fimmtudagurinn 26. nóvember 2020

Sjóprófi lokið

Nú er sjóprófi um Covid-veiðiferð Júlíusar Geirmundssonar lokið og rétt að gera málinu skil.

Sjóprófið gekk mjög vel að okkar mati, en 16 skipverjar voru beðnir um að mæta og bera vitni og ekki nema tveir báðust undan mætingu, þannig að 14 skipverjar auk umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum báru vitni.

Tilgangur sjóprófa er að draga fram sem réttasta mynd af viðfangsefninu, veiðiferðinni í heild sinni í þessu tilfelli, og við þetta sjópróf sögðu menn sína sögu og svöruðu spurningum, hver með sinni röddu og út frá sinni upplifun, en hér er um eiðsvarinn vitnisburð skipverja að ræða. Skemmst er frá því að segja að sögur dekkmanna voru flestar mjög samhljóða og í takt við þær frásagnir sem höfðu áður komið frá skipverjum, upp til hópa voru okkar menn samkvæmir sjálfum sér og stóðu sig gríðarlega vel undir mikilli pressu og eiga hrós skilið.

Skipstjóri og útgerðarstjóri voru báðir í dómsal og hlýddu á framburð vitna, en þeir nýttu lögbundinn rétt sinn að tjá sig ekki á neinn hátt. Heilt yfir staðfestu skipverjar það sem þeir höfðu látið hafa eftir sér í kjölfar veiðiferðar auk þess sem dýpra var farið í atburði og þeir skilgreindir betur. Í sjóprófum hefur dómari heimild til að kveða til sérfróða menn sér til aðstoðar við sjóprófin, en sú heimild var ekki nýtt í þessu tilfelli.

Af því sem fram kom í sjóprófinu má ráða að helstu ágreiningsefni hafi verið eftirfarandi:

  • Var skipstjóri grandalaus um að skipverjar væru sýktir af Covid? Hefði skipstjóri átt að sigla skipinu í land í upphafi veiðiferðar?
  • Var heilsufar skipverja á ábyrgð skipstjóra?
  • Voru skipverjar látnir vinna nauðugir um borð?
  • Er upplifun þeirra skipverja sem hafa tjáð sig um veiðiferðina röng?

Eftirfarandi atburðarás er sett saman úr eiðsvörðum framburði vitna auk fárra skýringa.

Strax á öðrum degi veiðiferðar hafði skipstjóri samband við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum vegna veikinda um borð, sem sagði skipstjóra að hann þurfi að koma með manninn í land í sýnatöku þar sem það sé eina leiðin til að vita hvort um Covid sé að ræða. Ef Covid sé um borð komi þeir til með að veikjast einn af öðrum. Skipstjórinn leit svo á að þar sem engin staðfesting var á að um Covid væri að ræða þurfti hann ekki að fara í land í skimun, enda væru einkenni ekki ósvipuð flensueinkennum. Þrátt fyrir þessa óvissu skipstjóra féllu skipverjar eins og flugur, og hélt skipstjóri heilsufarsskrá yfir einkenni skipverja. Þegar skipverjar báru áhyggjur sínar af Covid upp við skipstjóra sló hann á ótta þeirra með þeim orðum að hann væri í sambandi við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum sem teldi þetta vera pest. Annað símtal skipstjóra til umrædds læknis skráði læknir hjá sér 18 dögum eftir fyrra samtalið og var skipið þá væntanlegt í land til olíutöku. Sendi skipstjóri þá lækni vel út fyllta heilsufarsskrá yfir skipverja sem sýndi að á fyrstu 7-8 dögunum eftir fyrra símtalið veiktist stór hluti áhafnarinnar. Var þá sýnataka skipulögð og leiddi í ljós að 22 af 25 skipverjum höfðu fengið veiruna. Aðspurður segir umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum að ekki sé hefð fyrir því að fylgja því eftir að farið sé eftir tilmælum um að koma í skimun, en hún hafi ekki haft neina ástæðu til að vantreysta skipstjóranum og ætla að hann fylgdi ekki tilmælum hennar um að koma í land á öðrum degi veiðiferðar.

Varðandi ábyrgð á heilsufari skipverja kom bersýnilega í ljós við sjópróf að skipverjar viðurkenndu allir sem einn að vera alltaf í síma- og netsambandi, þannig að enginn ómöguleiki hafi verið fyrir hendi fyrir þá að hafa samband beint við lækni. Staðreyndin er samt sú að þegar skip leggur úr höfn hafa skipverjar ekki lengur þann möguleika að skreppa til læknis eða hringja á sjúkrabíl, og ekki er heldur hægt að vera veikur heima í einn eða tvo daga. Vinnustaðamenning sjómanna byggir að mörgu leiti á gömlum (kannski úreltum) hefðum og Sjómannalögum nr. 35/1985. Í sjómannalögum stendur „Hafi skipstjóri ástæðu til að ætla að skipverji sé sjúkur skal hann sjá til þess að skipverji gangist undir læknisskoðun sé þess kostur“, en grunnstoð menningar sjómanna byggir á 49. grein þessa laga sem hljóðar svo: „Skipstjóri hefur í öllum efnum hið æðsta vald á skipinu“. Í þessari veiðiferð er ljóst að skipverjar veiktust og leituðu til skipstjóra sem fullvissar þá um að hann sé að vinna í málinu í samráði við lækni. Til nánari útskýringar er við hæfi að vitna beint til framburðar eins skipverjans sem bar vitni: „Á ég að fara fram fyrir mína yfirmenn og tilkynna að það sé Covid um borð? Mér þykir ágætlega vænt um starfið mitt!“. 

Vinnustaðamenning sjómanna hefur fyllt hjörtu okkar Íslendinga stolti lengur en nokkur lifandi Íslendingur man, þar sem samhentir jaxlar standa saman allir sem einn og enginn gefur eftir. Í sjóprófinu kom fram hjá okkar mönnum að þeir taka þessa menningu mjög alvarlega og líta svo á að það sé skylda þeirra að vinna meðan þeir eru uppi standandi nema skipstjóri, sem eins og áður segir hefur æðsta vald í öllum efnum á skipinu, leysi þá sérstaklega frá vinnuskyldu. Einn skipverjinn orðaði þetta sem svo að á meðan skipinu sé haldið á veiðum sé uppi skýlaus krafa um að menn vinni vinnuna sína. Lögmenn sjóprófsþola leiddu að því líkur að skipverjar hafi samt sem áður haft val um þetta og hafi þar af leiðandi ekki verið bókstaflega neyddir til vinnu samkvæmt þeirri skilgreiningu. Í því sambandi er reyndar litið fram hjá því sem fram kom að þegar Covid smit var staðfest um borð hafi skipverjar haft uppi mótbárur við því að fara í lokaþrif á skipinu og samt verið skikkaðir til vinnu.

Efnislega um veiðiferðina má segja að ljóst sé að Covid hafi verið blákaldur raunveruleiki okkar manna á dekki frá fyrstu dögum veiðiferðarinnar sem reyndi verulega á þá bæði andlega og líkamlega. Af spurningum lögmanna sjóprófsþola og vitnisburði vélstjóra virðist vera um annan veruleika að ræða bæði í vél og í brú. Þar álitu menn að um einhverja pest væri að ræða. Samskiptaleiðir um borð eru augljóslega ekki skilvirkar, en virðast upplýsingar um Covid ekki hafa ratað hvorki í vél né í brú.

Næstu skref hjá Verk Vest eru að koma endurriti sjóprófanna til Lögreglustjórans á Vestfjörðum, Samgöngustofu og Rannsóknarnefndar sjóslysa. Það sem við, hagsmunagæsluaðilar sjómanna, verðum að skoða í framhaldinu er hvernig við getum fyrirbyggt að svona endurtaki sig. Hér er ljóst að skipstjóri tekur skellinn þrátt fyrir að vitnisburðir í sjóprófi bendi til þess að hann hafi ekki tekið sínar ákvarðanir án aðkomu annarra. Okkar verkefni er að endurskilgreina vinnustaðamenningu sjómennskunnar svo regluverkið, hlutverk, boðleiðir og verkferlar styðji hvert við annað, vonandi í góðri samvinnu við útgerðarmenn til að tryggja öruggt starfsumhverfi sjómanna til framtíðar.

 

 

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.