Í grein sem ég birti þann 21. september bendi ég á að þau olíuverðsviðmið sem notuð eru til ákvörðunar skiptaprósentu á skipum séu úr sér gengin og séu til þess fallin að láta sjómenn greiða útgerðunum rekstrarstyrk. Þessa fullyrðingu mína hafa útgerðarmenn gert athugasemd við og segja að olíuverðsviðmiðum hafi verið komið á til að auka hlut sjómanna í aflaverðmæti þegar olíuverð er lágt. Þessa ávinnings hafi sjómenn oft notið í auknu skiptaverðmæti, en olíuverð hafi verið í sögulegum hæðum undanfarin ár og aflahlutur sjómanna ekki verið skertur vegna þessa. Olíuverðsviðmið hafi verið til þess að hækka tekjur sjómanna og hafi verndað launakjörin gagnvart óeðlilegum sveiflum í olíuverði undanfarna áratugi.

Hvað olíuverðið sjálft til lengri tíma litið varðar tel ég, eins og ég sagði í greininni sem var birt 21. september, vera breytt rekstrarumhverfi fyrir útgerðina. Öll fyrirtæki lenda einhvern tíman í því að verð aðfanga til reksturs breytist á einhvern hátt, ýmist hækkar eða lækkar, og það takast rekstraraðilar á við án þess þó að sækja þann mismun í vasa starfsfólks síns. Það sama á að gilda um útgerðarmenn. Olíuverð hefur óumdeilanlega verið hátt, og jafnvel sögulegar hæðir eins og útgerðarmenn benda á, en það hafa líka verið lægðir sem útgerðarmenn benda ekki á. Við þurfum að leita 12 ár aftur í tímann til að sjá eins lág verð og voru núna fyrri part árs, og það dugði samt ekki til að stöðva að laun sjómanna rynnu til útgerðar. Olíukostnaður er stór póstur í rekstri útgerða og til að útgerðir lendi ekki í rekstrarvandræðum vegna sveifla í olíuverði höfum við umrætt olíuverðsviðmið sem er til þess fallið að taka mesta kúfinn af sveiflunum, ekki til að greiða niður olíu til lengri tíma. Hér erum við að tala um beggja hag, útgerðarmanna og sjómanna. Viðmiðið sem við notumst við í dag er mjög óréttlátt og þarf augljóslega að breyta.

Þegar tenging við olíuverð tók gildi í janúar 1987 var skiptaprósenta bundin í 75% en hreyfðist svo upp og niður samkvæmt olíuverðsviðmiði, og 1. júní 1987 hækkaði skiptaprósentan svo í 76%. Þessi lögbundna skiptaprósenta er sem sé leiðarvísir um sanngjörn laun sjómanna, en við þessa prósentu eru umrædd olíuverðsviðmið hengd þannig að skiptaprósenta geti sveiflast frá 70% til 80% eftir því hvort olíuverð sé hátt eða lágt það tímabilið. Kerfið er mjög snjallt og skilaði sínum tilgangi vel fyrstu þrettán árin, en á þeim tíma skiptust sjómenn og útgerðarmenn á að fá ávinning og gefa eftir af sínu (eins og útgerðarmenn bentu mér á að hefði gerst), allt eftir sveiflum í olíuverði. Eftir það virðast menn hafa tapað áttum hvað varðar tilgang kerfisins, því ágúst 1999 var síðasti mánuður sem sjómenn högnuðust á þessu fyrirkomulagi. Síðan þá hafa útgerðarmenn fengið hluta af launum sjómanna til sín í hverjum mánuði að fjórum mánuðum undanskildum, en þá var skiptaprósentan á pari. Ekki er hægt að líta öðrum augum á þetta en svo að um rekstrarstyrk til handa útgerðar frá sjómönnum sé að ræða.

Til að koma þessu í tölulegt samhengi skulum við taka dæmi um togara með 15 manna áhöfn sem fiskar fyrir 100 milljónir á mánuði á verðgildi dagsins í dag. Ef við förum 10 ár aftur í tímann hafa sjómenn ekki fengið neinn ávinning af þessu kerfi, en hins vegar hafa rúmlega 280 milljónir af launum sjómanna þessa skips runnið til útgerðar skipsins á þessum 10 árum. Ef við viljum skoða allt tímabilið frá því umrætt olíuverðsviðmið öðlaðist gildi fyrir tæpum 30 árum þá hafa sjómennirnir hagnast á þeim í 23 mánuði, staðið hefur á sléttu í 65 mánuði, en útgerðarmenn hafa hagnast á þeim í 269 mánuði. Þegar við höfum dregið frá þá upphæð sem sjómennirnir högnuðust um, þá hafa útgerðarmenn fengið í sinn hlut rúmar 479 milljónir af launum sjómannana, næstum 32 milljónir á hvert sjómannspláss umrædds togara.

Sú fullyrðing útgerðarmanna að olíuverð hafi verið í sögulegum hæðum og aflahlutur sjómanna ekki skertur vegna þess er undarleg í ljósi þessa dæmis sem er hér að ofan. Ég sé ekki betur en hlutur sjómanna sé verulega skertur vegna þessa, hér erum við klárlega að tala um rekstrarstyrk frá sjómönnum til handa útgerð.

Fyrir tíma olíuverðviðmiðsins, nánar tiltekið árið 1983, fengu sjómenn 39,166% í sinn hlut af heildar aflaverðmæti togara eins og við höfum dæmi um hér. Í dag fá sjómenn aftur á móti 27,416% af heildar aflaverðmæti þegar skiptaprósentan er í 70%. Þegar skiptaprósentan er í 76% eins og er talið eðlilegt fá sjómenn í sinn hlut 29,766% af heildar aflaverðmæti. Ef kraftaverk myndi gerast og olían yrði ódýrari en nokkurn mann skyldi gruna og skiptaprósentan færi í 80%, þá fengju sjómennirnir í sinn hlut 31,333% af heildar aflaverðmæti. Sjómenn hafa sem sé tapað helst til miklu síðan 1983 og vilja ekki halda áfram að tapa.

Bergvin Eyþórsson er sjómaður og trúnaðarmaður á Stefni ÍS-28 og er í samningaráði sjómanna hjá Verk Vest.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.