þriðjudagurinn 26. apríl 2016

Mál vegna vinnuslyss barns fyrnist hjá lögreglu

Brot á vinnuverndarlöggjöfinni virðast hafa lítið vægi hjá lögregluembættum landsins, jafnvel þó um vítaverð brot gegn barni sé að ræða. Um málið er fjallað á vef ASÍ.

Vinnueftirlit ríkisins kærði brotið til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í febrúar árið 2012 vegna fiskvinnslufyrirtækis í bænum. Ástæða kærunnar var þríþætt brot fiskvinnslufyrirtækisins á 14 ára barni sem endaði með alvarlegu vinnuslysi þar sem barnið missti m.a. framan af fingri og hlaut varanlega örorku. Brotin voru eftirfarandi:

  1. Barnið var látið vinna við hættulega vél sem er með öllu óheimilt að láta börn vinna við.
  2. Barnið vann á 12 tíma vöktum.
  3. Barnið var látið vinna á næturvöktum.

Með þessari háttsemi braut fiskvinnslufyrirtækið gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga.

Málið er því miður ekkert einsdæmi. Kærur Vinnueftirlitsins lenda gjarnan neðarlega á forgangslist lögreglu m.a. vegna þess hversu vægar refsingarnar eru. Til að koma í veg fyrir að þetta gerist þarf því að herða refsirammann og kveða á um að brot á vinnuverndarlöggjöfinni varði a.m.k. sektum eða 2 ára fangelsisvist, en við það lengist fyrningarfrestur slíkra mála í 5 ár.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.