miðvikudagurinn 13. janúar 2016

Miklar hækkanir á stökum sundferðum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verðbreytingar á gjaldskrám sundstaða hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1.1.15. til 1.1.16. Þrettán þeirra hækkuðu gjaldið á stökum miða. Seltjarnarneskaupstaður og Fljótdalshérað halda sömu gjaldskrá og í fyrra. Mesta hækkunin er hjá Sveitarfélaginu Árborg eða um 50% og hjá Reykjavíkurborg um 38%. Árskort fullorðinna hefur einnig hækkað í verði hjá 9 sveitarfélögum af 15, hjá fjórum er sama verð og í fyrra. Hjá Vestmannaeyjarbæ og Kópavogsbæ hafa kortin lækkað í verði frá því í fyrra.

Gjaldskrá fullorðinna

Stakur sundmiði slagar upp undir þúsund krónur hjá tveimur sveitarfélögum í könnuninni. Öll sveitarfélögin nema Seltjarnarneskaupstaður og Fljótdalshérað hafa hækkað gjaldið á stökum miða en þar kostar stakur miði 600 kr. Mesta hækkunin á milli ára er 50% hjá Sveitarfélaginu Árborg eða úr 600 kr. í 900 kr. sem er sama verð og hjá Reykjavíkurborg sem hækkar gjaldið úr 650 kr. í 900 kr. Hækkunin er 27% hjá Reykjanesbæ, 25% hjá Akureyrarkaupstað, 20% hjá Garðabæ, um 19% hjá Kópavogsbæ og um 17% hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Sveitarfélögin Fjarðarbyggð, Mosfellsbær, Ísafjarðarbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Vestmannaeyjabær og Akraneskaupstaður hækka aðeins minna, eða um 3-9%.

Misjafnar reglur sveitarfélaganna

Börn að grunnskólaaldri fá oft frítt í sund miðað við fæðingarár eða afmælisdag. Misjafnt er á milli sveitarfélaga hvenær barnagjald er tekið upp. Algengast er að greiða barnagjald fyrir börn frá 6 til 18 ára. En hjá sumum sveitarfélögum hefst gjaldtaka ekki fyrr en barn verður 10 ára. Einnig teljast börn í sumum sveitarfélögum fullorðin 16 ára. Flest sveitarfélög eru með frítt inn fyrir eldri borgara og öryrkja. Misjafnt er milli sveitarfélaga hvenær á bilinu 67-70 ára gjald fellur niður. Í sumum sveitarfélögum þar sem frítt er í sund fyrir börn, öryrkja og eldri borgara á það aðeins við íbúa viðkomandi sveitarfélags, aðkomumenn þurfa oft að greiða fullt gjald. Ýmis afsláttur er í boði hjá sveitarfélögum s.s. fjölskyldukort, paraafsláttur, magnkaup og ungmenna afsláttur.

Nánar á asi.is

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.