fimmtudagurinn 1. febrúar 2018

Skipulags- og starfsmannabreytingar hjá Verk Vest

Félagsmenn okkar og aðrir viðskiptavinir verða varir við ýmsar breytingar hjá Verk Vest nú um mánaðarmót. Fyrst er að nefna að ráðinn hefur verið til Verk Vest varaformaður félagsins, Bergvin Eyþórsson, og mun hann gegna starfi skrifstofustjóra ásamt því að sinna vinnustaðaeftirliti og vinnu við kjara- og réttindamál. Bergvin er fjölskyldumaður búsettur í Hnífsdal, og hefur frá árinu 2008 jafnfætis stundað sjómennsku og nám við Háskólann á Akureyri, en þar lagði hann fyrst stund á kennarafræði og síðar viðskiptafræði. Síðari ár gengdi hann þar að auki hlutverki trúnaðarmanns skipverja á skuttogaranum Stefni ÍS-28 ásamt því að vera í samninganefnd félagsins vegna kjarasamninga sjómanna. Fyrir tíma náms og sjómennsku var Bergvin verslunar- og rekstrarstjóri Hyrnunnar í Borgarnesi, og þar á undan var hann verslunarstjóri í verslun Bónuss á Ísafirði til sex ára. Verk Vest býður Bergvin velkominn til starfa fyrir félagið.

Þá hefur verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits, María Lóa Friðjónsdóttir, látið af störfum en María mun hefja störf hjá ASÍ þann 1. febrúar. Verkefnastjórn vinnustaðaeftirlits færist í framhaldinu til skrifstofu félagsins á Hólmavík og verður í umsjón Ingibjargar Benediktsdóttur starfsmanns félagsins á Hólmavík. Starfsmaður félagsins til næstum 12 ára og fyrrverandi gjaldkeri Eygló Jónsdóttir lét einnig af störfum nú um mánaðarmót. Stjórn og starfsfólk Verk Vest færir þeim Eygló og Maríu Lóu þakkir fyrir samstarfið og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.