Á aðalfundi Verk Vest voru samþykktar breytingar og lögum og reglugerð sjúkrasjóðs, en auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var mjög góð umræða um kjaramál og graf alvarlega stöðu láglaunafólks. Umræður fundarins eru samninganefnd félagsinsmikilvægt innlegg inn í komandi kjaraviðræður. En ljóst er að helsta baráttumál næstu samninga verður að snúa við gríðarlegum ójöfnuði og aukinni misskiptingu á vinnumarkaði sem stjórnvöld bera fullkomna ábyrgð á.
Fundarmenn voru algjörlega sammála í umræðunni og kom fram að því miður væri fátækt orðin mjög áþreifanleg hjá börnum og ungmennum á félagssvæðinu. Svo áþreifanleg að börn og ungmenni eru farin að líða skort í skólum þar sem fæði grunnskólabarna er svo hátt verðlagt. Því miður er það svo að sum börn mæta nestislaus í skóla vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra sem eru skattpíndir í drep og ná ekki endum saman.
Fundurinn samþykkti því að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
"Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir fullkominni ábyrgð á stjórnvöld sem hafa markvisst unnið að auknum ójöfnuði á Íslandi undanfarna áratugi. Allar ríkisstjórnir frá 1990 hafa með markvissum hætti gert þá ríkari enn ríkari og fátæka algjörlega bláfátæka.
Kjaraskerðningar á íslenskt launafólk gegnum skatta og velferðarkerfið eiga sér engin fordæmi í samanburði við hin norðurlöndin. Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir þeirri stöðu.
Mælingar á kaupmætti ráðstöfunartekna staðfesta að frá þjóðarsáttarsamningum árið 1990 hefur verið tryggt að fjármagnseigendur njóti meiri skattaívilnana en almennt launafólk. Náði sú mismunun hámarki árin fyrir hrun, ekki einu sinni Bandaríkjamenn hafa gengið svo langt í að auka ójöfnuð.
Sömu sögu er að segja eftir hrun þar sem fjármagnseigendum eru tryggðar ríflegar uppbætur í formi lækkunar fjármagnstekjuskatta á sama tíma og skattbyrgði láglaunafólks er stóraukin.
Allt frá þjóðarsáttarsamningum hefur skatta- og vaxtabyrgði tekjulægsta hópsins aukist um tugi prósenta. Þannig er skattbyrgð láglaunafólks um 87% meiri en árið 1998. Afleiðingarnar eru stór aukin misskipting og ójöfnuður þar sem fátækt hefur náð að festa sig í sessi hjá láglaunafólki.
Bregðist stjórnvöld ekki strax við og taki skattajöfnunarmálin föstum tökum og færi til láglaunafólks má búast við hörðum átökum á vinnumarkaði. Þau átök verða algjörlega í boði og á ábyrgð stjórnvalda."