Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 17 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023.
Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:
Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.
SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar. Hægagangurinn sem hefur verið í þeirri vinnu er alfarið á ábyrgð samningarnefndar ríkisins og ekki hægt bíða þeirrar niðurstöðu til að okkar fólk fái löngu tímabærar launahækkanir.
Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtlas í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar.