Þann 21. september síðastliðinn var birt grein eftir mig á vef Verk Vest undir yfirskriftinni Sjómenn borga útgerðarmönnum rekstrarstyrk – breytinga er þörf! Í kjölfarið fékk ég sendar athugasemdir frá útgerðarmönnum þar sem því er haldið fram að í greininni gæti mikils misskilnings sem þeir óska eftir að verði leiðréttur. Í fyrrnefndri grein bendi ég á að sjómenn beri skertan hlut hvað varðar bæði olíverðsviðmið í skiptaprósentu og nýsmíðaálag, en það sjónarmið fallast útgerðarmenn alls ekki á og vilja meina að bæði þessi atriði séu til þess fallin að hækka laun sjómanna. Í þessum pistli ætla ég að svara hvað varðar nýsmíðaálagið og kem með svar við olíuverðsviðmiðinu innan fárra daga.

Nýsmíðaálag virkar þannig að fyrstu sjö árin eftir að nýtt skip er tekið í notkun lækkar skiptaprósenta þannig að hún verði 10% lægri en annars. Í samningum er ákvæði um að útgerð tryggi það að aflahlutur á þessum skipum verði yfir meðalhlut í viðkomandi skipaflokki á ársgrundvelli, og við útreikning á meðalhlut skuli undanskilja 25% af tekjulægstu skipunum við útreikning á umræddum meðahlut á úthaldsdag. Útgerðarmenn benda á þetta ákvæði og segja sjómenn hagnast töluvert á nýsmíðaálaginu þar sem laun þeirra hækki vegna þessa viðmiða.

Það sem útgerðarmenn benda ekki á er tvennt. Annars vegar að ef gamla skipið sem er verið að skipta út er yfir umræddu meðaltali fyrir, þá þarf aflahlutur í raun ekkert að hækka, gæti meir að segja lækkað ef gamla skipið var vel yfir meðaltali.

Hins vegar gleymist að minnast á að þar sem skiptaprósenta lækkar vegna nýsmíðaálagsins þarf aflaverðmæti að aukast á móti til að halda sama hlut til sjómanna. Tökum hér dæmi um gamlan ísfisktogara með fimmtán manna áhöfn sem er endurnýjaður. Til að sjómennirnir haldi sömu launum á nýja skipinu og þeir höfðu á því gamla  þarf aflaverðmæti að aukast um 11,11%. Þar sem fiskverð breytist ekki við þetta leiðir það af sér að það þarf að fiska 11,11% meira, sem þýðir að vinnuframlag sjómanna verður að aukast í samræmi við það til að halda sömu launum. Ef við skoðum rök útgerðarmanna að launin aukist umtalsvert við þetta, þá þarf að fiska umtalsvert meira til auka launin umtalasvert. 20% launahækkun væri umtalsvert, en til að fá hana þarf að fiska 33,3% meira, fiskarnir sem koma um borð verða 33,3% fleiri. Ef gamla skipið fiskar fyrir 100 milljónir að jafnaði á mánuði þarf það að fá 168.540 þriggja kílóa þorska til að ná þessu verðmæti. Svo kemur nýtt skip og laun áhafnarinnar aukast um 20%, þá þarf að fiska 224.664 þriggja kílóa þorska. Það eru 56.124 fleiri fiskar (168 tonn) sem þarf að veiða og meðhöndla.

Til að átta okkur betur á þessu skulum við setja þetta í samhengi við launamann í frystihúsi sem vinnur 8 klukkustundir á dag og gefum okkur að vikulaun séu kr. 60.000.  Fiskverkandinn ákveður að byggja nýtt frystihús. Þar sem starfsmaðurinn fær afnot af nýjum skáp í búningsherbergi, fleiri bílastæði fyrir utan, flottari kaffistofu og betri vinnuaðstöðu ákveður fiskverkandinn að lækka launin tímabundið hjá starfsmanninum, enda dýrt að byggja nýtt frystihús. Eftir breytinguna verður starfsmaðurinn með kr. 54.000 á viku. Til að bæta starfsmanninum upp þessa lækkun gerir fiskverkandinn honum tilboð sem hann getur ekki hafnað. Tilboðið hljóðar upp á 20% launahækkun, þ.e. laun upp á kr. 72.000 á viku sem starfsmaðurinn þarf aðeins að vinna 10 klukkustundir og 40 mínútur á dag fyrir. Launin aukast sem sé um kr. 12.000 á viku og vinnustundum fjölgar um 13 klukkustundir og 20 mínútur á viku. Það er óumdeilanlegt að starfsmaðurinn hagnast fjárhagslega um kr. 12.000 á viku, en er hann í raun að hagnast á þessu, eða er hann að greiða fiskverkandanum rekstrarstyrk?

Bergvin Eyþórsson er sjómaður og trúnaðarmaður á Stefni ÍS-28 og er í samningaráði sjómanna hjá Verk Vest.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.