Í upphafi nýs árs þykir okkur hjá Verk Vest mikilvægt að rifja upp að rauði þráðurinn í áróðursmaskínu atvinnurekenda í hinni svokölluðu Kovíd-kreppu hafi verið að nú ætti launafólk að sýna ábyrgð. Helsta lausn atvinnurekenda í þeim efnum, þegar efnahagshrun og atvinnuleysi sem dundi yfir í kjölfar Covid19, var í raun að taka kajarasamninga úr sambandi og fresta eða fella niður umsamdar launahækkanir. Með þeim hætti átti svipta launafólk kjarasamningsbundnum réttindum og þar með einnig stuðla að djúpfrystingu hagkerfisins á sama tíma og hrun blasti við fjölmörum atvinnugreinum.

Starfsemi Verk Vest var því með mjög breyttu sniði árið 2020 þegar Covid-19 smitum í samfélaginu fór fjölgandi með tilheyrandi samkomutakmörkunum. Helstu áskoranir vegna Covid-19 var að sinna öllu því fjölbreytta starfi fyrir félagsmenn sem og kjarasamningsviðræðum ásamt því að verja réttindi félagsmanna við þessar flóknu aðstæður. Sem dæmi má nefna að skrifstofur félagsins voru alveg lokaðar í 6 vikur í apríl og maí og aftur frá 3. nóvember. Þó svo heimsóknarbann væri á skrifstofum þá var full starfsemi í gangi og var reynt að þjónusta félagsmenn af fremsta megni miðað við aðstæður.

Félagið tók þátt í stórum kjaraviðræðum á árinu, við Fjármálráðuneytið vegna starfsfólk á ríkisstofnunum og var kjarasamningur við Fjármálaráðuneytið  undirritaður og samþykktur í mars. Við Samband sveitafélaga vegna starfsfólk hjá sveitafélögum náðist loks að undirrita kjarasamning 16. janúar 2020 en viðræður höfðu staðið linnulítið frá vorinu 2019.

Sú fáheyrða staða kom þó upp í viðræðum við Samband sveitafélaga að tveim litlum sveitafélögum var vísað úr sambandinu þar sem þau höfðu brugðist vel við hvatningu Verk Vest um að greiða krónutölu eingreiðslu vegna tafa á samningsgerð við Samband sveitafélaga. Fór svo að Verk Vest gerði sjálfstæða kjarasamninga við Reykhóla- og Súðavíkurhrepp þar sem starfsfólki þeirra var tryggð meiri stytting vinnuvikunnar umfram það sem náðist hjá öðrum sveitafélögum, auk þess sem eingreiðsla vegna tafa við gerð kjarasamnings var mun hærri hjá umræddum sveitafélögum. 

Stytting vinnuvikunnar var stóra krafan í kjarasamningi við ríki og sveitfélög en styttingin tók gildi 1. janúar 2021.  Miklar vonir eru bundnar við að með styttingu vinnuvikunnar verði brotið blað í vinnustaðamenningu í umhverfi opinberra starfsmanna.

Kjaraviðræður sjómanna hafa ekki farið hátt vegna deilna stéttarfélaga sjómanna við útgerðarmenn sem einhliða hafa gengið á bak undirritaðra ákvæða kjarasamnings frá 2017. Með framferði sínu var kallað eftir samstöðu meðal stéttarfélaga sjómanna innan ASÍ og samþykkti samninganefnd sjómanna hjá Verk Vest að afhenda Sjómannasambandinu samningsumboð í kjaraviðræðum við útgerðina. Slíkt hafði ekki gerst frá stofnun Verk Vest.

Þrátt fyrir harðvítug átök og varnarbaráttu um réttindi launafólks þá spyr náttúran ekki um stund né stað þegar áföllin dynja yfir. Fengu Vestfirðingar enn og aftur að finna fyrir ógnarkröftum náttúruaflanna í janúar mánuði þegar mikil snjóflóð dundu yfir Flateyri og í Súgandafirði. Mikil mildi var þegar fréttir bárust af giftulegri mannbjörg á Flateyri þar sem björgunarsveitarfólk vann mikið þrekvirki við björgunarstörf. Í náttúruhamförunum varð gífurlegt eignartjón, sérstaklega á Flateyri þar sem nánast allur bátafloti Flateyringa þurrkaðist út í gríðar miklu snjóflóði sem féll í höfnina. Var þar höggvið enn eitt skarðið í atvinnulíf Flateyringa.

það voru ekki bara óblíð náttúruöfl sem herjuðu á okkar fólk en atvinnurekendur beittu ýmsum brögðum til að taka kjarasamningsbundin réttindi af starfsfólki og notuðu “covid19 kreppuna” ítrekað sem skálkaskjól til að fremja hin margvísustu brot á launafólki. Svo rammt kvað að þessum óþverra að formannafundur Starfsgreinasambandsins sá tilefni til að senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

"Til stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins um land allt  berast nú mikið af fyrirspurnum og athugasemdum vegna uppsagna, fyrirvaralausra breytinga á vaktafyrirkomulagi og fjölmargra annara atriða sem snúa að vinnufyrirkomulagi og réttindum fólks samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Að gefnu tilefni ítrekar Formannafundur Starfsgreinasambandsins að allar breytingar á að vinna í fullu  samráði við starfsfólk og skorar á atvinnurekendur að nýta sér ekki núverandi aðstæðurnar til að fara á svig við gildandi kjarasamninga og brjóta á réttindum launafólks. Slíkt framferði er algerlega óásættanlegt og verður mætt af fullum þunga af hálfu félaga innan SGS Starfsgreinasambands Íslands."

Allar aðgerðir stjórnvalda í Covid-kreppunni miðuðu að því að tryggja fjármuni og völd fjármagns eigenda á sama tíma og almennt launafólk átti að taka skellinn með skertu starfshlutfalli og hlutabótaleið stjórnvalda. Má með sanni segja að stór hluti atvinnulífsins sem undanfarin ár hafði greitt sér og eigendum tugi og hundruði milljarða í arð hafi verið komið á ríkisspenann sem dældi tugum milljarða inn í atvinnulífið í formi bóta og niðurfellingu skatta. Á sama tíma voru um 33 þúsund einstaklingar á hlutabótaleiðinni á skertum launum.

Holskefla uppsagna dundi yfir og atvinnuleysistölur eru enn í hæstu hæðum á landsvísu og voru um 21 þúsund atvinnulausir um liðin áramót. Alvarlegast er að þeir sem minnst mega sín verða harðast fyrir áföllunum og missa vinnuna fyrst. Um 43% atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar og þá eru ótaldir þeir sem eru af erlendu bergi með íslenskt ríkisfang sem einnig urðu illa úti í uppsögnum. Launafólk á Vestfjörðum fann ekki eins áþreifanlega fyrir vaxandi atvinnuleysi og suðvestur hornið, en atvinnuleysi á Vestfjörðum var rúm 4% um liðin áramót.

Birtingamynd þegar kreppir að á vinnumarkaði er margvísleg og má þar nefna aukin óleyfis búseta þar sem fólki, oftast af erlendum uppruna, er komið fyrir í ósamþykktu húsnæði. Þar er ekki eingöngu verði að tala um farandverkafólk heldur einnig fjölskyldufólk með börn sem eru jafnvel á skólaldri. Aðbúnaðurinn er oft á tíðum skelfilegri en orð fá lýst og búpeningi væri jafnvel ekki boðið upp á slíkan ófögnuð. Því miður finnast dæmi um slíkan aðbúnað hér á Vestfjörðum þó ekki sé um gróf brot að ræða.

Ójöfnuður eykst og stéttarskipting er orðin raunveruleg og áþreifanleg í okkar samfélagi þar sem hinir ríku verða ríkari og fátækir sárafátækari.

Vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna verður í auknum mæli vart við grasserandi brotastarfsemi og ljóst að hægt er að tala um fyrirtæki sem jafnvel mætti kalla með einbeittann síbrotavilja gagnvart starfsfólki þrátt fyrir afskipti eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna. Ánægjulegt er samt að minnast á að flestir þeir sem eftirlitsfulltrúar hittu á árinu 2019 voru að standa sig betur á árinu 2020.

Brotastarfsemi gegn starfsfólki fer því fram fyrir opnum tjöldum og allt að því með samþykki stjórnvalda sem nánast hunsa ákall verkalýðshreyfingarinnar um viðurlög gegn síbrotastarfsemi atvinnurekanda. Stéttarfélögin hafa kallað eftir auknum verkfærum frá löggjafanum til að verjast ósvífnum atvinnurekendum en févítismálin svokölluðu sem lofað var í tengslum við Lífskjarasamninginn mjakast með hraða snigilsins í stjórnkerfinu. Það er í raun ótrúlegt að Alþingi vilji ekki taka af skarið og tryggja launafólki betri vörn en nú er raunin gegn réttindabrotum á vinnumarkaði.

Sömu sögu má segja um stöðu keðjuábyrgðar og aðgerðir gegn kennitöluflakki. Í þessum raunveruleika grasserar svarta neðanjarðarhagkerfið þannig að um 100 milljarðar fljóta framhjá fjársveltum ríkiskassanum. Á sama tíma hafa vaxandi atvinnugreinar í auknum mæli nýtt sér að útvista störfum eða kaupa starfsmannaþjónustu frá þjónustufyrirtækjum og starfsmannaleigum. Er það oft gert í skjóli þess að erfitt sé að manna í störf vegna skorts á vinnuafli í heimabyggð á sama tíma og atvinnuleysi er í hæstu hæðum á landsvísu.

Meiri harka er hlaupin í samskipti atvinnurekenda við starfsfólk og hefur félagið aldrei frá stofnun þess árið 2002 verið með eins mikinn fjölda mála í vinnslu eins og á árinu 2020. Hátt í 200 mál er varða einhverskonar ágreining eða brot á kjarasamningsbundnum réttindum starfsfólks komu inn á borð félagsins á árinu. Óvenju mörg þeirra mála hefur Verk Vest þurft að beita lögmönnum til að ná niðurstöðu, annaðhvort til innheimtu eða að fara með mál fyrir dómstóla. Ekki varða öll þessi mál hreinan launaþjófnað, en mörg málanna leystust í eðlilegum samskiptum þar sem atvinnurekandi brást vel við um ósk um launaleiðréttingu.

Segja má að toppnum í Covid19 málum og baráttu við útgerðarmenn hafi verið náð í lok október þegar hópsýking kom upp í togaranum Júlíusi Geirmundssyni þar sem 23 af 25 skipverjum sýktust eftir að skipstjóri virti að vettugi tilmæli sóttvarnayfirvalda að sigla skipinu til hafnar þegar grunur um Covid19 smit kom upp í byrjun veiðiferðar. Sú sögulega staða kom upp að stéttarfélög sjómanna tóku saman höndum við að verja hagsmuni skipverja og bæði kærðu málið til lögreglu og kröfðust sjóprófa sem hefðu átt að vera afgreidd mjög fljótt. Því miður töfðu lögmenn útgerðar og skipstjóra málið fram úr hófi með þeim afleiðingum að niðurstöður úr sjóprófum voru ekki ljósar fyrr en í desembermánuði, tæpum tveim mánuðum eftir umrædda veiðiferð.

Ljóst er að margir skipverja sem veiktust hafa enn ekki náð fullri starfsgetu og verður tíminn að leiða í ljós hverju fram vindur. Félög sjómanna munu að sjálfsögðu fylgja þeim málum fast eftir komi í ljós að sjómenn muni bera varanlegan heilsufarsskaða vegna skeytingarleysi útgerðar og skipstjóra að hunsa fyrirmæli sóttvarnaryfirvalda þegar hópsmitið kom upp. Rétt fyrir áramót gaf lögreglustjórinn á Vestfjörðum út ákæru á skipstjórann vegna brota á sjómannalögum.

Í lok árs er félagið enn í samningaviðræðum um endurnýjun stofnanasamninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en slíkir samningar eru gerðir við ríkisstofnanir í kjölfar endurnýjunar kjarasamninga við Fjármálaráðuneytið.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.