og ómeðvitað lög í landinu með því að vera með ólaunaða starfsmenn og þau erlendu ungmenni sem ráðin eru á slíkum forsendum eru yfirleitt í ævintýraleit og gera sér enga grein fyrir því að verið sé að brjóta á þeim,“ segir Dröfn.

Alþýðusamband Íslands hefur undir merkjum verkefnisins „Einn réttur, ekkert svindl!“ unnið að því að upplýsa og leiðbeina atvinnurekendum um hvað á við þegar ráðnir eru erlendir starfsmenn. Margs konar misskilningur og fáfræði virðist vaða uppi þó eðlilegt sé að gera þá kröfu á þá sem standa í rekstri og ráða til sín erlenda starfsmenn að þeir kynni sér þau lög og reglur sem um slíkt gilda að sögn Drafnar. Á heimasíðu ASÍ má nálgast bæklinginn „Ráðning erlendra starfsmanna“.

Getur verið dýrkeypt að hafa ólöglegan vinnukraft

„Margir atvinnurekendur telja sig vera að gera þessu unga fólki mikinn greiða og skilja ekki hvert vandamálið er því fólkið er svo ánægt og hrifið af landinu. Oft heyrum við að sjálfboðaliðarnir séu bestu starfsmenn sem viðkomandi hafi haft. Yfirleitt eru sjálfboðaliðarnir hvergi skráðir, eru ekki með kennitölu, alveg ótryggðir sem getur reynst dýrt spaug ef slys verða á vinnustað. Nokkur fjöldi þessara starfsmanna er frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og þarf því atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Ekki eru greiddir skattar fyrir fæði og húsnæði sem yfirleitt er eina greiðslan fyrir vinnuna. Í flestum tilfellum eru þessir starfsmenn því ekki bara launalausir heldur réttindalausir, algerlega upp á vinnuveitanda sinn komnir,“ segir Dröfn.

Starfsnemar koma ekki í stað annarra starfsmanna

Sem viðbrögð við neikvæðri umræðu um sjálfboðaliða virðist færast í vöxt að kalla ólaunaða starfsmenn „starfsnema“. Starfsnemar eiga að vera í námi og ekki er ætlast til þess að þeir vinni einir eða beri ábyrgð segir Dröfn.

„Starfsnemar geta því aldrei komið í stað eða gengið í störf annarra starfsmanna. Langt í frá öll fyrirtæki geta tekið á móti starfsnemum og er eðlilegt að þau sem slíkt gera hafi viðeigandi viðurkenningu menntamálayfirvalda. Það þarf að vera fyrir hendi faglærður leiðbeinandi sem hefur fengið þjálfun í leiðbeiningu nýliða. Það verður að vera fyrir hendi samningur milli viðkomandi skóla og fyrirtækis þar sem m.a. er tekið til tímalengdar samningsins, starfskjara nemans, trygginga og réttinda“.

Hægt er að nálgast greinina í heild sinni á vef ASÍ

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.